Samheldni og samstaða

Leiðari Íslensks iðnaðar í júlí 2009

9. júl. 2009

  • Jón Steindór Valdimarsson

Þessi misserin hefur sjaldan eða aldrei legið meira við að iðnaðurinn eigi sterk samtök, sterkan málsvara sem talar máli iðnaðarins í þeim sviptingum sem nú skekja atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar. Því fleiri og virkari félagsmenn sem skipa raðir SI þeim mun meiri slagkraft hafa þau.

Samtök iðnaðarins eru hagsmunasamtök. Í því felst að þau berjast fyrir hagsmunum iðnaðarins í landinu. SI eru stór og öflug samtök með rúmlega 1.100 aðildarfyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Viðfangsefni þeirra og hagsmunir eru að sama skapi fjölbreyttir og um leið falla þeir ekki ávallt saman í öllum atriðum. Hitt er augljóst að það er meira sem sameinar en sundrar. Það gerir SI mögulegt að kljást við hin stóru hagsmunamál um leið og þau reyna að þjóna félagsmönnum sínum í stóru sem smáu.

Þessi misserin hefur sjaldan eða aldrei legið meira við að iðnaðurinn eigi sterk samtök, sterkan málsvara sem talar máli iðnaðarins í þeim sviptingum sem nú skekja atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar. Því fleiri og virkari félagsmenn sem skipa raðir SI þeim mun meiri slagkraft hafa þau.

Ástæða er til þess að rifja upp það sem segir í lögum SI um meginhlutverk og tilgang. Þar segir m.a. að SI eigi að „þjóna íslenskum iðnaði og gæta hagsmuna hans á innlendum og erlendum vettvangi ... að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda, fjármálastofnana, opinberra stofnana og annarra sem tengjast starfsemi iðnaðarins, með það að markmiði að íslenskum fyrirtækjum verði búin starfsaðstaða sem gerir þau samkeppnishæf á innlendum og erlendum mörkuðum, án hindrana og með arðbærum hætti ... að fylgjast vel með alþjóðlegri samningagerð á vegum opinberra aðila og aðstoða þá við að meta þá þætti slíkra samninga er varða hagsmuni iðnaðarins hér á landi og á erlendum mörkuðum.“

Afdrifaríkar ákvarðanir

Flest bendir til þess að á næstunni verði fjallað um eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, hvort Ísland verður aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Niðurstaða þess máls mun hafa afgerandi áhrif á starfskilyrði atvinnulífsins og umgjörð efnahagsmála. SI hafa fjallað um þau mál og mótað sér þá stefnu að sækja beri um aðild. Á vettvangi SI er að hefjast starf sem tekur mið af áformum stjórnvalda um að leggja inn umsókn á næstunni og að líklegt sé að aðildarviðræður hefjist á næsta ári. Til þess leiks mun iðnaðurinn mæta vel undirbúinn. Aðildin að ESB er gott dæmi um viðfangsefni þar sem þrengri hagsmunir allra félagsmanna fara ekki endilega saman enda þótt heildarhagsmunirnir geri það. Þess vegna er mikilvægt að vanda mjög til verka í þessu efni og það verður gert. 

Svört vinna og skattsvik

Miklir erfiðleikar steðja að í efnahagsmálum og augljóst er að draga verður saman svo um munar í opinberum útgjöldum og auka skattbyrði til þess að ná endum saman. Um þetta er ekki deilt þó ágreiningur sé um aðferðafræði og hlutfall niðurskurðar og skattheimtu. Um hitt hljóta allir að vera sammála að það er óþolandi með öllu að sumir sleppi við að standa skil á sínu. Hrein skattsvik, svört vinna, misnotkun bóta og þar fram eftir götunum kosta samfélagið tugi milljarða. Tugi milljarða sem þarf að sækja með niðurskurði eða hærri sköttum til hinna sem standa skil á sínu. Gegn þessu þarf að berjast með kjafti og klóm. SI eru að hleypa af stokkunum herferð gegn þessu böli og beina því sérstaklega til félagsmanna sinna að fara að lögum og reglum í sínum rekstri. Þá er einnig hægt að ætlast til þess af öðrum.

Veljum hvert annað

Samtök iðnaðarins eru hagsmunasamtök en þau eru líka félagsskapur. Félagsskapur þeirra sem vilja vinna saman að hagsmunamálum iðnaðarins, efla hann og styrkja með ráðum og dáð. Félagsskapur þeirra sem líta ekki eingöngu í eigin barm og meta alla hluti af þeim sjónarhóli einum heldur þeim að leggja sitt af mörkum í þágu almennra hagsmuna. SI hafa að undanförnu hvatt landsmenn til þess að velja íslenskt til þess að efla þjóðarhag. Við því ákalli hefur verið vel brugðist. Ástæða er til þess að brýna félagsmenn Samtaka iðnaðarins til að skoða vandlega í eigin viðskiptum hvort samherjar þeirra innan SI bjóða ekki fram vöru og þjónustu sem hentar þeirra rekstri. Það gefur félagskap okkar enn aukið gildi og eykur sameiginlegan styrk okkar.