Samkeppnismál í brennidepli
Ritstjórnargrein Íslensk iðnaðar, ágúst 2003
Á þessu sumri má segja að kastljós fjölmiðla hafi mjög beinst að samkeppnismálum eða öllu heldur skorti á samkeppni.
Einkennileg verðþróun
Í bréfi sem Samtök iðnaðarins rituðu iðnaðarráðherra 7. nóvember 2001 var á það bent að verð á gasolíu á heimsmarkaði hefði lækkað mikið undanfarna mánuði en á sama tíma hefði verð á gasolíu á Íslandi einungis lækkað óverulega. Verðþróun erlendis gaf engar vísbendingar sem skýrt gætu þá staðreynd að verð á gasolíu stóð í stað á þessum tíma en verð á bensíni og skipaolíu lækkaði nokkuð í kjölfar háværra mótmæla bifreiðaeigenda og útgerðarmanna. Í bréfinu var ennfremur bent á að athugun á verðmyndun olíu hér á landi hafði þá staðið í heilt ár og beðið um að þeirri athugun yrði hraðað enda miklir hagsmunir í húfi.
Ekki berjast gegn því að fyrirtækin stækki...
Samtök iðnaðarins og flest önnur samtök atvinnurekenda hafa um árabil haldið því fram að áhersla samkeppnisyfirvalda eigi fyrst og fremst að vera sú að koma í veg fyrir misbeitingu markaðsráðandi stöðu, samkeppnishindranir og samráð á fákeppnismarkaði með því að fylgjast með þeim fyrirtækjum sem þar starfa og setja þeim ákveðnar leikreglur ef þörf krefur. Að okkar mati eiga samkeppnisyfirvöld t.d. ekki að banna samruna nema í algerum undantekningartilvikum. Fyrir slíku banni þarf að sýna fram á mjög sterkar líkur á því að samruni muni leiða til skaðlegrar röskunar á samkeppni. Það á með öðrum orðum ekki að ganga að því sem gefnu að öll stærri fyrirtæki með ráðandi stöðu á markaði muni misnota aðstöðu sína en slík staða kallar hins vegar á eftirlit með verðmyndun og viðskiptaháttum þessara aðila.
...en fylgjast með verðmyndun á fákeppnismarkaði
Undanfarin ár hafa samkeppnisyfirvöld, að okkar mati, reynt að hamla gegn því að íslensk fyrirtæki verði of stór en lítið hlustað á kvartanir fyrirtækja og almennings vegna einkennilegrar verðþróunar og viðskiptahátta á fákeppnismörkuðum. Á það jafnt við um matvöruverslun, bankastarfsemi og olíudreifingu. Á þessu virðist nú hafa orðið tímabær breyting og má í því sambandi nefna reglur um viðskiptahætti á matvörumarkaði og rannsókn á meintu samráði olíu- og tryggingarfélaga. Hér skal ekkert fullyrt um hvernig til hefur tekist faglega með þessar rannsóknir og enn síður hverjar niðurstöðurnar verða. Hitt er víst að hér er tekin rétt stefna, sem sé sú að koma í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu og ólögmætt samráð um verðmyndun.
Ömurlegur málflutningur
Önnur frétt, sem vakið hefur athygli, er gjaldskrárhækkun Orkuveitu Reykjavíkur sem rökstudd er með því að kostnaður vegna orkunotkunar heimila á höfuðborgarsvæðinu sé með því lægsta sem þekkist og hins vegar að OR hafi orðið af tekjum vegna hlýinda að undanförnu. Það er að vonum að fjölmiðlar og almenningur reki upp ramakvein þegar svona málflutningur er borinn á borð. Jafnvel talsmenn einokunarfyrirtækis geta ekki leyft sér að tala svona á sama tíma og fyrirtækið er að byggja yfir sig þriggja milljarða króna höll þar sem kostnaðurinn fór þriðjung fram úr áætlun að sögn stjórnarformannsins. Ekkert var rætt um að við þessu þyrfti að bregðast með niðurskurði kostnaðar eða uppsögnum, hvað þá að gert yrði átak til þess að auka sölu og þar með tekjur. Allt væru það eðlileg viðbrögð í venjulegu fyrirtæki en OR er ekki venjulegt fyrirtæki.
Framleiðsla byggð á sérþekkingu...
Nýting jarðvarma er eitt þeirra sviða þar sem Íslendingar búa yfir tækniþekkingu umfram aðrar þjóðir. Hér er Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna og öflugt rannsóknastarf fer fram á þessu sviði. Á sjávarútvegssviðinu búum við einnig yfir slíkri þekkingu sem hefur skilað sér í framleiðslu, sölu og útflutningi á margvíslegri vöru og þjónustu.
...verður ekki til hjá einokunarfyrirtækjum
Ekkert slíkt hefur gerst á orkusviðinu. Það er lítill áhugi hjá þeim einokunarfyrirtækjum, sem þar starfa, á að byggja upp nýja framleiðslu eða selja þjónustu á sínu sviði. Til hvers að leita leiða til að afla tekna með útflutningi vöru og þjónustu þegar hægt er að skemmta sér við að byggja upp nýjar höfuðstöðvar, fjarskiptakerfi, veitingahús á skopparakringlu og risarækjueldi? Vanti meiri peninga í slík verkefni er einfalt mál að hækka gjaldskrána. Bregðist viðskiptavinirnir við með því spara við sig hitann eða rafmagnið eftir hækkunina þá þarf bara að hækka meira. Ekki fara þeir neitt og þeir verða fegnir að fá ljós og yl í vetur þegar kólnar og dimmir.
Sveinn Hannesson