Virðisaukaskattur og útvistun verkefna

Leiðari Íslensks iðnaðar í desember 2006

18. des. 2006

  • Sveinn Hannesson
Það á ekki að stýra því með virðisaukaskatti hvaða vörur og þjónustu einkaaðilar geta boðið opinberum aðilum. Samtökin hafa lagt til að allur greiddur virðisaukaskattur verði endurgreiddur ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum en fjárframlög til þeirra lækkuð að sama skapi. Eftir stendur þá hjá þeim það hagræði að gera eigin innkaup með sem hagkvæmustum hætti.

Í júní á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin, að tillögu fjármálaráðherra, stefnu um kaup ríkisins og stofnana þess á þjónustu og útvistun á ýmsum rekstrarþáttum sem ríkið hefur með höndum.

Risinn á markaðinum

Kaup ríkisins á vörum og þjónustu eru talin vera um 90 milljarðar króna á ári. Það svarar til um 58% af útgjöldum ríkissjóðs vegna rekstrar og fjárfestinga. Það fer ekki á milli mála að ríkið er langstærsti innkaupaaðili á markaði og er þannig í lykilstöðu til að efla samkeppni og skapa ný viðskiptatækifæri á frjálsum markaði.

Útvistunarstefnan

Með nýju Útvistunarstefnunni er ákveðið að ráðuneytin skuli fyrir árslok 2006 marka sér stefnu um aukna útvistun verkefna. Í þessu felst m.a. að ráðuneyti og ríkisstofnanir eiga að setja fram forgangsröðun og tímaáætlun fyrir útvistun þeirrar þjónustu og rekstrarverkefna sem ríkið annast nú þegar og um ný verkefni. Í stefnunni felst einnig að sett verða fram mælanleg markmið og gerð verður árleg úttekt á vegum fjármálaráðuneytisins á framgangi stefnunnar.

Til mikils að vinna

Markmiðið er að innkaup vöru og þjónustu af útgjöldum ríkisins, án tilfærslna og vaxtagjalda, aukist um 2% á ári og hlutfall sömu þátta sem ríkið hefur sjálft með höndum lækki samsvarandi. Markmiðið er að með útvistun nái ríkið 400 millj. kr. ávinningi árlega á árunum 2007-2010, samtals 1.600 millj. kr. sem ríkisstofnunum er ætlað að nýta til bættrar þjónustu.

Rökrétt stefna

Stefnan, sem hér er mótuð, er í senn hagkvæm og rökrétt. Hún er algerlega í samræmi við innkaupastefnu ríkisins frá árinu 2002 en þar segir meðal annars:

„Eðlileg krafa til ríkisstofnana er að skoðað sé með reglulegum og skipulegum hætti hvort verkefni séu leyst með hagkvæmari hætti innan stofnunar en með því að kaupa þjónustuna á almennum markaði.“

Alvarleg hindrun

Því miður er það svo að þarna stendur oft hnífurinn í kúnni. Það er nefnilega ekki rétt gefið. Gildandi reglur um virðisaukaskatt og framkvæmd þeirra standa í vegi fyrir því að opinberir aðilar geti nýtt til fulls tækifæri til hagkvæmra innkaupa á almennum markaði. Hindra beinlínis jafnræði og samkeppni á markaði.

Vandinn er sá að ýmiss konar vörukaup og þjónusta, sem einkaaðilar bjóða og opinberir aðilar kaupa til starfsemi sinnar, uppfylla ekki skilyrði um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Hann verður því að kostnaðarauka hjá þessum ríkisstofnunum og fyrirtækjum.

Gagnvart einkaaðilum jafngildir þetta því að opinber fyrirtæki og stofnanir, sem byggja upp eigin þjónustu á þessum sviðum, búi við 24,5% tollvernd.

Forsenda útvistunar

Afstaða atvinnulífsins er skýr: Það á ekki að stýra því með virðisaukaskatti hvaða vörur og þjónustu einkaaðilar geta boðið opinberum aðilum. Samtökin hafa lagt til að allur greiddur virðisaukaskattur verði endurgreiddur ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum en fjárframlög til þeirra lækkuð að sama skapi. Eftir stendur þá hjá þeim það hagræði að gera eigin innkaup með sem hagkvæmustum hætti. Þessi breyting er alger forsenda þess að útvistunarstefnan góða verði að veruleika.