Veljum okkur framtíð
Leiðari Íslensks iðnaðar í mars/apríl 2009
Kosningar til alþingis eru undir lok þessa mánaðar. Nýrrar ríkisstjórnar bíða mikil og erfið verkefni. Gangverk samfélagsins hefur orðið fyrir alvarlegum skakkaföllum og morgunljóst er að róttækra breytinga er þörf til að koma því í lag að nýju. Þeir sem bjóða sig fram til þings og óska þar með eftir umboði kjósenda til þess að stýra landinu á miklum örlagatímum verða að tala skýrt og tæpitungulaust um fyrirætlanir sínar. Þeir verða að gera grein fyrir hvernig þeir ætla að greiða úr málum til skamms og langs tíma. Þeir verða að gera grein fyrir sinni framtíðarsýn fyrir hönd Íslands og hvernig þeir hyggjast gera hana að veruleika.
Svart á hvítu
Atburðarás síðustu mánaða og missera hefur sýnt svart á hvítu að íslenskt efnahagskerfi getur ekki staðið eitt og sér og stuðst við eigin gjaldmiðil ef Íslendingar ætla sér að vera í framvarðasveit þjóða í hagsæld og lífsgæðum.
Atvinnulífið er að sligast undan ofurvöxtum, verðbólgu, gengisbreytingum, gjaldeyrishöftum og höktandi bankakerfi. Sama gildir um fjölmörg heimili og atvinnuleysi er í áður óþekktum hæðum. Bankakerfið hrundi og er enn óburðugt, við búum við gjaldeyriskreppu og ströng gjaldeyrishöft sem hefur leitt til þess að við höfum hafnað eigin gjaldmiðli í viðskiptum. Staðan er grafalvarleg og því sorglegt að horfa til sundurlyndis og stefnuleysis sem hefur einkennt framgöngu margra stjórnmálamanna og þar með stjórnvalda. Hefðbundið innihaldslaust karp er enn sem fyrr of stór þáttur í störfum Alþingis og þeim sem taka þátt til lítils sóma.
Hvorki töfralausnir né skyndilausnir
Vandinn er ærinn. Hann verður ekki leystur með fingrasmelli. Úr honum verður að vinna sig með harðfylgi og þrautseigju. Sá sem heldur öðru fram fer með blekkingar. Við verðum að snúa við blaðinu og taka úr sambandi þá þætti sem gera okkar vanda miklu verri en annarra þjóða og erfitt um vik að skapa aðstæður til þess að iðnaður og annað atvinnulíf vaxi og dafni.
Allir vita að háir vextir, mikil verðbólga, örar og stórar gengissveiflur með minnsta fljótandi gjaldmiðli heimsins er ekki blanda sem hentar farsælli uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs sem getur af sér fyrirtæki á heimsmælikvarða. Fyrirtæki sem enginn velkist í vafa um að hagfellt sé að reka á og frá Íslandi. Flestir eru því orðnir þeirrar skoðunar að hér verði að gera grundvallarbreytingar og taka upp nýtt kerfi efnahags- og peningamálastjórnar. Kerfi sem auðveldar stjórnvöldum eins og kostur er að halda stöðugleika í efnahagslífinu, vöxtum og verðbólgu í skefjum og draga að mestu úr gengissveiflum.
Við blasir leið sem stendur okkur opin, a.m.k. enn. Um hana vita allir en að sama skapi hugnast hún ekki öllum af ýmsum ástæðum. Þeir hinir sömu vilja fara aðrar leiðir en enginn hefur með sannfærandi hætti bent á að þær séu færar eða muni leiða til jafngóðrar eða betri niðurstöðu en sú sem við blasir. Sú leið kann að vera seinfarin og leiðarendi því ekki innan seilingar en eitt er þó víst að þangað kemst ekki sá sem aldrei leggur af stað.
Göngum hreint til verks
Í síðasta leiðara þessa blaðs var sagt að hugrekki væri forsenda trausts. Það skal endurtekið hér. Nú ríður á að til forystu veljist fólk sem hefur hugrekki til þess að horfast í augu við staðreyndir og taka erfiðar ákvarðanir. Við þurfum fólk með skýra framtíðarsýn sem er staðráðið í því að sjá til þess að íslensk fyrirtæki stækki og dafni hér á landi um leið og þau hafa öll tækifæri til þess að ná árangri á alþjóðlegum markaði og ekki síður að erlend fyrirtæki og erlendir fjárfestar sjái sér hag í starfsemi hér á landi. Forsenda þess er að okkur Íslendingum auðnist að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi og efnahagsstjórn, hratt og örugglega.
Takist okkur þetta ekki munu lífskjör versna og atvinnulífið verða einhæft - þá framtíð vill vonandi enginn frambjóðandi til þings bjóða okkur kjósendum. Við þurfum ekki slíka stjórnmálamenn.