Raforkumarkaðurinn á Íslandi

Leiðari Íslensks iðnaðar í ágúst 2007

22. ágú. 2007

  • Sveinn Hannesson
Því miður hefur borið á því að stjórnmálamenn telja að ástandið á raforkumarkaði megi leysa með sértækum aðgerðum eða niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Dæmi um slíkt eru sérsamningar við tiltekin fiskeldisfyrirtæki eða þá að kalla garðyrkju „græna stóriðju“ sem á þá væntanlega að vera forsenda þess að garðyrkjubændur eigi að fái raforku á sérkjörum á kostnað annarra. Slíkar hugmyndir eru dæmi um gamaldags pólitíska mismunun og leysa engan vanda.

Í raun má segja að á Íslandi séu tveir raforkumarkaðir sem lúta ólíkum lögmálum. Annars vegar framleiðsla og sala raforku til orkufreks iðnaðar og hins vegar fyrir almennan markað.

Raforka til stóriðju er í alþjóðlegri samkeppni

Stærri hlutinn er framleiðsla og sala raforku til orkufreks iðnaðar. Sá hluti keppir við raforkuframleiðendur í öðrum löndum með mismunandi orkugjafa. Þar ræður orkuverðið mestu um staðarval fyrirtækja. Mikill meirihluti landsmanna er áreiðanlega hlynntur því að orkulindir þjóðarinnar séu nýttar með skynsamlegum og umhverfisvænum hætti til að skapa útflutningsverðmæti og arðbær störf.

Ríkisábyrgðir og sértækar reglur úr sögunni

Gallinn við uppbyggingu orkuframleiðslu til orkufreks iðnaðar á Íslandi er sá að hið opinbera hefur stjórnað þessari uppbyggingu. Fjármögnun hefur verið tryggð með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Miklar deilur hafa staðið árum saman um þær pólitísku ákvarðanir sem að baki búa. Arðsemi framkvæmda hefur verið dregin í efa af því að orkuverðið hefur ekki verið gert opinbert. Samið hefur verið um sérstök ákvæði, t.d. á sviði skattamála, sem önnur fyrirtæki vildu gjarna njóta.

Stjórnvöld setja almennu reglurnar

Slíkir samningar voru nauðsynlegir fyrr á árum þegar skattkerfið á Íslandi var gerólíkt því sem þekktist í nágrannalöndum og raunar ónothæft með öllu. Á sama hátt var þá varla á færi einkaaðila að fjármagna verkefni af þessu tagi án aðildar stjórnvalda. Nú eru breyttir tímar og tímabært og vel gerlegt að einkaaðilar standi fyrir, eigi og fjármagni virkjanir og uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Hlutverk stjórnvalda ætti eingöngu að vera að setja almennar reglur um umhverfis- og skipulagsmál. Síðan er og verður það stjórnvalda að ákvarða hvar má virkja og hvernig. 

Samkeppnin sem ekki kom

Í nágrannalöndum okkar hafa verið stigin stór skref í þá átt að markaðs- og samkeppnisvæða almennan raforkumarkað. Við höfum að sönnu lögleitt Evrópureglur á þessu sviði á grundvelli EES - samningsins. Gallinn er bara sá að íslenska raforkukerfið er ekki hluti af raforkumarkaði meginlands Evrópu. Það virðist ógerlegt að koma hér á nokkurri samkeppni meðan nánast engin umframorka er í kerfinu og langstærsti hluti framleiðslunnar er á hendi eins fyrirtækis með fasta gjaldskrá.

Það þarf aðgerðir til að koma á samkeppni

Vilji stjórnvöld koma á raunverulegri samkeppni á almennum raforkumarkaði þarf að gera tilteknar skipulagsbreytingar:

  • Fyrst af öllu þarf framleiðslan að skiptast á fleiri hendur, þannig að Landsvirkjun sé þar ekki einráð. Stjórnvöld hafa í hendi sér að gera slíkar breytingar.
  • Í öðru lagi þarf að greina einstaka þætti þessa markaðar hvern frá öðrum með uppskiptingu orkufyrirtækja en ekki einungis bókhaldslegum aðskilnaði. Sérstaklega þarf að skilja samkeppnisþættina (framleiðslu og sölu) frá einokunarþáttunum (flutningi og dreifingu). Þetta verður að gera áður en einkavæðing orkufyrirtækja hefst. Kaup Geysir Green Energy í Hitaveitu Suðurnesja sýna að þessi skipulagsbreyting má ekki dragast lengur.
  • Í þriðja lagi þarf að einkavæða og selja samkeppnisreksturinn (framleiðslu og sölu) en setja einokunarþáttunum (flutningi og dreifingu) strangar skorður um verðlagningu, hagræðingu og arðsemi. Einokunarþættina á alls ekki að einkavæða og þess vegna þarf að aðskilja þá strax. Einkavæðingin er þegar hafin.
  • Í fjórða lagi þurfa stjórnvöld að koma hér á virkum uppboðsmarkaði á rafmagni að norrænni fyrirmynd.

Ekki sértækar aðgerðir

Því miður hefur borið á því að stjórnmálamenn telja að ástandið á raforkumarkaði megi leysa með sértækum aðgerðum eða niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Dæmi um slíkt eru sérsamningar við tiltekin fiskeldisfyrirtæki eða þá að kalla garðyrkju „græna stóriðju“ sem á þá væntanlega að vera forsenda þess að garðyrkjubændur eigi að fái raforku á sérkjörum á kostnað annarra. Slíkar hugmyndir eru dæmi um gamaldags pólitíska mismunun og leysa engan vanda.

Það sem þarf á raforkumarkaði, rétt eins og á öðrum mörkuðum, er skipulag og leikreglur sem ýta undir samkeppni og eðlilega verðmyndun. Þar hafa stjórnvöld verk að vinna.