Hagvöxtur er svarið

Leiðari Íslensks iðnaðar í september 2008

17. sep. 2008

  • Helgi Magnússon
Takist Íslendingum ekki að skapa sér viðvarandi hagvöxt næstu árin verður ekki komist hjá djúpri og langvarandi niðursveiflu í þjóðarbúskap landsmanna. Ef hagvöxtur á að geta orðið viðvarandi þurfum við á erlendu áhættufé að halda ekki síður en erlendu lánsfé. Líklegast er að erlent áhættufé fáist í tengslum við markvissa nýtingu orkuauðlinda og til fjárfestinga í stóriðju af ýmsu tagi.

Takist Íslendingum ekki að skapa sér viðvarandi hagvöxt næstu árin verður ekki komist hjá djúpri og langvarandi niðursveiflu í þjóðarbúskap landsmanna. Ef hagvöxtur á að geta orðið viðvarandi þurfum við á erlendu áhættufé að halda ekki síður en erlendu lánsfé. Líklegast er að erlent áhættufé fáist í tengslum við markvissa nýtingu orkuauðlinda og til fjárfestinga í stóriðju af ýmsu tagi.

Alþjóðlegur vandi á fjármagnsmarkaði skaðar okkur eins og aðrar þjóðir heims. Vandinn hlýtur að taka enda og þá fer að glitta í betri tíma með eðlilegu  ástandi á mörkuðum og viðunandi aðgengi að lánsfé fyrir íslenska banka og íslenskt atvinnulíf almennt. Eftir þá niðursveiflu sem nú er ríkjandi verður samt að gera ráð fyrir að erlendir bankar hafi varann á gagnvart smáþjóð eins og okkur. Margra spurninga verður spurt áður en lánsfé fer að streyma til okkar að nýju. Ein sú helsta verður hvort hagvöxtur sé í landinu og hvernig hagvaxtarhorfur séu til næstu ára. Þá verður einnig spurt um stöðugleika í stjórnmálum og stjórnsýslu.

Stöðugur hagvöxtur og verðmætasköpun

Íslendingar þurfa á jöfnum, stöðugum hagvexti og verðmætasköpun að halda. Við þurfum að greiða götu þeirra sem vilja fjárfesta og standa með okkur í eflingu atvinnulífs á Íslandi, hvaða nafni sem þeir nefnast, svo fremi sem verkefnin uppfylli almenn skilyrði eins og á sviði umhverfismála. Við getum ekki boðið upp á stjórnsýslu sem gerir ósanngjarnar og óaðgengilegar kröfur til atvinnurekstrar og kemur ekki hreint fram eins og dæmin hafa því miður sannað. Kröfur eftirlitsaðila þurfa að vera gagnsæjar og þær þurfa að liggja fyrir með skýrum hætti. Það er engan veginn boðlegt að breyta um leikreglur á miðri leið þegar fyrirtæki hafa lagt mikið á sig til að uppfylla kröfur yfirvalda og hafa jafnframt lagt fram mikla fjármuni sem geta tapast ef leikreglum er breytt fyrirvaralaust.

Þunglamaleg stjórnsýsla

Fréttir um að Íslendingar standist ekki samanburð við aðrar vestrænar þjóðir, meðal annars vegna þunglamalegrar stjórnsýslu, er dapurlegt að lesa. Skemmst er að minnast þess þegar norskt hátæknifyrirtæki hætti við að reisa sólarkísilverksmiðju við Þorlákshöfn og ákvað að koma rekstrinum fyrir í Kanada.  Hætt var við vegna þeirrar óvissu sem skapast við þann frest sem íslenskir umsagnaraðilar taka sér. Langt umhverfismatsferli og óviss orka í framhaldsáfanga voru meðal þess sem fældi frá.

Íslendingar verða að vera samkeppnishæfir á þessu sviði eins og öllum öðrum og því gleðja nýleg orð iðnaðarráðherra um að íslenskar eftirlitsstofnanir og ráðuneyti þyrftu að taka sig á til að frestir stæðust. Það væri hluti af gæðakröfum og gæðaeftirliti.

Óheppileg ákvörðun umhverfisráðherra

Vandinn hefur tengst öðrum en iðnaðarráðuneyti. Ákvörðun umhverfisráðherra um heildstætt umhverfismat vegna álvers á Bakka við Húsavík er skýrasta dæmið. Fæstir telja þörf á matinu en það mun tefja framgang málsins um eitt ár.

Skyndiinngrip af þessu tagi koma óorði á íslensk stjórnmál, íslenskt stjórnkerfi og íslenskt atvinnulíf. Erlendir fjárfestar veigra sér við að vinna með þjóðum sem haga sér þannig. Þjóðum sem þeir óttast að ekki sé unnt að treysta.

Hingað til  hefur það verið einn af styrkleikum Íslendinga að okkur hefur verið treystandi. Það er brýnt að viðhalda því áliti ef við ætlum að vera gjaldgeng í samstarfi við erlendar þjóðir á sviði atvinnuuppbyggingar.

 

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins.