Hið kalda hagsmunamat

Leiðari Íslensks iðnaðar í desember 2008

18. des. 2008

  • Jón Steindór Valdimarsson
Senn er að baki árið 2008. Það mun án efa verða ofarlega í huga okkar í framtíðinni sem upphafsár mikilla umskipta. Tíminn einn mun leiða í ljós hve róttæk og afdrifarík þau verða.

Senn er að baki árið 2008. Það mun án efa verða ofarlega í huga okkar í framtíðinni sem upphafsár mikilla umskipta. Tíminn einn mun leiða í ljós hve róttæk og afdrifarík þau verða. Margt þarf að endurmeta og marka þarf nýja stefnu. Einna brýnast er að ná sátt um þá efna­hagslegu umgjörð sem við viljum búa við til framtíðar og um leið hvar við viljum skipa okkur til sætis í samfélagi þjóðanna. Niðurstaða þessa endurmats ræður miklu um framhaldið. Okkur er öllum nauðsynlegt að stefnan og endamarkið séu skýr í hugum stjórnvalda, atvinnulífsins og alls almennings.

Þjóðin á síðasta orðið

Ekki þarf að fara í grafgötur með að spurningin um aðild að ESB og upptöku evru er ein þeirra grundvallarspurninga sem við verðum að svara sem allra fyrst. Skoðanir eru og verða skiptar um hvort svara beri spurningunni játandi eða neit­andi. Auðvitað er æskilegt að ná sem bestri samstöðu um niðurstöðuna en það er að sama skapi brýnt að svara henni afdráttarlaust hvort sem víðtæk samstaða næst eða ekki. Hér verður mat þjóðarinnar sjálfrar á þjóðarhag að ráða á endanum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það hljóta allir að geta verið sammála.

Þjóðin vill aðildarviðræður

Capacent Gallup hefur gert kannanir fyrir Samtök iðnaðarins um árabil um viðhorf almennings til Evrópumála. Í fimm ár hefur verið spurt reglulega: Ertu hlynntur því eða andvígur að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið? Í öllum þessum könnunum hefur hreinn meirihluti aðspurðra verið hlynntur viðræðum eða á bilinu 50,5% til 64,2%. Á sama tíma hafa þeir sem hafa verið andvígir viðræðum um aðild verið á bilinu 25,1% til 34,6%. Vilji þjóðarinnar virðist því býsna skýr og stöðugur í þessum efnum.

Stefna stjórnmálaflokka

Samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB og hefja viðræður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hleypt af stað umfangsmikilli stefnumótunarvinnu sem nær hámarki á landsfundi flokksins 29. janúar - 1. febrúar á komandi ári. Miðstjórn flokksins hefur skipað sérstaka Evrópunefnd sem skoðar stöðu Íslands gagnvart ESB, ríkjum Evrópu og val­kost­um Íslands í alþjóðasamstarfinu. Nefndin á að skila skýrslunni fyrir landsfundinn þar sem metið verður hvort framtíð Íslands sé betur borgið innan ESB en utan þess.

Flokksráð Vinstri-grænna ítrekaði á fundi 12. desember andstöðu við aðild að ESB en bætti við að framtíðarfyrir­komulag tengsla Íslands og ESB þyrfti að ákveða á lýðræðis­legan hátt í kjölfar vandaðrar og upplýstrar umræðu. Flokks­þing Framsóknarflokksins verður 16. - 18. janúar. Tillaga þess efnis að gengið verði til aðild­ar­­viðræðna við Evrópusambandið verður lögð fyrir þingið.

Í febrúar 2009 mun skýr afstaða beggja stjórnarflokkanna liggja fyrir og helstu stjórnarandstöðuflokkanna. Fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn komist að því að framtíð Íslands sé betur borgið innan ESB en utan þess er ljóst að stjórnar­flokk­arnir tveir eiga samleið í málinu. Þeir munu þá væntan­lega sækja um aðild að ESB og hefja viðræður. Komist Sjálf­stæðisflokkurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að hags­mun­um Íslands sé betur borgið utan ESB sýnist augljóst að þessi ríkisstjórn mun ekki sækja um né beita sér fyrir aðild. Hvað þá gerist verður ekki fjallað um á þessum vettvangi.

Hið kalda hagsmunamat

Flest bendir til þess að á næstu vikum og mánuðum verði teknar afdrifaríkar ákvarðanir fyrir land og þjóð. Ákvarðanir sem snerta margvíslega hagsmuni, tilfinningar og pólitíska sýn. Stjórnvöld á hverjum tíma, hver sem þau eru, eiga engan kost annan en taka þær ákvarðanir sem þau telja heildarhagsmunum þjóðarinnar fyrir bestu. Verði það niður­staðan af því sem sumir hafa kosið að kalla hið kalda hags­munamat, að íslenskum hagsmunum verði best borgið með aðild að ESB, á að ganga til samninga af fullri einurð og ganga eins langt og kostur er til að tryggja okkar hagsmuni á öllum sviðum. Þar reynir ekki síður á hið kalda hagsmuna­mat og það má ekki truflast af sérhagsmunagæslu eða kreddu­festu. Stjórnvöld eiga ekki að ljúka samningi fyrr en þau sjálf telja hann fela í sér framfaraspor. Þannig muni þau tala fyrir samþykkt hans þegar þjóðin fellir sinn dóm. Það á ekki að ganga til samninga um aðild að Evrópusambandinu í hálfkæringi - þá næst ekki besti hugsanlegur árangur og þá er betur heima setið.

Slíkan samning mun þjóðin aldrei samþykkja.

Að síðustu vil ég þakka félagsmönnum öllum ánægjulegt samstarf á liðnu ári.  Ég er sannfærður um að á komandi ári leggjum við grunn að bjartri framtíð íslensks iðnaðar. Saman höfum við alla burði til þess.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.