Hugsað til morguns

Leiðari Íslensks iðnaðar í október 2009

19. okt. 2009

  • Jón Steindór Valdimarsson

Dagur kemur eftir þennan dag er spakmæli sem gott er að hafa í huga þegar tekist er á um markmið og leiðir til lausnar á þeim erfiðleikum sem íslenskt samfélag hefur ratað í. Umræðan um hvað morgundagurinn muni bera í skauti er of oft lituð af því að einungis sé um tvo kosti að ræða – svart eða hvítt, þetta eða hitt – í raun er það sjaldnast svo. Því miður virðist þetta viðhorf vera að sækja í sig veðrið og átök á þeim grundvelli fara harðnandi í samfélaginu. Það er auðvitað grátlegt að samstaðan sé ekki meiri þegar svo mikið liggur við í íslensku samfélagi. Sundrungin seinkar framförum og kemur í veg fyrir að við náum tökum á efnahagsvandanum.

Dagur kemur eftir þennan dag er spakmæli sem gott er að hafa í huga þegar tekist er á um markmið og leiðir til lausnar á þeim erfiðleikum sem íslenskt samfélag hefur ratað í.

Umræðan um hvað morgundagurinn muni bera í skauti er of oft lituð af því að einungis sé um tvo kosti að ræða – svart eða hvítt, þetta eða hitt – í raun er það sjaldnast svo. Því miður virðist þetta viðhorf vera að sækja í sig veðrið og átök á þeim grundvelli fara harðnandi í samfélaginu. Það er auðvitað grátlegt að samstaðan sé ekki meiri þegar svo mikið liggur við í íslensku samfélagi. Sundrungin seinkar framförum og kemur í veg fyrir að við náum tökum á efnahagsvandanum. Sérstaklega er þetta bagalegt í ljósi þess að við höfum allar forsendur til þess að halda lífskjörum okkar og velferð í fremstu röð þótt óumflýjanlegt sé að nokkuð kreppi að um stund.

Einsýni er til trafala

Umræða um nýtingu orkuauðlinda, umhverfismál, orkufrekan iðnað, hátækni-, sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, smáfyrirtæki og stórfyrirtæki, hefðbundin og óhefðbundin fyrirtæki er mjög í brennidepli og þar er sterk tilhneiging til að skipa sér í fylkingar - svart eða hvítt. Slík einsýni og einföldun gerir ekkert nema tefja fyrir nauðsynlegri uppbyggingu atvinnulífsins. Samtök iðnaðarins eru svo heppin að hafa innan sinna raða fyrirtæki af öllum þessum tegundum. Okkar reynsla er sú að því meiri samskipti sem eru milli þeirra, þvert á hefðbundnar skilgreiningar og flokkanir, því betur kemur í ljós að hagsmunir þeirra eru keimlíkir og þau geta nýtt styrkleika hvers annars og sérstöðu til nýrra og spennandi verkefna.

Orkumikill iðnaður

Einmitt þessa dagana standa Samtök iðnaðarins fyrir sameiginlegri stefnumótunarvinnu fyrirtækja sem nýta og framleiða orku, fyrirtækja sem vinna að bættri orkunýtingu og minni umhverfisáhrifum orkunýtingar og fyrirtækja sem eru að þróa nýja orkugjafa og orkuvinnslu. Án nokkurs vafa er græn orka og hvers kyns tækni og framleiðsla sem snýr að því að bæta orkunýtingu og draga úr mengun í tengslum við orkuvinnslu og orkufrekan iðnað eitt af stóru tækifærum okkar. Það verður spennandi að sjá til hvers þessi vinna leiðir. Takist vel til eigum við alla möguleika á að hagnýta orkuauðlindir okkar með enn betri hætti og þróa framleiðslu og þjónustu sem við getum selt.

Slæm þrætubókarlist

Endurnýjanleg orka er ein af dýrmætustu auðlindum okkar. Mikilvægt er að umgangast orkuauðlindirnar af virðingu og gætni um leið og þær eru hagnýttar til verðmætasköpunar. Samtök iðnaðarins hafa í mörg ár kallað eftir því að stjórnvöld hraði og ljúki við vinnu þar sem ákvarðað verður hvar má virkja og hvar ekki. Meðan það liggur ekki fyrir er jarðvegurinn frjór fyrir lærðri þrætubókarlist um hvar og hve mikið er til af orku til ráðstöfunar í framtíðinni. Þær þrætur eiga að vera óþarfar. Stjórnvöld og stofnanir sem bera ábyrgð á orkurannsóknum og leyfum til orkuvinnslu verða að bæta ráð sitt í þessum efnum. 

Einfalt en samt flókið

Atvinnuleysi er mikið á Íslandi. Um 15.000 manns eru án atvinnu og ef marka má nýja könnun SA mun þeim fjölga enn. Á hverju ári bætast þúsundir karla og kvenna á vinnumarkaðinn vegna fjölgunar Íslendinga. Öllum þessum vinnufúsu höndum þarf að finna viðfangsefni. Augljóst er að lítill hluti þeirra mun fá vinnu við landbúnað eða útgerð og fiskvinnslu. Ríki og sveitafélög þurfa að draga saman seglin frekar en hitt þannig að fjölgun á þeim vettvangi er ekki í augsýn. Hið sama gildir um mannvirkjagreinarnar. Hvar er þá rými til vaxtar? Svarið er í senn flókið og einfalt. Við verðum að efla þær greinar sem geta vaxið og aflað tekna frá útlöndum. Það er einfaldi hluti svarsins. Flókni hluti þess er sá að þar er ekkert eitt sem kemur til bjargar heldur mörg og fjölbreytt fyrirtæki á sviði hvers konar framleiðslu og þjónustu. Bæði ný og rótgróin.