Tíminn er kominn
Leiðari Íslensks iðnaðar í maí 2009
Kosningar eru að baki. Nýtt kjörtímabil er framundan. Sitjandi ríkisstjórn er ekki lengur minnihlutastjórn og hefur því þingstyrk til að taka til hendinni. Þegar þetta er ritað (5. maí) hefur samkomulag ekki tekist um stjórnarsáttmála og því ekki endanlega útséð hvernig málum lyktar. Myndun nýrrar stjórnar má alls ekki dragast á langinn. Hver dagur sem líður án þess að fyrir liggi hvað stjórnvöld ætla sér á næstu dögum, vikum og misserum er dýrkeyptur.
Verkefnin eru ærin
Það er brýnt að á næstu dögum verði kynnt víðtæk endurreisnaráætlun sem felur í sér sýn um hvert við ætlum okkur með íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Um leið verður að marka skýrar leiðir um hvernig á að komast þangað. Brýnasta verkefnið er án efa að blása til nýrrar sóknar og telja kjark í þjóðina. Stjórnvöld verða að sannfæra okkur um að við munum yfirstíga erfiðleikana og ná okkur á strik að nýju. Það á ekki að gera með því að breiða yfir vandann eða hlífa fólki við erfiðum staðreyndum. Hér gildir ekki að frestur sé á illu bestur eins og Göran Person, fv. forsætisráðherra Svía minnti okkur á í lok síðasta árs. Þvert á móti á að leggja öll spil á borðið um leið og gerð er grein fyrir því hvernig ætlunin er að spila úr stöðunni. Það eru allir reiðubúnir til þess að hefjast handa – nú vantar bara öfluga verkstjórn.
Nokkra grundvallarþætti verður að hafa í huga vegna endurreisnarstarfsins:
- vexti verður að lækka verulega og það strax
- senda þarf skýr skilaboð um peninga- og myntmál
- bankakerfið verður að komast í fullan gang og fara að lána
- krónubréfavandann verður að leysa
- örva verður framkvæmdir og neyslu
- skapa trú og traust á innlendri efnahagsstarfsemi
- gera þarf lífeyrissjóðum mögulegt að koma að endurreisninni
- koma þarf í veg fyrir að atvinnulífið lendi í höndum ríkisins
- tryggja verður stöðugleika í vaxta-, gengis- og verðlagsmálum
- tryggja verður greið utanríkisviðskipti
- gjaldeyrishöftin verður að afnema
- virðisauka og gjaldeyristekjur atvinnulífsins þarf að stórefla
- laða þarf erlenda fjárfesta til landsins
- traust og orðspor á erlendum vettvangi verður að endurvinna
- atvinnuleysi má ekki festast í sessi