Áfangi í þróun íbúalýðræðis?
Leiðari Íslensks iðnaðar í mars/apríl 2007
Atkvæðagreiðsla um stækkun álversins í Straumsvík fór fram 31. mars. Niðurstaðan er sú að nei sögðu 6.382 (50,3%) en já sögðu 6.294 (49,7%). Munurinn er 88 atkvæði. Hafnfirðingar hafa með ótrúlega naumum meirihluta hafnað stækkun stærsta iðnfyrirtækis í bænum.
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði segir atkvæðagreiðsluna „Mikilvægan áfanga í þróun íbúalýðræðis.“ Það er ástæða til að velta fyrir sér hver verður næsti áfangi í þróun íbúalýðræðis. Stóra spurningin hér hlýtur að vera sú hvort og við hvaða aðstæður slíkum íbúakosningum verður framvegis beitt í tengslum við uppbyggingu atvinnurekstrar í tíma og ótíma? Verða slíkar íbúakosningar teknar upp í öðrum sveitarfélögum eða einskorðaðar við Hafnarfjörð?
Að lokinni atkvæðagreiðslu um stækkun álversins í Straumsvík er rétt að staldra við og skoða niðurstöðuna.
88 atkvæði
Niðurstaðan er sú að nei sögðu 6.382 (50,3%) en já sögðu 6.294 (49,7%). Munurinn er 88 atkvæði. Niðurstaðan er sú að íbúar Hafnarfjarðar eru klofnir í tvær hnífjafnar fylkingar. Hafnfirðingar hafa með ótrúlega naumum meirihluta hafnað stækkun stærsta iðnfyrirtækis í bænum og þar með stytt líftíma þess til muna.
Afturvirk og íþyngjandi aðgerð
Sá, sem þetta skrifar, hefur fyrir löngu lýst efasemdum um þá aðferð bæjarstjórnar í Hafnarfirði að setja stækkun álversins í atkvæðagreiðslu. Ástæðan er m.a. sú að engar reglur eru til um slíka atkvæðagreiðslu. Hún er þar að auki í þessu tilviki afturvirk íþyngjandi aðgerð sem beinist að tilteknu fyrirtæki. Bæjaryfirvöld hafa unnið með Alcan í mörg ár að stækkun álversins og seldu því lóð fyrir fjórum árum að undangengnu umhverfismati. Starfsleyfi var gefið út fyrir tveim árum og orkukaupasamningar gerðir við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur í fyrra. Það er ekki fyrr en 23. janúar 2007 sem formleg tillaga um almenna atkvæðagreiðslu er lögð fram í bæjarráði Hafnarfjarðar. Fyrirtækið hefur lagt í kostnað sem nemur hundruðum milljóna vegna fyrirhugaðrar stækkunar og þarf auk þess að bera kostnað af því að kynna eigin málstað og standa í kosningabaráttu upp á líf og dauða. Það verður fróðlegt að sjá hvort fyrirtækið lætur nú reyna á réttarstöðu sína gagnvart Hafnarfjarðarbæ.
Margir skaðast en hver hagnast?
Það er alveg ljóst að allt þetta ferli hefur stórskaðað Alcan í Straumsvík. Fyrirtækið hefur eytt stórfé í að undirbúa stækkun sem nú er felld með naumum meirihluta. Þessi niðurstaða skaðar starfsmenn álversins og fjölskyldur þeirra og setur atvinnuöryggi þeirra í uppnám. Sama er að segja um fjölmarga undirverktaka og birgja álversins, sem verða af viðskiptum sem nema hundruðum milljóna króna á ári hverju.
Verst fyrir Hafnarfjarðarbæ
Öllum má nú vera ljóst að fyrirtæki, sem eru með atvinnurekstur í Hafnarfirði eða íhuga að starfa þar, geta búist við hverju sem er úr þeirri átt. Svo mikið er víst að þessi meðhöndlun á atvinnufyrirtæki er fáheyrð og ekki til þess fallin að laða atvinnurekstur til Hafnarfjarðar. Bæjarfélagið verður um ókomin ár af skatttekjum sem nema hundruðum milljóna á ári frá fyrirtækinu, starfsmönnum þess og undirverktökum. Að auki þarf Hafnarfjarðarbær að leggja í verulegan kostnað vegna umsaminna raflínulagna í jörð þó að ekki verði af stækkun.
Engin skoðun á eigin tillögum
Undarlegast af öllu er að meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði lét ekki og hefur enn ekki látið uppi neina skoðun á eigin samningagerð og skipulagstillögum. Það er lágmarkskrafa til kjörinna fulltrúa að þeir standi eða falli með eigin tillögum, jafnvel þótt þeir kjósi að leggja þær tillögur í dóm kjósenda.
Umhverfismálin
Allir, sem hafa kynnt sér staðreyndir um umhverfisáhrif frá stækkuðu álveri í Straumsvík, vita og viðurkenna að lífi og heilsu Hafnfirðinga er á engan hátt stefnt í hættu með rekstri álversins í Straumsvík hvort sem það verður stækkað eða ekki. Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni 31. mars breytir þar engu um.
Svo eru þeir sem hugsa um umhverfismálin hnattrænt. Margir þeir, sem hafa áhyggjur af umhverfismálum og gróðurhúsaáhrifum heimsins, eru heiðarlegt fólk sem vill láta gott af sér leiða. Það er hins vegar mikil sjálfsblekking að trúa því að með því að stöðva stækkun álversins í Straumsvík sé dregið úr gróðurhúsaáhrifum í heiminum. Allar horfur eru á að virkjanir í neðri hluta Þjórsár verði byggðar og raforkan notuð til álframleiðslu annars staðar, sennilega í Helguvík. Þar þarf enga atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan í Hafnarfirði mun heldur ekki stöðva eða slá á frest öðrum áformum um orkufrekan iðnað. Sennilega þvert á móti. Jafnvel þótt umhverfisverndarsinnum tækist að stöðva frekari uppbyggingu hérlendis og koma álframleiðslunni til annarra landa eru sterkar líkur á að hnattrænu áhrifin yrðu neikvæð. Það er nefnilega óvíða í heiminum hægt að framleiða ál með minni umhverfisáhrifum en einmitt hér.
Áfangi í þróun íbúalýðræðis?
Að lokum: Það eru hreinustu öfugmæli þegar bæjarstjórnar- meirihlutanum í Hafnarfirði er hrósað fyrir það hugrekki að setja stækkun álversins í atkvæðagreiðslu rétt í þann mund sem framkvæmdir ættu að vera að hefjast. Það eru enn meiri öfugmæli þegar bæjarstjórinn kallar niðurstöðuna: „Mikilvægan áfanga í þróun íbúalýðræðis.“ Það er ástæða til að velta fyrir sér hver verður næsti áfangi í þróun íbúalýðræðis í Hafnarfirði. Hann hlýtur því að gefa út yfirlýsingu um það hvernig hann hyggst beita slíkri atkvæðagreiðslu í tengslum við uppbyggingu atvinnurekstrar í Hafnarfirði. Sá, sem verður næstur, þarf að vita í tæka tíð að hverju hann gengur.