Umhverfisráðherra geri rétt

Leiðari Íslensks iðnaðar í apríl 2008

6. apr. 2008

  • Jón Steindór Valdimarsson
Ekkert er við því að segja að mismunandi skoðanir séu á því hvort og hvar einstök fyrirtæki byggja eða stækka. Hitt er hins vegar óþolandi að geta ekki treyst á regluverk sem í gildi er og hlutleysi stjórnvalda þegar hafinn er undirbúningur jafnt stórra sem smárra verkefna. Fyrirtækin eiga ekki að þurfa að sæta því að pólitískir eða efnahagslegir vindar ráði að lokum hvort þeim er heimilt að ráðast í framkvæmdir sem þau hafa unnið að, jafnvel um árabil og með ærnum kostnaði.

Íslendingum er nauðsynlegt að laða fjárfestingar í atvinnulífi til landsins. Þegar ákveðið er að byggja fyrirtæki á Íslandi í stað annarra landa felst í því yfirlýsing um traust á íslenskum aðstæðum. Þess vegna á að taka slíkum ákvörðunum fagnandi og reyna að greiða fyrir fjárfestingum á Íslandi í stað þess að torvelda.

Hlutverk stjórnvalda er að setja atvinnulífinu skýrar leikreglur og framfylgja þeim. Fyrirtæki sem fara að settum reglum eiga að geta gengið að því vísu að gatan sé þeim greið og stjórnvöld geri ekkert til þess að leggja stein í þá götu.

Steinn og sleggja

Því miður er þetta ekki alltaf raunin. Það vill brenna við að stjórnvöld láti önnur sjónarmið ráða afgreiðslu mála og framgangi en þeim efnislegu leikreglum sem í gildi eru eða það sem verra er breyti þeim eða setji nýjar í miðjum klíðum. Þá eiga fyrirtæki það á hættu að lenda milli steins og sleggju þeirra sem um málin fjalla.

Skýrt dæmi um þetta er ferillinn í tengslum við stækkun Alcan í Straumsvík sem ekki varð. Þar mátti fyrirtækið sæta breyttum leikreglum á lokasprettinum þrátt fyrir að hafa aflað sér allra tilskyldra leyfa.

Samtök iðnaðarins hafa jafnan talað fyrir festu og stöðugleika í efnahagsmálum og öðrum starfsskilyrðum iðnaðarins og raunar alls atvinnulífsins. Þau hafa minnt á nauðsyn þess að draga eins og kostur er úr öllum óvissu- og áhættuþáttum sem stjórnvöld geta haft áhrif á eða vald yfir. Samkeppni og aðrar aðstæður sem hafa áhrif á markaðinn eru ærið verkefni fyrir fyrirtækin að takast á við.

Ekkert er við því að segja að mismunandi skoðanir séu á því hvort og hvar einstök fyrirtæki byggja eða stækka. Hitt er hins vegar óþolandi að geta ekki treyst á regluverk sem í gildi er og hlutleysi stjórnvalda þegar hafinn er undirbúningur jafnt stórra sem smárra verkefna. Fyrirtækin eiga ekki að þurfa að sæta því að pólitískir eða efnahagslegir vindar ráði að lokum hvort þeim er heimilt að ráðast í framkvæmdir sem þau hafa unnið að, jafnvel um árabil og með ærnum kostnaði.

Ráðherra lét ekki undan

Það er því gleðiefni að umhverfisráðherra fór að lögum og féllst ekki á kæru Landverndar varðandi umhverfismat vegna álvers í Helguvík þrátt fyrir eigin skoðun og mikinn þrýsting þeirra sem ekki vilja að Norðurál reisi álver við Helguvík.

Gleðin yfir því að umhverfisráðherra stóðst þessa áraun er þó nokkuð blandin. Ráðherra leyndi ekki þeirri skoðun sinni, þegar hann greindi frá úrskurði sínum, að hann væri í rauninni mótfallinn eigin úrskurði en hendur hans væru bundnar að lögum. Við sama tækifæri boðaði hann að lagareglur yrðu hertar, og þá væntanlega til þess að lenda ekki aftur í sömu stöðu.

Línuna þarf að draga

Hér er rétt að staldra aðeins við. Samtök iðnaðarins eru talsmenn þess að við nýtum og göngum um náttúruna af fullri virðingu og gætum þess að spilla henni ekki að óþörfu. Samtímis eru Samtök iðnaðarins talsmenn þess að nýta auðlindir landsins til atvinnu- og velferðarsköpunar. Þetta er grundvallaratriði. Vissulega er um það deilt hvar skuli draga mörk milli nýtingar og verndar. Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins talað fyrir því að brýnt sé að ljúka gerð verndar- og nýtingaráætlunar um náttúruauðlindir. Því miður hefur ekki verið settur nægur kraftur í það verkefni undanfarin ár og það veldur okkur vandræðum.

Gjalda verður varhug við því að auka völd ráðherra á kostnað efnislegra og hlutlausra laga og reglna. Skoðanir ráðherra og starfsmanna undirstofnana ráðuneytisins á því hvað sé æskileg eða óæskileg starfsemi má aldrei ráða úrslitum. Hér verða hlutlægar reglur að gilda sem annars staðar. Það er heldur ekki tækt að stjórnvöld telji sig þess umkomin að banna eða heimila framkvæmdir einkaaðila á þeim grundvelli að það henti stöðu efnahagsmála í það sinn.

Ástæða er til þess að benda á að það er ekki skynsamlegt að herða á eða oftúlka reglur um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum tiltekinnar framkvæmdar og því sem kallað er tengdar framkvæmdir. Það er t.d. ástæðulaust að leggja þá ábyrgð á herðar þeim sem hyggst kaupa orku að standa skil á umhverfisáhrifum hjá þeim sem hyggst selja orkuna og öfugt. Orkusalinn hefur val um að selja mörgum kaupendum og orkukaupandinn hefur val um að kaupa orku af fleiri en einum aðila.

Standi vilji Alþingis til þess að banna tiltekna atvinnustarfsemi á að gera það með lögum. Þá þarf enginn að eiga það á hættu að hefja undirbúning framkvæmda sem síðar verða bannaðar. Þau lög geta ekki verið afturvirk frekar en önnur.