Verðug verkefni
Leiðari Íslensks iðnaðar í janúar 2008
Við tímamót er oft gott að staldra við og hyggja að því sem framundan er. Samtök iðnaðarins standa á gömlum merg og hefur vaxið mjög ásmegin hin síðari ár. Helst það í hendur við miklar breytingar, framfarir og aukin umsvif iðnaðarins. Að sama skapi verða viðfangsefni þeirra fjölbreyttari og oft á tíðum flóknari. Hagsmunir aðildarfyrirtækjanna eru ólíkir innbyrðis og breytast frá einum tíma til annars.
Fjölbreytni skapar styrk
Samtök iðnaðarins eru félagsskapur um 1.100 fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Innan vébanda þeirra eru einyrkjar en þar eru líka mörg stærstu fyrirtæki landsins með mörg hundruð eða þúsundir manna að störfum um víða veröld. Sum selja afurðir sínar einungis innanlands en önnur eingöngu til útlanda, og allt þar á milli. Rekstrarsvið fyrirtækjanna er að sama skapi fjölbreytt. Það gefur því augaleið að það er að mörgu og ólíku að hyggja. Þrátt fyrir margbreytileikann er fjölmargt sem sameinar og á því byggja Samtök iðnaðarins tilveru sína.
Stöðugleiki, vöxtur og arður
Öll iðnfyrirtæki þarfnast sama grundvallar til að vaxa, dafna og skila eigendum sínum og samfélaginu arði. Stöðugleiki verður að ríkja í efnahagslífinu, vöxtur vera jafn og öruggur og starfsskilyrði, sem eru í valdi stjórnvalda, eins hagfelld og kostur er. Undanfarin ár hafa íslenskur iðnaður og atvinnulíf tekið stakkaskiptum. Vöxtur hefur verið mikill og alþjóðavæðing atvinnulífsins verið hröð. Þó að vel hafi gengið er langt í frá að tekist hafi að tryggja stöðugleika. Ekki þarf að fjölyrða um sveiflur í gengi krónunnar, óbærilega háa vexti, verðbólgu og viðskiptahalla. Hér er sannarlega ekki um auðvelt verkefni að ræða og engin skyndilausn tiltæk. Þess vegna er nauðsynlegt að marka stefnu til langs tíma og fækka áhættuþáttum. Samtök iðnaðarins hafa lengi talað fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru. Því fyrr sem ákvörðun er tekin því betra. Ef sífellt er frestað að leggja af stað komumst við aldrei á leiðarenda.
Verðmætasköpun
Samhliða því að tryggja efnahagslegan stöðugleika þarf að huga að þeim innviðum sem við þörfnumst til þess að standa áfram í fremstu röð hvað lífskjör varðar. Þar á að hafa að leiðarljósi að stefna að sem mestri verðmætasköpun, að hver vinnandi hönd hafi verkefni sem krefjast verk- og hugvits. Við eigum erfitt með að keppa við önnur ríki í suðri og austri um vinnuaflsfreka starfsemi þar sem virðisauki byggist í ríkum mæli á mun lægri launum en okkur hugnast. Tækifæri okkar felst í því að nýta náttúruauðlindir og mannauð með skynsamlegum hætti. Alþjóðavæðingin felur í sér mikil tækifæri sem við getum nýtt okkur ef rétt er á spilum haldið.
Nýsköpun og endurnýjun
Hagsæld og velferð hvers þjóðfélags er reist á getu til nýsköpunar og endurnýjunar í atvinnulífinu. Skapa þarf skilyrði til að okkur takist að hasla okkur völl á nýjum sviðum en ekki síður að endurnýja og bæta það sem fyrir er. Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins verið óþreytandi að tala fyrir framförum á þessum vettvangi og nægir í því sambandi að nefna baráttu fyrir tilurð og eflingu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Tækniþróunarsjóðs. Nýsköpun er þolinmæðisverk og tekur langan tíma. Mikilvægt er að sýna úthald og festu ef viðunandi árangur á að nást. Hér má gera enn betur. Forðast ber umræðu um að eitt sé betra en annað þegar atvinnurekstur á í hlut. Allur arðbær, virðisaukandi rekstur, sem fylgir settum leikreglum, er jafngildur. Því meiri fjölbreytni þeim mun betra.
Hug- og verkvit
Menntun er og verður undirstaða framfara. Þar þarf að gera enn betur en hingað til. Hefja þarf til vegs og virðingar iðn-, verk- og tækninám, sem er ekki síður mikilvægt en annað nám. Það er ánægjulegt að í frumvarpi til nýrra laga um framhaldsskóla er verk- og bóknám gert jafngilt. Samtök iðnaðarins láta menntamál sig miklu varða og má benda á að þau unnu að því að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík og eru þar hluthafar. Í samvinnu við verkalýðshreyfinguna hafa Samtökin byggt upp myndarlegt fræðslusetur, IÐUNA, sem sinnir sí- og endurmenntun margra iðngreina. Þá eru miklar vonir bundnar við að samningar takist við menntamálaráðuneytið um sameiningu og rekstur Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands.
Virkar umræður
Vissulega eru mörg fleiri verkefni sem vinna þarf. Má þar nefna breytingar sem aukin atvinnuþátttaka útlendinga hefur í för með sér. Í iðnaði hallar mjög á annað kynið og nauðsynlegt að leita leiða til þess að virkja enn betur en hingað til krafta kvenna í mörgum greinum iðnaðar. Þá er ljóst að loftslagsmál, nýting orkuauðlinda og sérstaða Íslands í því samhengi mun verða ofarlega á baugi í umræðu komandi ára.
Samtök iðnaðarins vinna að því að ná árangri á öllum sviðum sem þau telja að stuðli að stöðugleika og enn meiri verðmætasköpun. Það gera þau með því að koma sjónarmiðum á framfæri og taka virkan þátt í umræðu um starfsskilyrði iðnaðarins og mótun þeirra. Það gera þau einnig með því að vera vettvangur fyrirtækja með fjölbreytta hagsmuni til að móta sameiginlega stefnu. Oftar en ekki getur það verið býsna snúið verkefni en undan því víkjast Samtök iðnaðarins ekki.