Það er gott að búa á Íslandi

Leiðari Íslensks iðnaðar í september 2007

27. sep. 2007

  • Sveinn Hannesson
Vandséð er hvernig íslenska hagkerfið hefði þolað það þenslu- og framkvæmdaskeið sem enn stendur ef allt þetta fólk hefði ekki komið hingað og lagt okkur lið. Það er ekki lítið sem nýbúarnir hafa lagt af mörkum í verðmæta­sköpun þjóðarinnar að undanförnu og þar með til velferðar okkar ... Er líklegt að Microsoft eða Google setji hér upp netþjónabú og rannsóknar- og þróunarsetur ef fyrirtækin þurfa að bíða í þrjá til sex mánuði eftir dvalarleyfi fyrir sérfræðinga sem þau þurfa að fá til landsins frá Ameríku eða Indlandi?

Á örfáum árum eru erlendir ríkisborgarar orðnir um 8% af starfandi fólki á Íslandi. Hvergi annars staðar á Norður­lönd­um er þetta hlutfall hærra. Þetta kom fram á ráðstefnu sem Fjárfestingarstofa stóð fyrir í byrjun þessa mánaðar um mál­efni erlendra sérfræðinga sem starfa hér á landi um lengri eða skemmri tíma.

Jákvæðir þættir

Margt af þessu fólki unir hér hag sínum vel.  Það telur sig búa við öryggi, stjórnmálalegan stöðugleika og góða heilsu­gæslu.  Smæðin veldur því að boðleiðir eru stuttar og íslenskir vinnustaðir fá góða einkunn fyrir að vera líflegir og skapandi.  Innfæddir fá þá einkunn að vera almennt opnir og vinsamlegir í garð aðkomufólks.  Margir meta það mikils að búa í nábýli við náttúruna og það hversu lítil mengun er hér.

Ekki er allt gott hér

Það er auðvitað ekki allt sem fær háa einkunn hjá þessum gestum okkar.  Verðlagið og þessi einkennilega mynt okkar eru taldir helstu ókostir við að búa og starfa á Íslandi.  Vega­kerfið og veðurfarið er heldur ekki það sem dregur fólk hingað.  Kvartað er yfir ófullnægjandi íslenskukennslu.

Mikilvægt framlag aðfluttra

Það hefur verið og er enn skortur á vinnuafli á Íslandi á mörgum sviðum.  Mikið aðstreymi vinnuafls hefur komið íslenskum fyrirtækjum gersamlega til bjargar undanfarin missiri.  Vandséð er hvernig íslenska hagkerfið hefði þolað það þenslu- og framkvæmdaskeið sem enn stendur ef allt þetta fólk hefði ekki komið hingað og lagt okkur lið.  Það er ekki lítið sem nýbúarnir hafa lagt af mörkum í verðmæta­sköpun þjóðarinnar að undanförnu og þar með til velferðar okkar. 

Víða skortur á vinnuafli

Oft og lengi hefur verið rætt um mikið atvinnuleysi og lítinn hagvöxt Evrópuríkja.  Þetta hefur verið að breytast hratt á undanförnum árum og þótt einkennilegt megi virðast er víða í Evrópu skortur á vinnuafli á ýmsum sviðum þó að atvinnu­leysi sé enn umtalsvert.  Í Noregi og Danmörku vantar t.d. tugi þúsunda starfsmanna og jafnvel í Finnlandi, þar sem skráð atvinnuleysi er með því mesta í Evrópu, vantar sér­fræðimenntað fólk á ýmsum sviðum.  Rausnarlegt bótakerfi og lækkaður eftirlaunaaldur eykur á þennan vanda frænd­þjóða okkar.

Flýtimeðferð fyrir fólk sem vantar í atvinnulífinu

Ýmsar Evrópuþjóðir, t.d. bæði Norðmenn og Danir, hafa brugðist við skorti á  sérfræðimenntuðu fólki með því að auðvelda sérfræðingum frá löndum utan EES - svæðisins að koma til starfa. Í samvinnu við samtök atvinnurekenda í Danmörku og Noregi hefur verið settur saman listi yfir sér­fræðimenntað fólk sem vantar til starfa í landinu.  Umsóknir um atvinnu- og dvalarleyfi frá slíkum aðilum fá flýtimeðferð í þessum löndum. 

Öðru vísi tekið á málum á Íslandi

Hér á landi er annað uppi á teningnum.  Seinagangur við afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi er skýrður með því að umsóknum hafi fjölgað mjög á undanförnum árum án þess að viðkomandi stofnun hafi fengið auknar fjárveitingar og fleiri starfsmenn.  Hér er það sögð slæm stjórnsýsla ef öllum umsækjendum er ekki gert jafn hátt undir höfði og lausnin er sú að láta alla bíða afgreiðslu eins lengi og reglur leyfa.

Enginn að gera neitt í málinu?

Á fyrrnefndri ráðstefnu var enn á ný farið yfir þá þulu að breyta þurfi lögum um Útlendingastofnun og auka fjárveit­ingar til hennar.  Enginn hefur hins vegar kynnt hvað það er í lögunum sem hindrar að hér sé hægt að taka á málum eins og í nágrannalöndum okkar.  Búið er að funda og ræða um málið í ræðu og riti en niðurstaðan er sú að enginn er að gera neitt í málinu.  Hvert eiga íslensk fyrirtæki og samtök þeirra að senda upplýsingar um það hvaða sérfræðimenntað fólk þarf að fá til landsins?  Er líklegt að Microsoft eða Google setji hér upp netþjónabú og rannsóknar- og þróunarsetur ef fyrirtækin þurfa að bíða í þrjá til sex mánuði eftir dvalarleyfi fyrir sérfræðinga sem þau þurfa að fá til landsins frá Ameríku eða Indlandi?