Leit að leiðarsteini
Leiðari Íslensks iðnaðar í ágúst 2008
Á þessum vettvangi hefur margsinnis verið minnt á mikilvægi þess að starfsskilyrði iðnaðarins og alls atvinnulífsins, séu jafngóð eða betri en erlendra keppinauta, skýr og fyrirsjáanleg. Ennfremur hefur verið kallað eftir stöðugleika í efnahagslegu umhverfi. Þetta eru grundvallaratriði þess að unnt sé að halda atvinnulífinu þróttmiklu til langframa og standa undir þeirri hagsæld og velferð sem við krefjumst okkur til handa.
Stórsjór
Ölduhæðin á þeim sjó sem efnahags- og atvinnulíf okkar siglir hefur sjaldan verið meiri. Öldugangurinn hefur þar að auki magnast mjög á síðustu mánuðum vegna boðafalla sem hingað berast vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu. Líkurnar á því að brotsjór ríði yfir og laski fley okkar fara vaxandi ef ekki tekst að sigla því á lygnari sjó. Þegar litið er yfir hafflötinn má sjá þessa öldutoppa:
- Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 15,5%
- Dráttarvextir eru 26,5%
- Verðbólga er 13,6% og vaxandi
- Aukning vanskila fyrirtækja milli fyrsta og annars ársfjórðungs er 127%
- Samdráttur á umsvifum á fasteignamarkaði á einu ári er 64%
- Evran kostaði 91 krónu í desember en nú um 123 krónur. Hækkun um 35%
- Aðgangur að lánsfé er takmarkaður
- Atvinnuleysi fer vaxandi
- Gjaldþrotum fjölgar
- Kaupmáttur rýrnar
- Forsendur nýlegra kjarasamninga eru greinilega brostnar
- Samkeppnishæfni Íslands versnar
Ísland sígur niður lista um samkeppnishæfni 131 þjóðar. Samkvæmt lista The Global Competitivness Report 2007 – 2008, sem World Economic Forum gefur út, fellur Ísland úr 20. í 23. sæti og er neðst Norðurlandaþjóðanna. Danmörk er í þriðja sæti, Svíþjóð fjórða, Finnland í sjötta og Noregur í 16. sæti. Það stingur óneitanlega í augu, en kemur ekki á óvart, að Ísland er í 103. sæti listans þegar kemur að efnahagslegum stöðugleika. Þar erum við í hópi ríkja sem við erum ekki vön að bera okkur saman við þegar kemur að lífskjörum eða efnahagslífi. Næst á undan okkar í röðinni eru Jórdanía og Pakistan en á hæla okkar koma Úsbekistan og Úganda. Norðurlöndin eru hins vegar í sætum 6, 9, 10 og 17 á þennan mælikvarða. Okkar veikustu þættir eru hátt vaxtastig, mikil verðbólga og lítill sparnaður.
Dýr lexía
Þrátt fyrir að hér hafi verið dregin upp býsna dökk mynd af því umhverfi sem nú blasir við í efnahagslífinu er ekki ástæða til þess að örvænta. Erfiðleikar verða oft til þess að skerpa sýn á það sem betur má fara og hvar treysta þarf innviðina. Þar þurfa allir að líta í eigin barm, stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar. Öll berum við ábyrgð á ástandinu. Nú á að grípa tækifærið og vinna markvisst að því að slíkt ástand skapist ekki aftur. Við eigum ekki að þurfa aðra lexíu af þessu tagi til þess að bregðast við.
Setja verður kúrsinn
Það er skylda stjórnvalda, samtaka atvinnurekenda og launþega að vinna saman að því að draga eftir mætti úr þeim skaða sem núverandi öldurót veldur, lægja öldurnar til skamms tíma um leið og hugsað er fyrir því að skapa þá umgjörð um efnahagsmálin sem tryggir best að hægt sé að sigla sem lygnastan sjó í framtíðinni.
Áhöfnin á þjóðarskútunni verður að vera sannfærð um að þeir sem við stjórnvölinn standa hafi tekið réttan kúrs og sigli eftir markaðri stefnu. Því miður er þetta ekki raunin. Sjókort og leiðarstein er hvergi að sjá í brúnni.