Sundurlyndisfjandinn
Leiðari Íslensks iðnaðar í ágúst 2009
Í þrengingum og vanda ríður á að samstaða náist um markmið og leiðir. Víðsýni, skynsemi og fyrirhyggja verða að ráða för frekar en þröngsýni, heimótti og skammsýni. Við vitum að á næstu misserum og árum bíða okkar erfið úrlausnarefni sem felast í því að rísa undir skuldabyrði og byggja upp þróttmikið atvinnulíf. Atvinnulíf sem getur selt vörur og þjónustu úr landi samtímis því að byggja upp traust umheimsins á Íslandi og Íslendingum en ekki síður traust okkar sjálfra og trú á eigin framtíð.
Fróðleg saga
Í lok 19. aldar gekk harðæri yfir Ísland. Þá greip fjöldi fólks til þess ráðs að flytjast vestur um haf og hefja nýtt líf. Þeir sem áhrifamestir voru og réðu mestu um örlög fyrstu Vesturfaranna áttu sér draum um að stofna nýtt Ísland á nýjum stað. Saga hinna íslensku Vesturfara er í senn fróðleg og raunaleg og sannarlega má draga af henni lærdóm í samtímanum þegar Ísland stendur á tímamótum.
Draumurinn sem varð að martröð
Forsprakkar hins nýja Íslands ákváðu að finna stað í Kanada sem væri afskekktur og fjarri öðrum til þess að unnt yrði að halda íslenskri byggð hreinni og eiga sem minnst samskipti við aðra. Það leiddi til þess, þrátt fyrir ábendingar og viðvaranir kunnugra, að Íslendingarnir höfnuðu frjósömum akuryrkjulöndum en völdu Nýja Íslandi stað við Winnepegvatn, hrjóstrugum stað sem enn þann dag í dag þykir ekki fýsilegur til búsetu eða búskapar. Þar var hokrið síst betra en í gamla landinu og kostaði mörg mannslíf en þrátt fyrir að fljótlega kæmi í ljós að staðurinn væri óheppilegur var haldið áfram að beina Vesturförum þangað. Íbúar Nýja Íslands vildu ekki vinna saman að því að reisa skemmur og bæi og leggja vegi og byggja brýr til þess að tengja sig við nauðsynlega markaði. Þess í stað vildi hver reisa sinn kofa á eigin spýtur og huga einn að sínu. Í Nýja Íslandi átti að tala íslensku, halda íslenskum siðum og eiga sem minnst samskipti við „útlendinga“, sem raunar voru allir innflytjendur eins og Íslendingarnir sjálfir. Deilur í trúmálum og um framtíð hinnar nýju byggðar mögnuðust samtímis því sem kjör versnuðu. Niðurstaðan varð auðvitað sú að draumurinn um Nýja Ísland varð að martröð, fólk flosnaði upp og fann sér betri bústaði. Þeir Vesturfarar sem gerðu sér far um að samlagast því samfélagi sem fyrir var áttu síðan mestu og bestu láni að fagna.
Sporin ættu að hræða
Því er ekki að neita að ótrúlega auðvelt er að draga hliðstæður frá þessum löngu liðnu tímum til orðræðu nútímans og afstöðu til þeirra viðfangsefna sem við stöndum frammi fyrir. Sannar það sjálfsagt að mannskepnan er ávallt söm við sig. Við eigum þó ekki annan kost en gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir að hið nýja Ísland nútímans hljóti sömu örlög og hið fyrra. Við verðum að velja veg samvinnu og samskipta í stað einangrunar.
Sameiginleg sýn
Við þurfum að sameinast um grundvallaratriði, langtímamarkmið og viðhorf, sem stuðla m.a. að því að gera atvinnulífið þróttmikið og samkeppnishæft og þjóðina upplitsdjarfa. Við þurfum að:
leggja áherslu á útflutning vöru og þjónustu með miklum virðisauka
standa vörð um iðn-, verk- og tæknimenntun hvers konar
nýta auðlindir af skynsemi
ganga í Evrópusambandið og taka upp evru
endurvinna traust á alþjóðavettvangi
viðurkenna að margt er gott að vinna í samvinnu við aðrar þjóðir
viðurkenna að Íslendingar eru dugmiklir en það eru aðrar þjóðir líka
koma í veg fyrir að ungt og vel menntað fólk hverfi úr landi
gera íslenskum fyrirtækjum unnt að vaxa og dafna og sækja á erlenda markaði
gera Ísland fýsilegt fyrir erlenda fjárfesta, t.d. á sviði gagna- og tölvuvinnslu
örva nýsköpunar- og sprotastarfsemi
muna að dramb er falli næst
Látum ekki sannast að við Íslendingar séum þrjóskir, sjálfumglaðir og þykjumst geta allt best sjálfir og einir. Látum ekki okkar drauma verða að martröð.