Grundvallaratriði
Leiðari Íslensks iðnaðar í júlí 2008
Þrengingar í efnahagsmálum hafa sett svip sinn á umræðu um atvinnumál á liðnum mánuðum. Það eru mikil umskipti eftir uppgang og bjartsýni liðinna ára. Þegar kreppir að leiða menn gjarnan hugann að þeim grunnþáttum sem verða að vera fyrir hendi til þess að atvinnulífið blómstri. Þættir sem gleymast á stundum þegar lestin brunar að því er virðist af sjálfu sér. Hér verður minnst á þrjá þeirra sem gæta þarf að. Sá fyrsti er í ólestri en hinir tveir á réttri braut.
Stöðugleiki
Sjaldan höfum við verið minnt jafn hastarlega á hve dýrkeyptar sveiflur í gengi krónunnar eru. Hve erfitt er að tjónka við verðbólguna með stýrivöxtum og hve fljótt veður skipast í lofti. Dollarinn kostaði í lok árs 2007 um 62 krónur en um 85 krónur þegar þetta er skrifað. Evran var 91 en er nú um 131 krónur. Það er því ekki að furða að samkvæmt könnun sem var gerð í byrjun júní kemur í ljós 59% þjóðarinnar vilja taka upp evru en 25% eru því mótfallin. Þessi metstuðningur við evruna er auðvitað ekkert annað en ákall um stöðugleika. Stöðugleika sem fæst ekki nema með aðild að Evrópusambandinu og evru. Aðild að Evrópusambandinu vilja nú tæp 52% en rúm 26% eru henni andvíg. Til langframa stenst atvinnulífið ekki þann mikla herkostnað sem krónunni fylgir og við því verður að bregðast.
Nýsköpun
Hagsæld og velferð hvers þjóðfélags er reist á getu til nýsköpunar og endurnýjunar í atvinnulífinu. Skilyrði fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki hafa að mörgu leyti verið erfið í góðæri undanfarinna ára, eins þverstæðukennt og það kann að hljóma.
Það er gleðilegt að margt bendi til þess að umhverfið sé að verða frjósamara og skilyrði til vaxtar að batna. Tækniþróunarsjóður er smám saman að eflast. Þar er orðin merkjanleg áherslubreyting sem felur í sér að fyrirtækin sjálf njóti styrkja. Líkur á því að styrkir sjóðsins skili sér í vexti og útflutningstekjum vega þyngra en áður. Nýir aðilar hafa verið að hasla sér völl á sviði fjárfestinga eins og sjóðirnir BRÚ II sem hefur verið starfræktur um nokkurt skeið og AUÐUR I sem er nýtekinn til starfa. Síðast en ekki síst tókst Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins að fá til liðs við sig viðskiptabankana þrjá og helstu lífeyrissjóði landsins til þess að stofna sjóðinn Frumtak. Fari að óskum hefur hann a.m.k. fjóra og hálfan milljarð króna til ráðstöfunar á næstu árum til að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem eru vænleg til vaxtar og útrásar.
Tækniskólinn - skóli atvinnulífsins
Bókvit verður svo sannarlega í askana látið. Allt kapp ber að leggja á góða menntun og þar mega verk- og tæknigreinar ekki bera skarðan hlut frá borði. Hröð uppbygging hefur orðið í menntamálum og hefur atvinnulífið komið þar að og hleypt æskilegri samkeppni í menntakerfið.
Nærtækt er að nefna Háskólann í Reykjavík. Samtök iðnaðarins komu að því að sameina Tækniháskólann og HR. Fyrst og fremst í þeim tilgangi að efla verk- og tæknifræðinám auk þess að varðveita frumgreinadeild Tækniháskólans. Þessa dagana er að hefja göngu sína nýr framhaldsskóli sem verður flaggskip iðn- og starfsmennta í landinu. SI standa að rekstri skólans ásamt LÍÚ og fleiri samtökum í atvinnulífinu. SI líta svo á að góð grunnmenntun á sviði iðnaðar- og tækni sé undirstaða þess að hér sé hægt að reka fyrirtæki í fremstu röð sem standa erlendum keppinautum á sporði. Þakka ber ráðherra menntamála þá framsýni og kjark að ganga til samninga við einkaaðila um rekstur stærsta framhaldsskóla landsins. SI munu leggja sitt að mörkum til þess að Tækniskólinn rísi undir merkjum.