Viðvarandi skammtímavandi

Leiðari Íslensks iðnaðar í maí 2008

20. maí 2008

  • Jón Steindór Valdimarsson
Samtök iðnaðarins hafa alla tíð verið óþreytandi að benda á nauðsyn stöðugleika og jafnvægis. Það sé forsenda þess að geta byggt upp alþjóðlegt og samkeppnishæft atvinnulíf og halda því í landinu. Langt er síðan Samtökin hófu að benda á að með því að skipta um umgjörð efnahags- og gjaldeyris­mála skapast skilyrði til þess að vinna bug á þessum viðvarandi vanda. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er að mati Samtaka iðnaðarins besta leiðin til þess. Það er ekki nein skyndihugdetta sem orðið hefur til á síðustu mánuðum þegar gefið hefur á bátinn.

Þegar horft er til hagsögu okkar nokkra áratugi aftur í tím­ann kemur glöggt í ljós að hún einkennist af stöðugu ójafnvægi. Er þá sama hvort horft er til gengis krónunnar, verðbólgu eða kaupmáttarþróunar. Verðbólga hefur ævinlega verið mikil og var oftar en ekki afleiðing gengisfellinga sem var beitt með handafli til að ná niður raunlaunum og rétta af stöðu sjávarútvegs. Í seinni tíð hafa markaðskraftarnir tekið við hlutverki ríkisstjórnar og fundið sér farveg um gengið til að leiðrétta kaupmáttinn. Aðeins í stuttan tíma hefur okkur tekist að halda verðbólgu og gengissveiflum í skefjum. Það var á tímum fastgengisstefnunnar og kyrrstöðu í þjóðar­búskapnum undir lok síðustu aldar. Allt frá því að fast­gengis­stefnan féll um sjálfa sig hefur sigið á ógæfuhliðina með gamal­kunnu samspili verðbólgu og gengisfalls. Reynslan sýnir að fljótandi króna og verðbólgumarkmið breyta þar engu.

Samfelld krísustjórnun

Mikil verðbólga og óstöðugt gengi hefur verið eilífðarverkefni stjórnvalda og vandamál atvinnulífsins. Ótrúlegur kraftur hef­ur farið í nær samfellda krísustjórnun. Því er eðlilegt að spyrja hvort þeim krafti hafi verið vel varið. Það má reyndar til sanns vegar færa að okkur hafi tekist ótrúlega vel að spila úr þess­um aðstæðum og þrátt fyrir allt náð að skipa okkur í sveit mestu velmegun­arþjóða heimsins. Ekki má þó gleyma að þar réð ekki ein­göngu eigið ágæti okkar Íslendinga heldur gegna þar stóru hlutverki fengsæl fiskimið og orkuauðlindir. Þá var síðari heimsstyrjöldin að nokkru leiti happafengur fyrir þjóðina sem græddi vel á veru herliðs í landinu og síðar einn­ig á Marshall-aðstoðinni. Að vissu leyti má segja að allur þessi öldugangur í efnahags­lífinu hafi ekki komið að meiri sök en raun ber vitni vegna þess hve einhæft atvinnulífið var. Hagstjórnin miðaði ein­göngu að því að unnt væri að reka sjávarútveginn á núlli eða þar um bil.

Þörf fyrir ný meðöl

Þessi áratuga langa raunasaga er ekki rifjuð hér upp að ástæðu­lausu. Heldur vegna þess að nú segja margir að ekki sé tímabært eða skynsamlegt að ræða langtímalausnir í tengsl­­­um við þá krísu sem við erum að kljást við. Hinir sömu virðast þá gleyma fortíðinni og því að við erum sífellt að fást við vanda af þessu tagi. Segja má að ef þetta er skamm­tímavandi þá sé hann viðvarandi eða krónísk­ur. Það er miklu nær að tala um núverandi ástand sem birt­ing­­armynd lang­varandi vanda sem á þarf að finna langtíma­lausn. Vandræðin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eru ekki orsök hans þó vissulega magni þau hann. Skammtímalausn mun einungis slá á einkennin en ekki vinna á sjálfum sjúk­dómn­um. Verkja­lyf lækna enga sjúkdóma. Fyrr eða síðar leiðir þetta króníska ástand til þess að við hverfum úr hópi þeirra þjóða þar sem mest velmegun ríkir. Því fyrr sem við horfumst í augu við það og hættum að beita skyndi- og skammtíma­lausn­um því betra.

Samtök iðnaðarins hafa alla tíð verið óþreytandi að benda á nauðsyn stöðugleika og jafnvægis. Það sé forsenda þess að geta byggt upp alþjóðlegt og samkeppnishæft atvinnulíf og halda því í landinu. Langt er síðan Samtökin hófu að benda á að með því að skipta um umgjörð efnahags- og gjaldeyris­mála skapast skilyrði til þess að vinna bug á þessum viðvarandi vanda. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er að mati Samtaka iðnaðarins besta leiðin til þess. Það er ekki nein skyndihugdetta sem orðið hefur til á síðustu mánuðum þegar gefið hefur á bátinn. Aðild að ESB er ekki skyndi­l­ausn og hún leysir okkur alls ekki undan því að kunna fótu­­m okkar forráð í efnahagsmálum. Hún er hins vegar upphafið að því að losna undan samfelldum skammtímavanda.

Skoði menn ályktanir Iðnþings allt frá stofnun Samtaka iðnaðarins árið 1994 kemur í ljós að hvað eftir annað er bent á óstöðugleikann sem helsta óvin iðnaðarins og um leið bent á bestu leiðina til þess að koma á stöðugleika. Ríkisstjórnir og stjórnmálamenn síðustu 15 ára hefðu betur lagt hlustir við ályktunum Iðnþings og skoðunum almennings í stað þess að skella við þeim skollaeyrum. Undiraldan þyngist sífellt í Evrópumálunum, 68% vilja evru frekar en krónu og 55% vilja aðild að ESB en 27% eru á móti.

Heyra menn dyn öldunnar?

 

Úr ályktunum Iðnþings 1994 - 2008

1994
Samhliða verður að skoða kosti og galla beinnar aðildar að Evrópu­sambandinu með hagsmuni heildarinnar í huga.

1995
Samtök iðnaðarins telja brýnt að Íslendingar verði fullgildir þátttak­endur í samfélagi Evrópuþjóða... ...skora því á stjórn­völd að hefjast handa við að skilgreina samningsmark­mið og kynna þau innan Evrópu­sambandsins.

1998
Afleiðingin er innstreymi gjaldeyris sem aftur hefur leitt til hækkaðs gengis... ...hækkandi gengi krónunnar og aukinn munur á innlendum vöxtum kemur niður á samkeppnis­stöðu íslenskra fyrirtækja.

2001
Enn er þó ótalið veigamesta atriðið. Íslenska krónan er of dýru verði keypt. Hún skapar vandamál í hagstjórn, veldur óþarfa vaxtabyrði og gengissveiflum sem bitna á fyrirtækj­um og rekstrarskilyrðum þeirra.

2005
Stöðugleika þarf til að samkeppnis- og útflutningsgreinar þrífist. Hann er frumforsenda þess að unnt sé að byggja upp iðnað á Íslandi.

2006
Mistök í sameiginlegri hagstjórn ríkis, sveitarfélaga og Seðlabanka eiga stærstan þátt í þeim vanda sem sam­keppnis- og útflutningsgreinarnar eiga við að etja.

2007
Samtök iðnaðarins krefjast þess að Alþingi sem kjörið verður í vor og næsta ríkisstjórn taki aðild Íslands að Evrópusambandinu til alvarlegar skoðunar og komist að niðurstöðu á kjörtímabilinu.

2008
Verkefnið er síður en svo auðvelt og engar skyndilausnir tiltækar... ...Búa þarf efnahagsstjórninni trúverðuga um­­gjörð og skapa henni nauðsynlegt aðhald... Samtök iðnaðarins skora á ríkisstjórnina að taka aðild Íslands að ESB á dagskrá...