Að búa sig til ferðar
Leiðari Íslensks iðnaðar í febrúar 2008
Það þykir hygginna manna háttur að undirbúa ferðalög af kostgæfni, ekki síst ef halda skal í langferð. Vita þarf hvert förinni er heitið, hvaða leiðir eru færar og hvaða búnað þarf til fararinnar. Það kann hins vegar að skipta litlu ef maður vill standa í sporum Lísu í Undralandi sem spurði hvaða leið hún ætti að fara þegar hún kom að gatnamótum. „það ræðst nú heilmikið af því hvert þú ætlar“ svaraði kötturinn en Lísu var nokk sama bara hún kæmist eitthvert. „Þá skiptir engu hvaða leið þú velur því þangað kemstu örugglega, bara ef þú gengur nógu lengi,“ svaraði kötturinn að bragði.
Það þykir hygginna manna háttur að undirbúa ferðalög af kostgæfni, ekki síst ef halda skal í langferð. Vita þarf hvert förinni er heitið, hvaða leiðir eru færar og hvaða búnað þarf til fararinnar. Það kann hins vegar að skipta litlu ef maður vill standa í sporum Lísu í Undralandi sem spurði hvaða leið hún ætti að fara þegar hún kom að gatnamótum. „það ræðst nú heilmikið af því hvert þú ætlar“ svaraði kötturinn en Lísu var nokk sama bara hún kæmist eitthvert. „Þá skiptir engu hvaða leið þú velur því þangað kemstu örugglega, bara ef þú gengur nógu lengi,“ svaraði kötturinn að bragði.
Tveir kostir
Þeirri skoðun vex sífellt fiskur um hrygg að hagsmunum okkar Íslendinga sé ekki best borgið með núverandi fyrirkomulagi gjaldmiðilsmála. Með öðrum orðum að krónan dugi okkur ekki lengur sem gjaldmiðill. Það virðist einnig orðin skoðun flestra að tómt mál sé að tala um að taka upp annan gjaldmiðil en evruna og þá aðeins með þeim hætti að ganga fyrst í ESB og síðan í Myntbandalagið. Að þessu leyti eru kostirnir skýrir og óþarft að eyða púðri á annað. Segja má að bæði stjórnvöld og atvinnulíf hafi staðfest þetta rækilega á nýliðnu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs.
Veðrabrigði
Kannanir hafa lengi sýnt að meirihluti landsmanna telur að taka beri upp aðildarviðræður við ESB og að efnahag okkar sé betur borgið með aðild. Ennfremur eru flestir á þeirri skoðun að við verðum aðilar að ESB fyrr eða síðar. Þjóðin veit hvert hún ætlar og er að þessu leyti betur stödd en Lísa í Undralandi. Gallinn er hins vegar sá að stjórnvöld mörkuðu sér þá stefnu að á þessu kjörtímabili verði aðild að ESB ekki á dagskrá og þess vegna eigi ekki og megi ekki búa sig til ferðar. Hér þarf að verða breyting á og sem betur fer þykjast veðurglöggir skynja að veðrabrigði kunni að vera í nánd í þessu efni.
Langferð
Það er hrein rökleysa að halda því fram að þeir, sem vilja aðild að ESB og evru, séu að bjóða fram skyndilausn til að bregðast við bráðum vanda. Skyndilausn sem taki í raun mörg ár að ná fram og þess vegna sé hún ekki tæk. Með aðild að ESB og evru er bent á leið til að breyta til langs tíma þeirri umgjörð sem við setjum efnahags- og þjóðlífi okkar, leið sem tekur nokkur ár að feta þar til settu marki er náð.
Líklegt má telja að sjálft samningaferlið við ESB um aðild taki allt að ári eftir að samningaviðræður hefjast í alvöru. Staðfestingarferli aðildarsamnings gæti tekið annan eins tíma. Eftir að inn er komið er ekki tæknilega mögulegt að taka upp evru fyrr en að tveimur árum liðnum og þá þarf að fullnægja öllum skilyrðum sem sett eru fyrir aðild að Myntbandalaginu og því er ekki að heilsa um þessar mundir. Fari allt á besta veg er líklegt að Íslendingar geti tekið upp evru í fyrsta lagi eftir fjögur ár frá þeim tímapunkti sem við tökum ákvörðun um að takmark okkar sé aðild að ESB og Myntbandalaginu. Sú ákvörðun er auðvitað að því tilskildu að samningur um aðild verði viðunandi og þjóðin fallist á hann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tygjum okkur til farar
Við þurfum, rétt eins og þeir sem ætla sér á Hvannadalshnúk í vor að byrja að huga að búnaði, byggja upp þrek og skoða bestu leiðir. Til dæmis er ljóst að aðild að ESB er útilokuð án breytinga á stjórnarskránni. Til þess má ekki kasta höndum og þess vegna á að hefjast handa við það án tafar. Evra verður ekki tekin upp án þess að við stöndumst svokölluð Maastricht-skilyrði sem lúta að efnahagslegum stöðugleika. Stjórnvöld eiga að lýsa því yfir að þau ætli með tiltækum ráðum að standast þau að fullu innan fjögurra ára. Aðilar á markaði munu þá haga sér í samræmi við það.
Kjarkur
Ríkisstjórnin á að sýna þann kjark að taka aðild Íslands að ESB á dagskrá og fela hinni nýju Evrópunefnd sinni það hlutverk að móta samningsmarkmið, fara í saumana á samningaferlinu, undirbúa rök fyrir þeim sjónarmiðum sem við þurfum að halda á lofti vegna sérstöðu okkar og hefjast þegar handa við að finna lausnir sem við getum unað við. Því betur undirbúin sem við göngum til þessa verks þeim mun betur mun okkur farnast.
Samtök iðnaðarins halda Iðnþing sitt 6. mars undir yfirskriftinni: Ísland og Evrópa - Mótum eigin framtíð. Það er enn einn liðurinn í framlagi Samtaka iðnaðarins til þeirrar ferðar sem framundan er. Fátt er lengur að vanbúnaði. Nú er beðið eftir að fararstjórinn blási til brottfarar.