Framkvæmdastjóraskipti
Leiðari Íslensks iðnaðar í desember 2007
Nú í byrjun desember lét Sveinn Hannesson af starfi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins eftir 16 ára farsæl störf fyrir SI og forvera þeirra, Félag íslenskra iðnrekenda. Sveinn hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Gámaþjónustunnar hf. sem hefur verið ört vaxandi fyrirtæki og er félagi í Samtökum iðnaðarins.
Við starfinu tekur Jón Steindór Valdimarsson sem verið hefur aðstoðarframkvæmdastjóri um árabil og unnið náið með Sveini. Það er því reyndur maður sem kemur í staðinn. Framkvæmdastjóraskipti í samtökum okkar eru auðvitað mikil tíðindi einkum og sér í lagi þegar sá, sem hverfur af vettvangi, hefur leitt starfið frá upphafi og reyndar lengur.
Upprifjun á tímamótum
Á þessum tímamótum er ástæða til rifja upp þau umskipti sem hafa orðið í íslenskum iðnaði á þeim árum sem Sveinn hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra. Af því tilefni birtist við hann ítarlegt viðtal í þessu tölublaði Íslensks iðnaðar. Við lestur þess áttar maður sig á þeim jákvæðu umskiptum sem hafa orðið, bæði í rekstrarumhverfi iðnaðar og alls atvinnulífs en einnig með margvíslegri uppstokkun atvinnurekendasamtaka.
Öflug samtök
Skipulagsbreytingar hafa eflt samtök atvinnurekenda, svo og launþegahreyfinguna og einnig lífeyrissjóðina. Samtök iðnaðarins voru stofnuð haustið 1993 með sameiningu sex félaga og samtaka í iðnaði og tóku formlega til starfa 1. janúar árið 1994. Næsta skref í skipulagsbreytingum á þessu sviði var tekið með stofnun Samtaka atvinnulífsins hinn 15. september árið 1999. Í fyrrnefndu viðtali segir Sveinn að enginn vafi leiki á því að stofnun Samtaka iðnaðarins og síðar Samtaka atvinnulífsins hafi leitt til minni tilkostnaðar, markvissari vinnubragða, aukinnar fagmennsku og þar með aukinna áhrifa í samfélaginu. Ennfremur sagði Sveinn um þetta: „Það er gríðarlega mikilvægt að eiga öflug samtök sem geta rekið eigin stefnu og staðið fast á sínum sjónarmiðum óháð því hverjir fara með völd hverju sinni. Það hefur oft hvesst í samskiptum okkar við stjórnvöld og mikið gengið á. Við eigum hins vegar einskis annars úrkosta en standa á okkar stefnumálum óháð því hverjir eru stjórnarherrar hverju sinni og hverjum augum þeir líta á málflutning okkar.”
Engin verkföll
Í viðtalinu gerir Sveinn einnig að umtalsefni hvernig aukin samvinna og traust milli atvinnurekendasamtaka og launþegahreyfingarinnar hefur stuðlað að þeim framförum sem orðið hafa með aukinni fagmennsku í kjarasamningagerð beggja vegna borðsins. „Sem betur fer hafa engin verkföll orðið í iðnaði í minni tíð hjá SI. Það er ákaflega ánægjuleg staðreynd,” segir Sveinn.
EES er okkar iðnbylting
Hann gerir EES samninginn að umtalsefni og lítur á hann sem okkar iðnbyltingu sem hafi gjörbreytt íslensku atvinnulífi nánast hvert sem litið er. Í því sambandi nefnir hann að enginn verðmiði verði settur á viðskiptafrelsi og að það ættu menn að hafa meira í huga þegar rætt er um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Samtök iðnaðarins færa Sveini Hannessyni einlægar þakkir fyrir farsæl og mikilvæg störf og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Stjórn Samtakanna væntir mikils af störfum Jóns Steindórs Valdimarssonar í stöðu framkvæmdastjóra. Hann hefur starfað náið með fráfarandi framkvæmdastjóra frá stofnun SI og er öllum hnútum kunnugur.
Félagsmönnum, starfsfólki og landsmönnum öllum óska ég gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.