Traustar stoðir framtíðar

Leiðari Íslensks iðnaðar í nóvember 2008

6. nóv. 2008

  • Jón Steindór Valdimarsson

Afleiðingar þess að íslenska fjármálakerfið hrundi nánast til grunna í einni svipan eru enn að koma í ljós. Við blasir að í hönd fara tímar margvíslegra breytinga og endurmats.

Afleiðingar þess að íslenska fjármálakerfið hrundi nánast til grunna í einni svipan eru enn að koma í ljós. Við blasir að í hönd fara tímar margvíslegra breytinga og endurmats. Margt af því sem við töldum sýna og sanna að við Íslendingar ættum í fullu tré við hvern sem er á hvaða sviði sem er reyndist þegar á hólminn var komið byggt á ofdirfsku og á köflum hreinni fífldirfsku. Á undraskömmum tíma tókst að reisa stórar spila- og skýjaborgir sem ekki stóðust þá skjálfta sem skóku og skekja enn hagkerfi heimsins. Undirstöður þeirra reyndust feysknar. Gildir þá einu hvort þær voru of háreistar fyrir þann jarðveg sem þær hvíldu á eða að burðarvirkið þoldi ekki það sem á því hvíldi.

Verkefni sem þarf að leysa

Til þess að hjól atvinnulífsins taki að snúast af krafti verður að leysa brýn verkefni:

  • Flutningsleiðir gjaldeyris til og frá landinu verður að opna.
  • Tryggja verður nægan gjaldeyri í landinu og skapa skilyrði fyrir eðlileg viðskipti með krónuna. Hún verður að styrkjast hratt og örugglega.
  • Samhliða verða vextir að lækka og verðbólga að hjaðna.
  • Gera verður þá kröfu til lífeyrissjóða og allra annarra sem eiga fjármuni í útlöndum að þeir flytji þá heim. Þannig stuðla þeir að styrkingu krónunnar og fjármunirnir nýtast til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi.
  • Viðskiptabankarnir verða að standa þétt við bakið á atvinnulífinu og halda því gangandi.
  • Ríki og sveitarfélög verða að halda uppi framkvæmdum.
  • Koma verður í veg fyrir óþarfa keðjuverkun uppsagna, samdráttar og gjaldþrota með öllum ráðum.

Aldrei hefur verið mikilvægara að tryggja nýsköpun, rannsókna- og þróunarstarf í atvinnulífinu. Þar þarf að huga að mörgum þáttum ekki síst fjármögnun og öflugu stoðkerfi. Hér má ekki einblína á að skapa ný fyrirtæki heldur verður að leggja kapp á að styrkja og efla þau fyrirtæki sem fyrir eru og nýta krafta þeirra til nýrra verka.

Orkulindir landsins ber okkur að nýta af skynsemi. Reynslan kennir okkur að fyrirtæki sem geta keypt orku í stórum stíl vilja fjárfesta í orkufrekum iðnaði hér á landi þegar það er skynsamlegt frá þeirra eigin forsendum en ekki eingöngu þegar við sjálf viljum. Við eigum ekki að líta á nýtingu orkuauðlindanna í samhengi við skammtíma efnahagsveiflur heldur sem grundvöll tekjustreymis til landsins og þar með sveiflujafnara til langs tíma.

Stöðugleiki enn og aftur

Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á þau grundvallarsannindi að til þess að byggja upp farsælt og arðsamt atvinnulíf þurfi fyrst og fremst stöðugleika og aftur stöðugleika. Það þarf ekki frekari vitnanna við að þau stjórntæki sem við höfum búið við duga okkur ekki lengur. Hér verður að söðla um og skipa málum þannig að dugi til langframa. Samtök iðnaðarins hafa fyrir löngu markað sér stefnu og barist fyrir henni, lengst af fyrir daufum eyrum ráðandi stjórnmálaafla. Sem betur fer virðist sterkur samhljómur vera að myndast í þjóðfélaginu öllu fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru. Vissulega stöndum við mun verr að vígi í þeim efnum en fyrir fáeinum misserum síðan en nú verður ekki lengur slegið á frest að taka af skarið á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Sókn er besta vörnin

Ekki má gleyma að þrátt fyrir allt eigum við þróttmikið atvinnulíf og fjöldann allan af góðum og vel reknum fyrirtækjum sem standa sig feikna vel á sínu sviði, bæði á heimamarkaði og á erlendum mörkuðum. Það er því fjarri lagi að við eigum að draga þá ályktun að nú eigi íslenskt atvinnulíf að draga sig inn í skel og réttast sé að hverfa frá því að íslensk fyrirtæki hasli sér völl utan landsteina. Þvert á móti eigum við að byggja á þeim grunni sem við eigum en einnig að sækja fram á nýjum sviðum. Það á að vera keppikefli okkar að selja vörur okkar og þjónustu um víða veröld og afla þannig þjóðarbúinu nauðsynlegra tekna. Það er grundvöllur þess að við náum að endurreisa og viðhalda lífskjörum sem skipa okkur að nýju í fremstu röð vestrænna þjóða.

Gömul sannindi og ný

Á sama hátt eigum við að leggja metnað okkar í að fullnægja eins og við getum þörfum á heimamarkaði fyrir vörur og þjónustu. Það eigum við að gera á grundvelli verðs, gæða og lögmála samkeppninnar. Ekki kemur til greina að hverfa að neinu leyti aftur til neins konar hafta, boða eða banna í þessu samhengi. Af því hefur engin atvinnugrein gott. Gildi samkeppni og alþjóðlegra viðskipta standa óhögguð. Það breytir ekki því að Samtök iðnaðarins munu ótrauð minna landsmenn og eigin félagsmenn á að það er sameiginlegur hagur okkar allra að kaupa sem mest af innlendri framleiðslu og þjónustu í stað innfluttrar. Þau sannindi eiga alltaf erindi og ætti ekki að þurfa að brýna fyrir nokkrum manni um þessar mundir.