Þjóðarsátt um stöðugleika

Leiðari Íslensks iðnaðar í maí 2007

30. maí 2007

  • Sveinn Hannesson
Á Írlandi hefur verið mikill hagvöxtur undanfarin ár. Mun meiri raunar en á Íslandi. Eins og allir vita hafa Írar tekið upp evruna og eru því ekki lengur með sjálfstæða peningastjórn. Samkvæmt kenningum þeirra, sem tala fyrir svokallaðri sjálfstæðri peningastjórn smáþjóða, ættu Írar að vera í vondum málum. Samkvæmt því ættu Írar að hafa mikla þörf fyrir að hækka vexti upp úr öllu valdi til að verjast verðbólgu vegna mikils hagvaxtar.

Á Írlandi hefur verið mikill hagvöxtur undanfarin ár. Mun meiri raunar en á Íslandi. Eins og allir vita hafa Írar tekið upp evruna og eru því ekki lengur með sjálfstæða peningastjórn. Samkvæmt kenningum þeirra, sem tala fyrir svokallaðri sjálfstæðri peningastjórn smáþjóða, ættu Írar að vera í vondum málum. Samkvæmt því ættu Írar að hafa mikla þörf fyrir að hækka vexti upp úr öllu valdi til að verjast verðbólgu vegna mikils hagvaxtar.

Heilbrigður hagvöxtur

En Írar hvorki geta né vilja hækka vexti upp úr öllu valdi. Þeir búa við stöðugleika í gengi og verðlagi. Hagvöxtur þeirra er byggður á traustum grunni mikilla erlendra fjárfestinga og vaxandi útflutningsframleiðslu.

Íslenskur hagvöxtur á því miður að allt of miklu leyti rætur að rekja til einkaneyslu og erlendrar skuldasöfnunar. Slíkur hagvöxtur verður ekki sjálfbær til lengdar.

Stöðugleiki og agi í hagstjórninni

Það er áhugavert að skoða reynslu nágrannalanda okkar, Finnlands og Írlands, af aðild sinni að ESB. Það ætti að vera fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að fræðast um þann stöðugleika og aga sem einkennir efnahagsstjórnina í þessum löndum.

Bæði eru þau í hópi smáþjóða innan ESB. Bæði hafa tekið upp evru og bæði búa við hvað mestan hagvöxt af Evrópulöndum. Alveg sérstaklega er áhugaverð sú samstaða eða þjóðarsátt sem tekist hefur um það að launaþróun sé í takt við framleiðniaukningu og að stöðugleiki í efnahagslífinu sé grundvallarforsenda framfara.

Hér er annað uppi á teningnum

Launahækkanir hér á landi hafa um langt árabil verið tvöfalt til þrefalt meiri en í nágrannalöndunum og því miður algerlega úr takti við framleiðniþróun. Einkaneysla og opinber útgjöld hafa vaxið gífurlega. Afleiðingin er óhjákvæmilega aukin verðbólga sem ætti varla að koma á óvart því að þrátt fyrir allt gilda grundvallarlögmál hagfræðinnar á Íslandi þótt margir eigi erfitt með að trúa því.

Stýrivextir og vaxtarmunur milli Íslands og Evrópu 2001-2007

Krónan í gíslingu

Seðlabanki Íslands hefur reynt að halda verðbólgu í skefjum með gífurlegum vaxtahækkunum. Þær hafa á hinn bóginn valdið því að gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um rúm 11% frá áramótum. Íslenska krónan er komin í gíslingu erlendra spákaupmanna en það sem af er ári hafa samtals verið gefin út jöklabréf að fjárhæð 156 milljarðar króna.Sveinn Hannessonframkvæmdastjóri SI

Óraunhæf kosningaloforð

Vonandi verður ekki staðið við öll þau óraunhæfu loforð sem gefin voru út fyrir kosningarnar. Það er óumdeilt að draga þarf úr þenslu í hagkerfinu en þá ríður á að forgangsraða þannig að arðbær verkefni, sem skapa gjaldeyristekjur og draga úr viðskiptahalla, fái forgang en gæluverkefnum stjórnmálamanna og innistæðulausum kosningaaloforðum verði slegið á frest.

Þurfum þjóðarsátt

Vonandi tekst nýrri ríkisstjórn að finna leið út úr efnahagslegum ógöngum sem við Íslendingar höfum ratað í með hina veiku og óstöðugu mynt okkar. Ný ríkisstjórn þarf að ná þjóðarsátt um að halda opinberum útgjöldum í skefjum. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að ná sátt um að gera raunahæfa kjarasamninga.

Taka þarf evruna og ESB aðild á daggskrá og skoða fordómalaust reynslu annarra smáríkja af aðild. Við þurfum að nota næsta kjörtímabil til að aga efnahagsstjórnina og ná niður vöxtunum. Þá þarf að taka umræðuna um aðild föstum tökum. Menn mega ekki setjast óundirbúnir að samningaborði þegar kemur að aðildarviðræðum.