Viðspyrna á fasteignamarkaði

Leiðari Íslensks iðnaðar í júní 2008

10. jún. 2008

  • Jón Steindór Valdimarsson
Öllum er ljóst að nú kreppir að í efnahagslífinu. Því miður bendir margt til þess að afleiðingarnar verði alvarlegri fyrir almenning og fyrirtæki en nokkur spáði fyrir örfáum mánuðum síðan. Samtök iðnaðarins telja að við núverandi aðstæður eigi stjórnvöld að spyrna við fæti, senda frá sér skýr skilaboð og grípa til markvissra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fjöldi fólks og fyrirtækja lendi í vandræðum og að keðjuverkun gjaldþrota og vanskila fari af stað. Annað væri ábyrgðarleysi. Til þess eru að minnsta kosti tvær meginleiðir færar.

Öllum er ljóst að nú kreppir að í efnahagslífinu. Því miður bendir margt til þess að afleiðingarnar verði alvarlegri fyrir almenning og fyrirtæki en nokkur spáði fyrir örfáum mánuðum síðan. Vissulega má til sanns vegar færa að einkaneysla, framkvæmdagleði og skuldasöfnun hafi farið talsvert fram úr því sem skynsamlegt getur talist og því nauðsynlegt að hægja nokkuð á. Það verður hins vegar að gæta þess að fara ekki öfganna í milli og kalla fram dýpri og krappari niðursveiflu en tilefni er til. Það virðist ætla að gerast á fasteignamarkaðinum. Þar eru viðskipti nánast að stöðvast. Á ársgrundvelli hefur velta á fasteignamarkaði dregist saman um tvo þriðju og stjórnvöld ýta með orðum sínum undir þá þróun. Nú er mál að linni.

Þurfum skýr skilaboð

Samtök iðnaðarins telja að við núverandi aðstæður eigi stjórnvöld að spyrna við fæti, senda frá sér skýr skilaboð og grípa til markvissra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fjöldi fólks og fyrirtækja lendi í vandræðum og að keðjuverkun gjaldþrota og vanskila fari af stað. Annað væri ábyrgðarleysi. Til þess eru að minnsta kosti tvær meginleiðir færar.

Hlutverk Íbúðalánsjóðs

Sú fyrri er að beita Íbúðalánasjóði af fullum þunga þegar ljóst virðist að bankakerfið er úr leik á þessum markaði, a.m.k. um sinn. Á meðan það ástand varir er nauðsynlegt að öllum vafa um hlutverk sjóðsins verði eytt og honum beitt til þess að reyna að koma jafnvægi á markaðinn. Hér skal bent á þrjú atriði. Í fyrsta lagi að hækka lágmarkslán sjóðsins úr 18 milljónum í a.m.k. 25 milljónir. Í öðru lagi á að breyta reglum um veðhlutföll þannig að miðað sé við markaðsverð í stað brunabótamats þegar markaðsverðið er hærra. Í þriðja lagi þarf að rýmka reglur um lánafyrirgreiðslu til byggingarverktaka. Til þessara aðgerða er hægt að grípa strax. Þegar jafnvægi kemst á markaðinn og bankarnir verða reiðubúnir til þess að taka að fullu eða að hluta við fjármögnun á fasteignamarkaði má endurskoða hlutverk Íbúðalánasjóðs á ný.

Kjöraðstæður til skattahreinsunar

Hin meginleiðin snýr að sköttum og gjöldum. Nú eru kjöraðstæður til þess að hreinsa til í úreltri og íþyngjandi skattheimtu. Slíkar úrbætur eru í góðu samræmi við yfirlýsingar beggja stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þar er því ekki þörf nýrrar stefnumörkunar.

Ríkið skattleggur viðskipti með fasteignir. Skiptir þá engu hvort í hlut eiga einstaklingar eða fyrirtæki. Stimpilgjaldið er 1,5% af skuldabréfum og 0,4% af fasteignamati við útgáfu afsals fyrir fasteign. Ríkisstjórnin á að grípa tækifærið og fella niður stimpilgjöldin að fullu, bæði af skuldabréfum og afsölum, ekki einungis af fyrstu íbúð eins og þegar hefur verið ákveðið.

Vörugjöld eru annað dæmi um úrelta skattheimtu. Þau voru upphaflega sett á til bráðabirgða fyrir um 40 árum og hafa síðan verið lögð á fjölmarga vöruflokka, ekki síst undir merkjum neyslustýringar og skattlagningar á munað. Stór hluti vörugjalda, 15 – 20 %, er lagður á varning sem notaður er við húsbyggingar og innréttingar húsnæðis. Hvaða vit eða réttlæti er til dæmis í að skattleggja um 15% baðker, vaska, salerni, gólfefni, flísar, rafmagnsvír, ljós og lampa eða þá nauðsynleg heimilistæki á borð við eldavélar, kæli- og frystiskápa 20%. Þá má ekki gleyma að skattlagningin er tvöföld vegna þess að virðisaukaskattur leggst á allt saman. Álagning vörugjalda er úrelt og dýr í framkvæmd og veldur mikilli og óþarfri skriffinnsku.  

Nú bæði leyfa og krefjast aðstæður á fasteignamarkaði þess að hér sé tekið til hendi. Það er ekki eftir neinu að bíða.