Hvað felst í fríverslunarsamningi við Kína?
Leiðari Íslensks iðnaðar í júní 2007
Formlegum viðræðum Íslendinga og Kínverja um fríverslun verður haldið áfram síðar í þessum mánuði. Ekki hafa fengist nægilega skýrar upplýsingar frá stjórnvöldum um hvað á nákvæmlega að semja og viðræður ríkjanna vekja því margar spurningar. Ísland er eitt örfárra ríkja sem hafa viðurkennt Kína sem markaðshagkerfi í skilningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), með samkomulagi ríkjanna hinn 1. maí 2005. Evrópusambandið hefur ekki viljað viðurkenna Kína sem markaðshagkerfi af margvíslegum ástæðum. Má þar helst nefna áhrif stjórnvalda á fyrirtækjarekstur í landinu, skort á löggjöf sem verndar einkarétt, skattaívilnanir stjórnvalda fyrir kínversk fyrirtæki, hindranir á því að evrópsk fyrirtæki geti tekið þátt í opinberum innkaupum í Kína og almennar hindranir fyrir evrópsk fyrirtæki á þeim markaði. Loks má nefna að Evrópusambandið hefur áhyggjur af vaxandi viðskiptahalla milli Evrópu og Kína. Þegar framangreint er haft í huga vekur þetta frumkvæði íslenskra stjórnvalda óneitanlega athygli.
Með þessari viðurkenningu hafa Íslendingar jafnframt skuldbundið sig til að beita ekki undirboðstollum á vörur frá Kína nema að uppfylltum mjög ströngum kröfum um að sannað hafi verið að undirboð hafi átt sér stað, skv. reglum WTO. Evrópusambandið hefur hins vegar nýtt sér undanþáguákvæði í bókun WTO vegna aðildar Kína að stofnuninni sem slakar á þessum ströngu sönnunarkröfum og lagt undirboðstolla á vörur frá Kína, t.d. stálvörur og skófatnað.
Íslendingar hafa skuldbundið sig til að beita ekki undanþáguákvæðinu
Í fyrrnefndu samkomulagi frá 1. maí 2005 er sérstaklega tekið fram að Íslendingar muni ekki beita áðurnefndu undanþáguákvæði í viðskiptum ríkjanna. Þetta samkomulag þýðir því í reynd að íslenskur iðnaður er mun berskjaldaðri gagnvart innflutningi á ódýrum vörum frá Kína en iðnaður annars staðar í Evrópu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu erfitt það er fyrir iðnaðinn hér á landi að keppa við iðnaðarvörur frá Kína þar sem framleiðslukostnaðurinn er miklu lægri en hér en þann mun má aðallega rekja til þess að kjör launafólks í Kína eru allt önnur en hér á landi.
Ísland milliliður fyrir viðskipti milli Kína og meginlands Evrópu?
Töluvert hefur borið á þeirri umræðu hér að hagstæð skilyrði gætu orðið til þess að Ísland yrði milliður fyrir viðskipti milli Kína og meginlands Evrópu. Einnig gæti verið hagkvæmt að flytja hálfunnar vörur frá Kína til Íslands, fullvinna þær hér og selja í öðrum Evrópulöndum. Ekki er þó gefið að málið sé alveg svo einfalt því að samkvæmt svokölluðum upprunareglum, sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, verður að vera á hreinu hvaðan varan kemur. Ef hún kemur frá Kína er hún meðhöndluð sem innflutningsvara þaðan. Þá vakna einnig spurningar um hvernig Evrópusambandið muni bregðast við reyni Íslendingar að fara þessa leið, þ.e. fá íslenskt upprunavottorð á slíkar vörur og selja þær áfram til annarra Evrópulanda. Hvaða áhrif kynnu slíkar ráðstafanir að hafa á aðild okkar að EES-samningnum?