Óljóst markmið peningastefnunnar

Leiðari Íslensks iðnaðar í júlí 2007

9. júl. 2007

  • Bjarni Már Gylfason
Skilyrði þess að peningastefna, sem byggist á verðbólgu­markmiði geri sitt gagn, eru í grundvallaratriðum tvö. Í fyrsta lagi að Seðlabankinn sé sjálfstæður í ákvörðunum sínum og láti hvorki stjórnmálamenn né aðra hagsmuna­gæslu­hópa hafa áhrif á þær. Annað skilyrðið er að Seðlabank­inn hafi engin önnur markmið svo sem um gengi, atvinnu­stig, atvinnuleysi, launaþróun eða hagvöxt. Þar að auki er afar mikilvægt að Seðlabankinn njóti trausts og trúverðug­leika.

Skilyrði þess að peningastefna, sem byggist á verðbólgu­markmiði geri sitt gagn, eru í grundvallaratriðum tvö. Í fyrsta lagi að Seðlabankinn sé sjálfstæður í ákvörðunum sínum og láti hvorki stjórnmálamenn né aðra hagsmuna­gæslu­hópa hafa áhrif á þær. Annað skilyrðið er að Seðlabank­inn hafi engin önnur markmið svo sem um gengi, atvinnu­stig, atvinnuleysi, launaþróun eða hagvöxt. Þar að auki er afar mikilvægt að Seðlabankinn njóti trausts og trúverðug­leika. Trúi almenningur og fjármagnsmarkaður því ekki að Seðlabankanum takist að ná markmiði sínu taka fjármálaleg­ar ákvarðanir mið af því og festa of mikla verðbólgu í sessi. Við þær aðstæður er illmögulegt að draga úr verðbólguvænt­ing­um.

Gengismarkmið?

Seðlabankinn er býsna sjálfstæður en er eðlilega ekki óháð­ur stjórnvöldum því að markmið peningastefnunnar hlýtur að vera sett í samráði við þau. Hins vegar er spurning hvort einhver önnur markmið séu fyrir hendi. Fram til ársins 2001 var gengismarkmið og samkvæmt því var stefnt að því að halda genginu stöðugu innan vikmarka. Frá sjónarhóli verðlags­stöðugleika var það heppilegt þar sem gengisþróun og verðbólga á Íslandi eru nátengd. Eftir að núverandi peninga­stefna var tekin upp varð þetta samband hins vegar helsta vandamálið. Ástæðan er sú að ekki er hægt að tryggja lága verðbólgu nema gengið sé stöðugt því að gengisfalli fylgir ævinlega verðbólguskot. Mörg dæmi eru um það frá síðustu árum. Vegna þess neyðist Seðlabankinn til að reyna stuðla að tilteknu gengi til að ná markmiðum sínum – gengið verður eins konar millimarkmið. Um leið brestur skilyrði þess að hægt sé að nota verðbólgumarkmið sem hornstein peninga­stefnunnar.

Kjarni vandans

Sé litið fram hjá þeim vanda, sem skapast vegna þess hve ósamstiga fjármálastefna og peningamálastefna hafa verið, er meginvandinn sá að miklar gengissveiflur og verðlagsstöð­ug­­leiki samrýmast ekki í jafn litlu hagkerfi og okkar. Ástæðan er sú að við erum mjög háð innflutningi og þurfum að flytja inn mjög mikið af neysluvörum. Þegar stýrivextir eru hækkaðir til að kæla hagkerfið styrkist gengið, einkaneysla eykst sem og almenn bjartsýni þvert á markmið Seðlabankans.

Nú blasir sú staða við Seðlabankanum að vextir eru mjög háir, gengi krónunnar sterkt en verðbólga mikil. Horfur eru á samdrætti í efnahagslífinu í ár. Einkaneysla dregst líklega saman, atvinnuleysi eykst, fjárfestingar minnka mikið og senni­lega verður þorskkvóti skertur verulega. Þetta er dæmi­gert um aðstæður sem krefjast vaxtalækkunar.

Til að ná eina markmiði sínu um stöðugt verðlag þarf bankinn fyrst og fremst að huga að genginu. Þess vegna getur hann ekki lækkað vexti án þess að raska markmiðinu þrátt fyrir augljósa efnahagslega þörf fyrir annað. Staða Seðlabankans er ekki öfundsverð.

Nýtum samráðsvettvanginn

Nýlega tók til starfa samráðsvettvangur ríkisins, aðila vinnu­markaðarins og sveitarfélaga um efnahagsmál, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er verðugt verk­efni fyrir þann vettvang að greina það ástand sem ríkir í peningamálum þjóðarinnar þar sem önnur tveggja hagstjórn­ar­stoða hagkerfisins, peningamálastjórnunin, er í pattstöðu.

Sú breyting, sem gerð var árið 2001 um að taka upp verð­bólgumarkmið, var líklega rétt á þeim tíma enda engir aðrir kostir í boði. Nú eru aðrar aðstæður í efnahagslífinu sem krefjast nýrra lausna. Peningastefnan er í öngstræti. Til að koma vaxtastigi hér í eðlilegt horf, stuðla að betra innra og ytra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og tryggja samkeppnis­hæfni atvinnulífsins þarf að lækka vexti. Það samrýmist hins vegar ekki verðbólgumarkmiði Seðlabankans því að verðbólgu­skot er líklegt í kjölfar veikingar á gengi krónunnar. Þess vegna er líka nauðsynlegt að endurskoða lög um Seðla­bankann og skoða peningamálin með raunsæjum og gagn­rýnum augum. Nýr samráðsvettvangur er vel til þess fallinn. Peningastefna, sem þarf vaxtalækkun til að slá á einkaneyslu og hægja á efnahagslífinu, er augljóslega í verulegum vanda stödd.