Vopnahlé
Leiðari Íslensks iðnaðar í júní 2009
Ástandið í atvinnulífi og þjóðlífi Íslendinga er því miður orðið með þeim hætti að nú dugar ekkert minna en vopnahlé í stjórnmálum og allri hagsmunabaráttu ef ekki á að fara mjög illa. Það verður ljósara með hverri vikunni sem líður að þeir sem hafa varað við og krafist skjótra aðgerða til varnar fólki og fyrirtækjum, til eflingar atvinnulífi og til að hamla gegn enn frekara atvinnuleysi, hafa ekki verið illa lyntir úrtölumenn heldur óþægilega raunsæir.
Ástandið í atvinnulífi og þjóðlífi Íslendinga er því miður orðið með þeim hætti að nú dugar ekkert minna en vopnahlé í stjórnmálum og allri hagsmunabaráttu ef ekki á að fara mjög illa.
Það verður ljósara með hverri vikunni sem líður að þeir sem hafa varað við og krafist skjótra aðgerða til varnar fólki og fyrirtækjum, til eflingar atvinnulífi og til að hamla gegn enn frekara atvinnuleysi, hafa ekki verið illa lyntir úrtölumenn heldur óþægilega raunsæir.
Langvarandi ofurvextir hafa nagað atvinnulífið að innan og hlaðið upp vandamálum hjá þúsundum heimila. Gjaldeyrishöft lama eðlilega atvinnustarfsemi og hrun bankanna hefur valdið gífurlegum erfiðleikum um allt þjóðfélagið.
Dýrmætur tími glataðist
Ofan á bankahrun og efnahagskreppu hefur þjóðin valið sér stjórnmálakreppu til að bæta gráu ofan á svart. Það gerðist með því að fyrri ríkisstjórn hvarf frá völdum í stað þess að stjórnmálaflokkarnir í landinu tækju höndum saman um vopnahlé og myndun þjóðstjórnar – annað hvort síðastliðið haust eða í byrjun þessa árs. En pólitískar skylmingar voru meira spennandi en ábyrg vinnubrögð stjórnmálaflokkanna. Fyrir bragðið hafa fimm dýrmætir mánuðir glatast í raunverulegum tilraunum til endurreisnar. Það er enn beðið aðgerða.
Tíminn fór í pólitískan sandkassaleik. Janúar var notaður til að fella ríkisstjórnina og mynda nýja. Febrúar og mars fóru í flokksþing og prófkjör og apríl lagðist undir stutta kosningabaráttu. Svo kom stjórnarmyndun og þriðja ríkisstjórnin á fjórum mánuðum sem síðan hefur verið að reyna að horfast í augu við síversnandi raunveruleika í efnahagslífi landsmanna. m.a. vegna þess að nokkrir dýrmætir mánuðir fóru til spillis.
Samstaða
Þessu verður ekki breytt héðan af. Nú þurfa menn að læra af reynslu og mistökum síðustu mánaða og missera. Það er ekkert svigrúm fyrir pólitíska leiki. Það verða allir að standa saman um þær erfiðu aðgerðir sem blasir við að þurfi að framkvæma til þess að uppbygging efnahagslífsins á Íslandi geti hafist af alvöru.
Svokallað uppgjör við fortíðina er þarft. Þau mál eru í farvegi hjá réttum yfirvöldum. Látum þau sjá um að upplýsa það sem gerðist og kalla til ábyrgðar þá sem kunna að hafa gerst brotlegir við lög og reglur. En festum okkur ekki í fortíðinni og refsigleðinni. Í henni felst engin verðmætasköpun en það er einmitt verðmætasköpun í atvinnulífinu sem við þurfum mest á að halda. Hugsum ekki bara um niðurskurð og skattlagningu. Hugsum meira um uppbyggingu og atvinnusköpun. Á henni þurfum við nauðsynlega að halda og það strax.
Framundan er að leysa sameiginlegt verkefni sem snýr að því að ná niður 170 milljarða halla á fjárlögum ríkisins. Það verkefni verður ekki skilið eftir hjá fjármálaráðherra einum. Ekki hjá ríkisstjórninni einni. Að lausn þessa gríðarlega vanda verða allir stjórnmálaflokkar að koma og einnig verkalýðshreyfingin og atvinnulífið sem fulltrúar fólks og fyrirtækja. Hjá óvinsælli og óarðbærri skattlagningu verður því miður ekki komist né miklum og sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda til þess að rétta við fjárhag ríkisins. Því fyrr sem þjóðin horfist í augu við vandann og tekur á honum, þeim mun betra. Upp frá því ætti leiðin að geta legið upp á við í trausti þess að slíkum aðgerðum fylgi langþráð vaxtalækkun niður í eins stafs stýrivaxtatölu.
Tímabundið vopnhlé - Þjóðstjórn
Ef við semjum ekki vopnahlé og grípum til óhjákvæmilegra aðgerða hið fyrsta, er hætta á enn skelfilegra ástandi hér á landi. Ástandi sem menn vilja helst ekki lýsa eða hugsa til enda.
Stjórnmálaflokkar og aðrir áhrifaaðilar í þjóðfélaginu ættu nú að semja eins árs vopnahlé, mynda þjóðstjórn, taka höndum saman um að leysa stóru og erfiðu málin og sigla hagsmunum Íslendinga í var. Eftir það mætti taka til við pólitískar skylmingar og hagsmunabaráttu þar sem frá var horfið.