Peningastefnan komin í þrot
Leiðari Íslensks iðnaðar í nóvember 2007
Í byrjun þessa mánaðar hækkaði Seðlabankinn vexti verulega og hótaði um leið frekari vaxtahækkunum. Hækkunin var óvænt og gengi krónunnar styrktist enn frekar í kjölfarið eins og við var að búast.
Skilaboð Seðlabankans voru skýr: Verðbólga skal kveðin niður hvað sem það kostar. Fyrstu viðbrögð voru öll á eina lund. Menn lýstu undrun og efasemdum, þar á meðal báðir formenn stjórnarflokkanna. Forsætisráðherra hefur hins vegar mildast í sinni afstöðu og sagt að þjóðin eigi að bregðast við þessum háu vöxtum með því að fresta framkvæmdum og fjárfestingum. Á sama tíma boðar fjármálaráðherra auknar framkvæmdir í fjölmiðlum. Stöðugleiki er forsenda farsæls efnahagsumhverfis. Um það er ekki deilt. Það er hins vegar með öllu óásættanlegt að iðnaðurinn og aðrar útflutnings og samkeppnisgreinar beri ár eftir ár hitann og þungann af gallaðri peningastefnu.
Efnahagslegt öngstræti
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði á kynningarfundi í tilefni af síðustu vaxtahækkun: „Stundum eru mönnum gefin sterk lyf til þess að berjast við sjúkdóma. Af þeim lyfjum eru aukaverkanir. Menn horfa ekki á aukaverkanirnar og lyfin sér. Menn horfa á sjúkdóminn. Vegna sjúkdómsins eru lyfin gefin.” Með öðrum orðum, bankinn horfir ekki á afleiðingar þeirrar meðferðar sem hann beitir í baráttu sinni við verðbólgu. Afleit samkeppnisstaða útflutnings og samkeppnisgreina og yfirvofandi erfiðleikar á fasteignamarkaði og í byggingariðnaði eru því ásættanlegar aukaverkanir að mati bankans. Að mati Samtaka iðnaðarins hefur þessi stefna verið knúin áfram af meiri hörku og lengur en skynsamlegt getur talist og er að leiða þjóðina í efnahagslegt öngstræti hávaxta.
Flótti eða útrás?
Það getur vissulega verið réttlætanlegt að ráðast í sársaukafulla meðferð til skamms tíma ef hún tryggir heilbrigði síðar. Gallinn er bara sá að núverandi peningastefnu hefur verið beitt af hörku í mörg ár án árangurs. Útflutnings og samkeppnisgreinarnar eru að sligast eða á flótta undan háum vöxtum, óeðlilega sterkri krónu og óstöðugu gengi. Það er mikil blekking ef menn fagna því að öll uppbygging stærstu og öflugustu fyrirtækja okkar á sér stað erlendis. Það er skiljanlegur flótti við þessar aðstæður.
Nauðhemlað í byggingariðnaði?
Miklar hækkanir á fasteignamarkaði hafa haft veruleg áhrif á þær mælingar á verðlagsþróun sem Seðlabankinn miðar við. Stóran hluta hækkana á fasteignaverði má rekja til hækkandi lóðaverðs, kerfisbreytinga á fasteignalánamarkaði og fólksfjölgunar. Allt er þetta utan áhrifasviðs Seðlabankans. Nú mælist verðbólga 5,2% en án húsnæðis er hún 1,9%.
Seðlabanki Evrópu styðst við samræmda vísitölu Evrópusambandsins sem tekur ekki tillit til verðbreytinga á eigin íbúðarhúsnæði. Þannig viðmiðun á einnig við hjá okkur. Það getur ekki verið leið út úr vandanum að knýja fram hrun á fasteignaverði og kreppu á fasteignamarkaði sem hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.
Óþolandi aðstæður
Markmið Seðlabankans er að halda verðbólgu innan við 2,5%. Það var sett árið 2001 en verðbólga hefur að meðaltali verið 4,7% frá þeim tíma, eða tæplega tvöfalt hærri en markiðið. Tveir verðbólgukúfar hafa farið yfir 8%, báðir vegna gengisfalls krónunnar. Falli gengið næst verðbólgumarkmiðið ekki, jafnvel þó að takist að hægja á byggingamarkaðinum. Aðilum vinnumarkaðarins er gert nær ókleift að ná saman um skynsamlega kjarasamninga við þessar aðstæður. Fyrirtæki eru ekki öfundsverð af því að rata á skynsamlegar ákvarðanir um eigin framtíðaráform og fjárfestingar.