Horfst í augu við staðreyndir
Leiðari Íslensks iðnaðar í febrúar 2009
Íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir miklu áfalli. Það hefur áhrif á alla þætti þjóðlífsins. Ytri aðstæður fara að auki versnandi en svo virðist sem hinn vestræni heimur muni á næstu misserum takast á við djúpa efnahagslægð.
Íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir miklu áfalli. Það hefur áhrif á alla þætti þjóðlífsins, heimilin, fyrirtækin, ríki og sveitarfélög. Ytri aðstæður fara að auki versnandi en svo virðist sem hinn vestræni heimur muni á næstu misserum takast á við djúpa efnahagslægð.
Sjálfskaparvíti
Vandi okkar er að mörgu leyti erfiðari viðfangs og hefur alvarlegri áhrif en hjá öðrum þjóðum. Það sem hófst með fjármálakreppu og falli bankanna kom af stað gjaldeyriskreppu og hruni krónunnar. Verðbólga rauk upp í kjölfarið og efnahagskreppa skall á með tilheyrandi samdrætti og atvinnuleysi. Loks sprakk ríkisstjórnin og pólitísk óvissa bættist við. Eigið fé fyrirtækja og heimila brennur hratt upp vegna verðtryggðra eða erlendra lána sem hækka upp úr öllu valdi. Því miður hefur þetta ástand orðið til að stórum hluta vegna okkar eigin aðgerða eða aðgerðaleysis. Við færðumst of mikið í fang og kiknuðum undan því.
Útflutningstekjur verða að vaxa
Öllum ætti að vera ljóst að hér þarf að snúa við blaðinu og taka úr sambandi þá þætti sem gera vanda okkar miklu verri en annarra þjóða. Það verður að skapa aðstæður sem gera okkur kleift að afla meiri tekna til þjóðarbúsins en við eyðum. Raunar þarf að gera miklu meira en það því umtalsverðan afgang þarf til þess að geta greitt niður erlendar skuldir og til skamms tíma skotið styrkari stoðum undir gengi krónunnar. Útflutningstekjur þurfa einfaldlega að vera mun meiri en útgjöld vegna innflutnings.
Til þess að þetta sé hægt þarf öflug fyrirtæki sem skapa miklar útflutningstekjur um leið og mikill virðisauki verður af starfsemi þeirra hér á landi. Því fleiri og öflugri slík fyrirtæki sem við eigum og eignumst í framtíðinni því betra. Við ættum að hafa lært að skynsamlegt er að byggja á rekstri sem skapar stöðugar tekjur af sölu á vöru og þjónustu sem byggir á traustum viðskiptasamböndum.
Efla það sem við eigum
Hér megum við engan tíma missa. Þess vegna eigum við að einbeita okkur að því að byggja upp og örva þau fyrirtæki sem við eigum fyrir. Vissulega þarf að byggja upp nýtt. En hitt verður að vera í forgangi vegna þess að þar er unnt að ná árangri í gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun mun fyrr.
Það er margt sem hægt er að gera í þessum efnum, svo sem að taka upp endurgreiðslukerfi vegna nýsköpunar- og þróunarstarfs, skattalega hvata vegna fjárfestingar, leyfa flýtifyrningar til þess að draga úr skattbyrði o.fl. o.fl. Í öllum hinum vestræna heimi er verið að dæla fé inn í hagkerfin til þess að örva atvinnulífið. Hjá okkur hagar svo til að við höfum ekki ráð á því vegna þeirrar stöðu sem við höfum komið okkur í. Þess vegna verðum við að grípa til allra tiltækra ráða sem krefjast ekki stórra útláta úr tómum sameiginlegum sjóðum.
Sem betur fer eigum við mörg fyrirtæki sem uppfylla þessi skilyrði vel. Mörg þeirra hafa því miður neyðst til þess á undanförnum árum að byggja starfsemi sína upp í útlöndum í stað þess að taka vöxt sinn út hér á landi. Ástæða þess er einföld. Rekstrarskilyrði og efnahagsleg umgjörð á Íslandi hafa ekki gert þeim þetta mögulegt. Gengissveiflur, verðbólga, hátt vaxtastig og þensla hafa gert það óskynsamlegt og ómögulegt að taka út vöxt hér á landi.
Hugrekki er forsenda trausts
Til þess að íslensk fyrirtæki stækki hér á landi og erlend fyrirtæki og erlendir fjárfestar sjái sér hag í starfssemi hér þarf að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi og efnahagsstjórn. Um þessar mundir er það í molum og tómt mál að tala um breytingar í þeim efnum nema með róttækum aðgerðum og breytingum.
Það er orðið kristaltært í hugum flestra, ekki síst þeirra sem standa í rekstri, að sú peningamálastefna sem við höfum rekið og þar með íslenska krónan sé úr sögunni. Stjórnvöld verða að taka af skarið í þessum efnum. Verði það ekki gert er verið að taka ákvörðun um að binda íslensku atvinnulífi og almenningi fótakefli sem verður dýrkeypt.
Eina raunhæfa leiðin til þess að skapa traust á nýju kerfi er að taka upp evru og ganga í Efnahags- og myntbandalagið sem heldur um evruna. Það er ómögulegt án þess að ganga í Evrópusambandið og stjórnvöld verða að hafa hugrekki til þess að horfast í augu við það. Tal um aðra kosti er blekking.