Við verðum að vaxa
Leiðari Íslensks iðnaðar í september 2009
Til þess að íslenskt efnahags- og atvinnulíf fái risið á fætur að nýju þarf skýra sýn á nokkur grundvallaratriði og sameinast um að ná þeim fram. Sumt þarf að gerast strax, annað tekur lengri tíma en er samt samtvinnað og þarf að vinna jöfnum höndum. Allt sem gert er á að hafa það að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir velferð og farsæld til langrar framtíðar. Forsenda þess er öflugt atvinnulíf sem býr við stöðug og samkeppnishæf starfsskilyrði.
Senn er ár liðið frá því að brotlending íslensks efnahagslífs var staðfest í frægu ávarpi forsætisráðherra sem lauk með orðunum: Guð blessi Ísland. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, vandi þjóðarinnar orðið ljósari og um leið stærri og djúpstæðari en flesta gat órað fyrir á haustdögum síðasta árs. Enn er erfitt að átta sig til fulls á tjóninu í samfélaginu og hvernig best er að standa að því að greiða úr skuldavanda stórs hluta almennings og fyrirtækja þegar loks sér fyrir endann á því að fjármálastofnanir landsins geta tekið til starfa með nýju fjármagni og nýjum eigendum.
Skýr sýn
Til þess að íslenskt efnahags- og atvinnulíf fái risið á fætur að nýju þarf skýra sýn á nokkur grundvallaratriði og sameinast um að ná þeim fram. Sumt þarf að gerast strax, annað tekur lengri tíma en er samt samtvinnað og þarf að vinna jöfnum höndum. Allt sem gert er á að hafa það að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir velferð og farsæld til langrar framtíðar. Forsenda þess er öflugt atvinnulíf sem býr við stöðug og samkeppnishæf starfsskilyrði.
Burðarásar vaxtarins
Leiðarljósið verður að vera að auka getuna til þess að framleiða og selja vörur og þjónustu sem mest til útlanda eða útlendinga hér á landi. Leggja ber sérstaka áherslu á þá starfsemi sem skilar sem mestum virðisauka. Samtímis verður að skapa rúm fyrir þann mikla fjölda fólks sem nú er án atvinnu og það fólk sem mun koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum. Þá er æskilegt að við getum sinnt eigin þörfum sem mest en þó einungis þar sem við getum keppt við aðra og þá auðvitað á sem jöfnustum grunni. Það er tómt mál að tala um að landbúnaður og sjávarútvegur gegni lykilhlutverki í þessu samhengi. Þessar greinar munu ekki taka við fleira fólki þó vel megi vera að þar séu tækifæri til sóknar með meiri verðmætasköpun og útflutningi, sérstaklega í sjávarútvegi. Það eru því aðrar greinar á sviði iðnaðar og þjónustu sem verða að bera hitann og þungann af uppbyggingu framtíðarinnar. Þess vegna verða hagsmunir þessara greina að vera í kastljósi og algjörum forgrunni þegar starfsskilyrði atvinnulífsins eru vegin og metin. Með þessu er alls ekki verið að gera lítið út mikilvægi sjávarútvegsins, einungis bent á augljósar staðreyndir. Sjávarútvegur er og verður mikilvægur íslenskum þjóðarbúskap en þangað sækjum við ekki nauðsynlegan vöxt. Um landbúnaðinn gegnir talsvert öðru máli þar sem hann lýtur öðrum lögmálum sem einkennast af niðurgreiðslum, tollvernd og byggðasjónarmiðum.
Samkeppnishæfni
Við verðum að leggja grunn að opnu samfélagi sem byggir á samkeppni og greiðum viðskiptum við útlönd. Til þess að svo megi verða þurfum við að treysta alla innviði samfélagsins með það að leiðarljósi að það leiði til aukinnar samkeppnishæfni, við eigum að ráðast í arðbærar framkvæmdir á sviði raforku- og samgöngumála. Við eigum sem aldrei fyrr að leggja áherslu á menntamál og þá fyrst og fremst menntun á sviði iðn-, tækni- og verkkunnáttu. Við verðum að forgangsraða í menntakerfinu. Það er óhjákvæmilegt. Nýsköpun og aðstoð við fyrirtæki, gömul og ný, til þess að vinna nýja markaði á að vera í forgrunni.
Erlendir fjárfestar
Við verðum að bjóða erlenda fjárfesta velkomna til Íslands. Það á að greiða götu þeirra og fagna öllum skynsamlegum áformum um þátttöku þeirra í íslensku viðskiptalífi. Í stað þess að finna fjárfestingunum allt til foráttu eins og oft virðist raunin á ætti að leita allra leiða til að gera þær að veruleika. Hér er alls ekki verið að leggja til neins konar undirlægjuhátt eða að hér geti menn gert hvað sem er. Oftast eru mál þannig vaxin að báðir aðilar hafa gagn og hag af. Erlendir fjárfestar koma hingað auðvitað ekki til þess að gefa okkur eitt né neitt en ekki endilega heldur til þess að hlunnfara okkur. Reynsla okkar af erlendum fjárfestum hefur hingað til verið góð. Sjálfum þykir okkur sjálfsagt að fjárfesta um víða veröld og jafnvel í greinum sem nýta orku- og sjávarauðlindir. Við lítum ekki svo á að þar fari Íslendingar í þeim tilgangi að arðræna og hlunnfara heldur eiga arðbær viðskipti. Það er ekki að ástæðulausu að stjórnvöld víðast hvar í heiminum leggja sig sérstaklega fram við að laða að erlenda fjárfesta. Bein tengsl eru á milli hagvaxtar og erlendrar fjárfestingar. Henni fylgir ný þekking og tækni, sérhæfing og verkaskipting.
Úr blindgötunni
Við verðum að sætta okkur við að íslenska krónan, með tilheyrandi gengissveiflum og vaxtaokri og nú síðast sem skiptimynt í spákaupmennsku á fjármálamörkuðum, er svo mikill skaðvaldur í efnahagslífi okkar að við það verður ekki unað. Það er ófært að hér sé búið að koma á gjaldeyrishöftum sem aftengja markaðslögmál. Það er ófært að hér séu stýrivextir 12%. Þessi leið er fullreynd. Hún hefur leitt okkur í blindgötu. Þá er að feta nýja slóð sem dugir til langframa. Hún blasir við öllum þeim sem vilja sjá.
Hver er sinnar gæfu smiður. Í því felst að brugðið getur til beggja vona eftir því hvernig haldið er á málum. Við skulum sameinast um leið vaxtar og velgengni.