Pétur og iðnaðarmálagjaldið

Leiðari Íslensks iðnaðar í október 2007

25. okt. 2007

  • Sveinn Hannesson
Í leiðara sínum, um frumvarp Péturs Blöndal og Sigurðar Kára Kristjánssonar um iðnaðarmálagjaldið, bendir Sveinn Hannesson m.a. á að það sé hvorki drengilegt né heiðarlegt af þingmönnunum að halda fram falsrökum þess efnis að gjaldtakan sé brot á lögum, enda tveir Hæstaréttardómar sem staðfesti hið gagnstæða svo og niðurstöður starfshóps fimm ráðuneyta sem fjallaði um málið.
Það er nokkuð algengt að þingmenn taki upp á sína arma tiltekin þverpólitísk baráttumál, sem skipta al­menn­ing miklu, á borð við hnefaleika, sumartíma, reglur um íslenska fánann eða sölu rauðvíns í matvöruverslunum. Þingmaður­inn Pétur Blöndal hefur fundið sér slíkt baráttu­mál sem er afnám iðnaðarmálagjalds. Hann flytur árlega frumvarp þessa efnis og hefur í ár fengið flokksbróður sinn, Sigurð Kára Kristjánsson, í lið með sér.

Frelsa iðnaðinn frá því að greiða til eigin samtaka

Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga að þingmaður­inn hafi þessa skoðun og fylgi henni fast fram. Breytir þar engu þó að þessi tillöguflutningur gangi þvert á stefnu síð­asta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem tillaga þessa efnis var felld í atkvæðagreiðslu. Það skipt­ir heldur engu máli að umræddur þingmaður hefur á öllum sínum langa þingmannsferli sýnt hagsmunamálum iðnaðarins fádæma áhugaleysi. Nú vill hann bæta fyrir þá vanrækslu með því að frelsa iðnaðinn frá því að greiða eigin samtökum þetta gjald.

Aldrei vanhæfir í eigin sök

Pétur, sem er formaður skattanefndar Alþingis, verður ekki vanhæfur til að fjalla þar um og afgreiða eigin til­lögu. Alþingismenn verða nefnilega aldrei vanhæfir þótt þeir fjalli um eigin hagsmuni eða áhugamál og ekki held­ur þegar við skattgreiðendur erum látnir greiða ótæpi­lega til stjórnmálaflokkanna. Þá eru hafðar skammar signingar og lítið ber á áhyggjum af félagafrelsinu.

SI vilja að samræmis verði gætt

Lögin um iðnaðarmálagjald eru rúmlega 30 ára gömul og því er ekki óeðlilegt að þau séu endurskoðuð. Sam­tök iðn­aðarins telja hins vegar að það eigi að gera í sam­hengi við endurskoðun annarra markaðra tekjustofna. Í umsögn SI um síðasta frumvarp er bent á að það sé langt í frá einsdæmi að löggjafinn ráðstafi fé til tiltek­inna atvinnugreina og heildarsamtaka með hliðstæðum hætti, beint úr ríkissjóði eða með mörkuðum tekjustofn­um í sérstökum lögum. Vís­ast í þessu sambandi til um­sagnar SI um málið sem er aðgengileg á vefsetri Sam­takanna.

Falsrök

Rök þeirra Péturs og félaga fyrir nauðsyn þess að fella gjaldið niður eru annars vegar þau að gjaldtakan sé brot á reglum um félagafrelsi og hins vegar sé skylt að af­nema gjaldið þar sem það brjóti í bága við stjórnarskrár­bundið fjárveitingarvald Alþingis. Þessi málflutningur þeirra er beinlínis fyrir neðan allar hellur og hrein staðreyndafölsun. Nægir í því sambandi að benda á að tvö mál hafa verið rek­in fyrir dómstólum, sem byggjast mjög á sömu forsend­um og flutningsmaður leggur til grundvallar. Báðum hefur lokið á sama veg og Hæsti­réttur staðfest lögmæti iðnaðarmála­gjaldsins í tvígang, að vísu í seinni umferð (4:1) með einu sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar.

Niðurstaða liggur fyrir um lögmæti

Í desember 2006 skilaði starfshópur, sem skipaður var (í febrúar 2005) fulltrúum fimm ráðuneyta, skýrslu um lög­bundna gjaldtöku í þágu hagsmunasamtaka og félaga­frelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Starfshópnum var kom­ið á fót í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis þar sem fram kom að verulegur vafi léki á því hvort tilhögun ákvæðis laga um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, uppfyllti kröfur 74. gr. stjórnar­skrárinnar um félagafrelsi. Í skýrslunni er fjallað um hvaða úrbætur þurfi hugsanlega að gera á löggjöf í kjölfar álits umboðsmanns varðandi greiðslu­miðlun í sjávarútvegi, búnaðargjald og tryggingagjald.

„Ekki þörf á frekari umfjöllun um það“

Niðurstaða hópsins hvað varðaði iðnaðarmálagjaldið var hins vegar afar einföld og skýr. Hún er svohljóð­andi: „Sam­kvæmt lögum um iðnaðarmálagjald nr. 134/1993 rennur gjald þetta til Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt 3. gr. lag­anna skal tekjunum varið til þess að vinna að eflingu iðn­aðar og iðnþróunar í landinu. Samtökin skulu senda iðnaðar­ráðuneytinu árlega skýrslu um ráðstöfun andvirðis tekn­anna. Skorið var úr um það með dómi Hæstaréttar 1988, sbr. einnig dóm Hæstarétt­ar í máli nr. 315/2005, að gjald­taka þessi stenst gagn­vart 74. gr. stjórnarskrárinnar og er því ekki frekari þörf á umfjöllun um það.“

Því miður virðist þessi niðurstaða hópsins hafa farið fram hjá Pétri. Er helst að skilja að enn sé beðið niður­stöðu þessa starfshóps. Niðurstaða hópsins var ekki jafn jákvæð varðandi ýmiss konar aðra lögbundna gjald­töku. Má vænta þess að á næstunni verði lögð fram ýmis frumvörp til að bæta þar úr og verður fróðlegt að sjá viðbrögð Péturs og félaga þegar farið verður að lappa upp á þau lög sem nefnd­in telur að standist ekki ákvæði stjórnarskrár.

Fiskur undir steini

En hvers vegna fer Pétur Blöndal fram með slíkum þunga í þessu máli. Því svarar hann sjálfur í greinargerð með frum­varpinu. „Samtök iðnaðarins hafa haft uppi mjög ákveðnar skoðanir um ýmis pólitísk álitamál eins og aðild að Evrópusam­bandinu og upptöku evrunnar.“ Þar liggur hundurinn grafinn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem atlaga er gerð að Samtökum iðnaðarins úr þessari átt fyrir sömu sakir.