Bjartsýni í byrjun árs

Leiðari Íslensks iðnaðar í janúar 2007

26. jan. 2007

  • Helgi Magnússon
Samtök atvinnulífsins og Seðlabanki Íslands birtu í lok desember sl. niðurstöður reglubundinnar könnunar Capacent Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og framtíðarhorfum. Tæplega þrír fjórðu stjórnenda telja að núverandi aðstæður í efnahagslífinu séu góðar og hafa sjaldan verið bjartsýnni.

Samtök atvinnulífsins og Seðlabanki Íslands birtu í lok desember sl. niðurstöður reglubundinnar könnunar Capacent Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og framtíðarhorfum. Tæplega þrír fjórðu stjórnenda telja að núverandi aðstæður í efnahagslífinu séu góðar og hafa sjaldan verið bjartsýnni. Greiningardeildir bankanna og fjármálaráðuneytið hafa kynnt mat sitt á stöðu og horfum og þar er allt á sömu bókina lært – það er bjart framundan. Enginn talar lengur um harða lendingu hagkerfisins á árinu 2007 heldur um aðlögun eða jafnvel bara dýfu.

Fyrir hálfu ári voru menn ekki eins bjartsýnir og sumir spáðu verri tíð en þær raddir eru að mestu þagnaðar, a.m.k. í bili. Ekki er auðvelt að gefa einhlítar skýringar á þessu. Fyrirfram hefði mátt ætla að 14,25% stýrivextir, 7% verðbólga og verulegar sveiflur í gengi krónunnar gefi ekki tilefni til þess að meta efnahagsástand og horfur mjög góðar.

Áhyggjulaus eyðslukló

Flestir eru nú sammála um að þensluáhrif vegna stóriðju- og virkjanaframkvæmda hafi fyrirfram verið ofmetin en mikil einkaneysla og breytingar á húsnæðislánakerfinu hafi valdið mestu um þenslu í hagkerfinu undanfarin ár. Mikill viðskiptahalli fjármagnaður með erlendum lánum ætti að vera áhyggjuefni en forstjórar stærstu fyrirtækja landsins virðast áhyggjulausir og sama er að segja um almenning. Íslenska eyðsluklóin horfir áhyggjulaus fram á nýja árið. Ekki er hægt að draga aðra ályktun en að Íslendingar séu ónæmir fyrir háum vöxtum og verðlagi.

Útlendingar til bjargar

Margt stuðlar raunar að því að áhrif þessara miklu framkvæmda og neyslu á síðasta ári eru þó ekki verri en raun ber vitni. Það er alveg ljóst að afnám hindrana á frjálsi för launafólks af öllu EES-svæðinu, sem tók gildi 1. maí 2006, gerbreytti ástandinu á íslenskum vinnumarkaði. Það er algerlega óhugsandi að við hefðum komist klakklaust gegnum þetta þensluskeið án innfluttra starfsmanna sem að auki hafa lagt drjúgan skerf til íslenska hagkerfisins að undanförnu. Vinnufriður var einnig tryggður með endurskoðun og framlengingu kjarasamninga. Þar var mikilvægt skref sem ekki má gleymast.

Stýrivextir bíta ekki sem fyrr

Þessi mikla bjartsýni stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins endurspeglar einnig þá miklu breytingu sem orðið hefur á íslenskum fyrirtækjum. Hnattvæðingin veldur því að þau fyrirtæki finna minna en ella fyrir háu vaxtastigi hér á landi, því að meirihluti þeirra fær tekjur erlendis frá og flest þeirra eru að mestu fjármögnuð með erlendu lánsfé. Þau finna því lítið fyrir svimandi stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Þessi staða leiðir hugann óneitanlega að því hvort ósamhverf hagsveifla á Íslandi, t.d. í samanburði við önnur Evrópulönd, heyri senn sögunni til. Hagsveiflur á Íslandi ráðast ekki lengur af aflabrögðum eða verði á fiskmarkaði.

Efnahagslífið er viðkvæmt

Á síðasta ári urðu miklar sviptingar í gengi krónunnar og verði hlutabréfa. Íslenska hagkerfið er agnarsmátt með viðkvæma og sveiflukennda mynt. Erlendis er gjarna talað um Íslendingana eins og eitt fyrirtæki eða eina fjölskyldu. Það sýndi sig greinilega að óvægin gagnrýni á íslensku bankana setti gengi krónunnar og hlutabréfamarkaðinn á annan endann. Vonandi hafa menn lært af reynslunni þannig að minni líkur séu nú á slíku upphlaupi. Hins vegar er ljóst að djörf útrás íslenskra fyrirtækja og mikil skuldsetning fyrirtækja og heimila gera íslenskt efnahagslíf viðkvæmt fyrir áföllum. Þá hafa erlendir fjárfestar gefið út svokölluð krónubréf fyrir áður óþekktar fjárhæðir og ákvörðun þeirra um kaup eða sölu slíkra bréfa geta haft áhrif sem við höfum ekki áður þurft að glíma við.

Farsæld til framtíðar

Það eru margar ástæður fyrir bjartsýninni en engu að síður þarf að fara varlega og koma meiri aga og jafnvægi á efnahagslífið, hvort sem við tökum upp evru sem gjaldmiðil eða notum krónuna áfram enn um sinn. Hagvöxtur undanfarinna ára byggist óþægilega mikið á einkaneyslu og skuldsetningu. Vonandi tekst að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir hagvöxt komandi ára. Það er okkar besta og eina trygging fyrir hagvexti og hagsæld til framtíðar.