Framtíðin ræðst af verkum dagsins
Leiðari Íslensks iðnaðar í janúar 2009
Okkur er tamt að velta fyrir okkur hvað framtíðin ber í skauti sér en ekki síður að líta yfir farinn veg. Óhætt er að segja að nú sé ærin ástæða til þess að líta til baka enda blasir við að ekki hefur verið haldið rétt á spilunum. Þá gildir einu þó deilt sé um hve stór hluti okkar ófara er heimatilbúinn eða af völdum ytri aðstæðna. Af fortíðinni verðum við að læra og gera það sem unnt er til þess að endurtaka ekki þau mistök sem leidd verða í ljós. Samtímis verðum við að huga að framtíðinni, marka okkur framtíðarsýn og hefjast strax handa við að vinna þau verkefni sem færa okkur nær því markmiði. Við þurfum því í senn að horfa til baka og fram á við en mikilvægast er þó að vinna verkefni dagsins því leysum við þau ekki farsællega verða hinir þættirnir tveir að engu gagni.
Reisum nýtt og betra
Við verðum að vita hvaðan við erum að koma, hvar við erum og hvert við ætlum. Samþætting þessara þátta felur í sér lykilinn að farsæld okkar. Því fyrr sem við sameinumst um að taka málin þessum tökum því betra. Við eigum ekki að láta okkur nægja að sigrast á kreppunni heldur nota tækifærið og byggja upp betra, þróttmeira og heilbrigðara samfélag og atvinnulíf en áður. Atvinnulífið á að vera eins fjölbreytt og unnt er og þar á að forðast allt sem heitir einfaldar, einhæfar skyndilausnir sem leysa eiga allan vanda. Verðmætasköpun, atvinna, jafnt og sjálfbær vöxtur eiga að vera leiðarljós atvinnulífsins og hafa má í huga að góðir hlutir gerast jafnan hægt.
Afl þess sem gera þarf
Það eru gömul sannindi og ný að peningar eru afl þess sem gera þarf. Atvinnulífið hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum. Skrúfast hefur fyrir aðgang að fé, eftirspurn dregist saman, verðbólga rokið upp, erlendar og innlendar skuldir bólgna, eignir rýrna og vextir eru svimandi háir. Engin fyrirtæki lifa til lengdar í slíku rekstrarumhverfi. Það er óumflýjanlegt að mörg fyrirtæki munu fara í þrot eða neyðast til þess að draga saman seglin. Við þurfum að horfast í augu við þann bitra sannleik. Hitt megum við ekki láta gerast að lífvænleg fyrirtæki sem hafa komist í vanda eða fyrirtæki sem þrátt fyrir allt hefur tekist að halda sjó komist í þrot.
Hin leiðin drepur
Það verður að vera forgangsverkefni næstu daga og vikna að koma því í kring að vextir taki að lækka hratt og örugglega. Þá verður að koma fjármögnun nýju ríkisbankanna þriggja og efnahag á hreint til þess að þeir geti sinnt fyrirtækjum sem bíða ákvarðana þeirra um fyrirgreiðslu. Vaxtamunur milli Íslands og annarra ríkja hefur um langa hríð verið nánast óbærilegur en á síðustu mánuðum hefur algjörlega keyrt um þverbak. Vaxtamunur hefur aldrei verið meiri og það á sama tíma og algerlega er útilokað fyrir íslensk fyrirtæki að taka lán í útlöndum. Hér verður að snúa við blaðinu án tafar. Óttist menn að gengi krónunnar falli ef vextir lækka verður að takast á við þann vanda með því að halda ströngum gjaldeyrishöftum þar til tekst að semja við eigendur þess mikla fjármagns sem hér er innilokað. Hér er ekki hægt að gera hvoru tveggja í senn að takmarka viðskipti með gjaldeyrinn og halda uppi ofurvöxtum. Af tvennu illu er betra að halda gjaldeyrishöftum - hin leiðin drepur atvinnulífið.
Frumtak
Loksins er í höfn mikilvægt mál sem Samtök iðnaðarins hafa beitt sér fyrir á liðnum árum. Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak er loks fullskapaður og tekur til óspilltra málanna við að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Hann hefur rúma fjóra milljarða króna til þess að leggja í fyrirtæki á næstu árum. Frumtak er samvinnuverkefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, nýju bankanna þriggja og nokkurra öflugustu lífeyrissjóða landsins. Það er afrek útaf fyrir sig að tekist hafi að ljúka þessu verkefni við núverandi aðstæður. Þar réði úrslitum einbeittur vilji allra þeirra sem að stóðu. Þar átti iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, ekki ódrjúgan hlut að máli.
Fólk ársins í viðskiptalífinu
Samtökum iðnaðarins er það gleðiefni að fólk sem stýrir fyrirtækjum úr þeirra röðum varð fyrir valinu sem fólk ársins í viðskiptalífinu, Árni Oddur Þórðarson, Jón Sigurðsson og Rannveig Rist. Þau er öll vel að sinni viðurkenningu komin og fara fremst í flokki í liðsheildum Marels, Össurar og Alcans á Íslandi. Allt eru þetta vel rekin og framsækin fyrirtæki með fróðlega uppbyggingarsögu. Öll eiga þau það sammerkt að stjórnendur þeirra hafa ríkan skilning á viðfangsefninu og kunna þá list að flétta saman reynslu fortíðar, verkefni dagsins og hafa um leið sterka framtíðarsýn. Þá má ætla að val þessa fólks sé vísbending um að við munum í framtíðinni byggja atvinnulíf okkar á traustum framsæknum iðnfyrirtækjum sem fást við flókna framleiðslu byggða á mannauði og hátækni. Fyrirtækjum undir stjórn fólks sem sættir sig ekki við neitt annað en vera í fararbroddi á sínu sviði.