Bitið á jaxlinn
Leiðari Íslensks iðnaðar í október 2008
Atburðir síðustu vikna og daga hafa verið íslensku efnahags- og atvinnulífi erfiðir og sér ekki enn fyrir endann á þeim. Erfitt er að meta hverjar afleiðingar þessa áfalls verða en óhætt er að fullyrða að þær verða miklar og munu hafa langvarandi áhrif. Félagsmenn SI hafa orðið fyrir búsifjum í þessu gjörningaveðri í heimi fjármálanna líkt og flestir aðrir. SI munu því leggja sig öll fram um að hafa áhrif á framvindu mála með það að markmiði að tryggja sem allra best hagsmuni félagsmanna sinna.
Atburðir síðustu vikna og daga hafa verið íslensku efnahags- og atvinnulífi erfiðir og sér ekki enn fyrir endann á þeim. Erfitt er að meta hverjar afleiðingar þessa áfalls verða en óhætt er að fullyrða að þær verða miklar og munu hafa langvarandi áhrif. Félagsmenn SI hafa orðið fyrir búsifjum í þessu gjörningaveðri í heimi fjármálanna líkt og flestir aðrir. SI munu því leggja sig öll fram um að hafa áhrif á framvindu mála með það að markmiði að tryggja sem allra best hagsmuni félagsmanna sinna.
Verðum að sjá til botns
Stjórnvöld verða á næstu dögum að ná tökum á stöðunni þannig að viðspyrna fáist og óvissu verði eytt. Mikilvægt er að tryggja peningaflæði í endurreistu bankakerfi, gjaldeyrisviðskipti, styrkingu og stöðugleika krónunnar og tafarlausa lækkun stýrivaxta. Setja verður fram trúverðuga stefnu um hvernig takast á við vandann og koma eigi á jafnvægi að nýju. Öllum er ljóst að til þess þurfum við hjálp alþjóðasamfélagsins - verkefnið er of stórt til þess að við ráðum við það hjálparlaust.
Fyrirtæki í rekstri þurfa svigrúm
Við það sem framundan er þarf að gæta þess að umsvif fyrirtækja sem starfa í landinu, sinna okkar eigin þörfum og skapa fjöldanum atvinnu haldist sem mest óbreytt. Það þarf til dæmis að gæta að því að verklegar framkvæmdir dragist ekki um of saman eða að viðskipti á fasteignamarkaði stöðvist. Sem betur fer er engin ástæða til að ætla annað en stærstur hluti fyrirtækja okkar eigi sér góðan rekstrargrundvöll þrátt fyrir þessa ágjöf. Það má því ekkert gera sem dregur að óþörfu úr þeim þróttinn. Þau verða að fá nauðsynlegt súrefni.
Bök snúi saman
Íslenskur iðnaður hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna þegar ráðist er gegn þeim vanda sem við er að glíma. Öflugur íslenskur iðnaður sparar gjaldeyri þegar hann keppir við innflutning og aflar gjaldeyris þegar hann flytur út vörur og þjónustu. Iðnaðurinn gegnir þess vegna lykilhlutverki við að koma okkur aftur á lygnari sjó. Þegar er hafið átak til þess að hvetja almenning, fyrirtæki og stjórnvöld í landinu til þess að beina viðskiptum sínum og neyslu að íslenskum varningi og þjónustu - það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að velja og efla íslenskt. Það er einnig mikilvægt að félagsmenn SI beini eftir fremsta megni viðskiptum sínum til innlendra framleiðenda.
Sterkur bakhjarl
Samtök iðnaðarins eru ákveðin í því að reynast sterkur bakhjarl félagsmanna sinna á erfiðum tímum. Þau munu leggja sig fram um að vera í góðu sambandi við félagsmenn og aðstoða þá eftir mætti. Þeir eru eindregið hvattir til þess að hafa samband til þess að ræða málin, leita ráða og fá upplýsingar og fræðslu. Við þurfum öll að hjálpast að við að greiða úr þessum mikla vanda og koma auga á ný tækifæri í stöðunni.
Frá fortíð til framtíðar
Mikilvægt er að halda ró sinni og hefjast handa við endurreisnarstarf og grípa á lofti þau tækifæri sem fyrir hendi eru. Við breytum ekki því sem liðið er en við getum mótað okkar eigin framtíð og það skulum við gera saman.
Saman skulum við byggja upp enn öflugri iðnað en áður og tryggja honum samkeppnishæft og stöðugt starfsumhverfi.
Nú bítum við á jaxlinn.