Skattarugl

Leiðari Íslensks iðnaðar í nóvember 2009

27. nóv. 2009

  • Jón Steindór Valdimarsson

Stjórnvöld sveipuðu sig skikkju hinnar umhyggjusömu neyslustýringar og kölluðu nýja skattinn sykurskatt og fóru þannig með hann í gegnum þingið gegn ítrekuðum mótmælum Samtaka iðnaðarins og ábendingum um aðrar leiðir. Þingmenn létu blekkjast. Það sem gerðist var einfalt. Gamla vörugjaldskerfið var vakið upp frá dauðum og kerfið frá 2007 tekið upp að nýju nema skattaálagið var tvöfaldað - hvorki meira né minna! Skattlagningin hefur lítið sem ekkert með sykur að gera.

Fjárlög ríkisins fyrir komandi ár verða afgreidd frá Alþingi á næstu vikum. Ríkisstjórnin hefur loksins sýnt spilin og boðað breytingar á skattkerfinu og stóraukna skattheimtu.

Undanfarnar vikur hefur sérkennilegt sjónarspil verið sett á svið í þessum efnum og er gott að þeirri sýningu er að ljúka. Það er mikið áhyggjuefni hve hart er gengið að atvinnulífinu öllu og vegið að getu þess til að vaxa og dafna. Það er rík ástæða til að ætla að tekjur ríkissjóðs verði minni en ríkisstjórnin ætlar vegna þess að skattstofnarnir munu rýrna í stað þess að vaxa. Vaxandi skattstofnar eru ótvírætt heilbrigðismerki en fallandi hættumerki.

Óvarlegt er að beita einföldum töflureikningsaðferðum til þess að reikna hve mikið aukinn skattþungi gefur í aðra hönd. Framboð og eftirspurn ráða hér miklu. Kaupgeta almennings hefur dregist mikið saman og er enn að dragast saman. Framleiðendur á neytendavörumarkaði finna sannarlega fyrir þessu.

Margt er við boðaðar skattabreytingar að athuga frá sjónarhóli iðnaðarins en sýnu verst er þegar verið er að gera kerfisbreytingar sem eru klárlega til bölvunar. Hér verður látið nægja að staðnæmast við þá fyrirætlan að taka upp þriggja þrepa virðisaukaskatt og draga um leið matvælaframleiðendur og framleiðsluvörur þeirra í dilka.

Rétt er að rifja upp að árið 2007 náðist sá merki áfangi að öll matvæli voru sett í sama þrep virðisaukaskatts. Einnig var gerður góður skurkur í því að fella niður þann óþurftarskatt sem vörugjöld eru af stærstum hluta matvæla. Sú sæla stóð ekki lengi. Í vor var ákveðið að sækja fram að nýju og taka aftur upp sérstaka skatta á matvælaframleiðendur sem sjá landanum fyrir sódavatni, ávaxtasafa, mjólkurkexi, súkkulaði og gosdrykkjum. Stjórnvöld sveipuðu sig skikkju hinnar umhyggjusömu neyslustýringar og kölluðu nýja skattinn sykurskatt og fóru þannig með hann í gegnum þingið gegn ítrekuðum mótmælum Samtaka iðnaðarins og ábendingum um aðrar leiðir. Þingmenn létu blekkjast.

Það sem gerðist var einfalt. Gamla vörugjaldskerfið var vakið upp frá dauðum og kerfið frá 2007 tekið upp að nýju nema skattaálagið var tvöfaldað - hvorki meira né minna! Skattlagningin hefur lítið sem ekkert með sykur að gera. Fjölmargar vörur sem eru ýmist algjörlega sykurlausar eða hafa hverfandi sykurinnihald eru skattlagðar en á sama tíma eru stórir flokkar sætrar vöru vísvitandi undanskildir vörugjaldinu.

Nú á enn að róa á sömu mið. Matvælin sem bera hið óréttláta vörugjald, framleiðendur þeirra og neytendur eiga enn að þurfa að sæta því að stjórnvöld geri þá að skotmarki. Enn á að auka misréttið með því að þau matvæli sem bera vörugjald verði flutt upp í nýtt 14% virðisaukaskattsþrep. Það er ekki einleikið hvernig stjórnvöld haga sér. Það er engu líkara en þau hafi sérstakt horn í síðu nokkurra gamalgróinna íslenskra iðnfyrirtækja sem hafa þraukað hér í áratugi í harðri samkeppni við innflutning.

Samtök iðnaðarins hafa alla tíð barist gegn vörugjöldum sem voru fyrst lögð á til bráðabirgða fyrir 40 árum. Satt að segja héldu þau að búið væri að kveða niður þennan draug að mestu en sjá nú að því er ekki að heilsa. Samtök iðnaðarins hafa bent stjórnvöldum á að unnt sé að fara aðrar einfaldari og sanngjarnari leiðir ef þau vilja ráðast gegn sykurneyslu með skattheimtu. Það er einfaldlega með því að leggja skatt á allan sykur sem fluttur er til landsins í hvaða formi sem er, þ.e. hreinan sykur eða sykurinnhald í tilbúnum vörum. Með þessu móti er tekist á við sykurinn sjálfan án mismununar milli innlendra framleiðenda og vöruflokka annars vegar og milli innflutnings og innlendrar framleiðslu hins vegar.

Enn verður látið á það reyna hvort unnt er að koma einhverju tauti við stjórnvöld í þessum efnum. Vonandi tekst að stöðva þessa vitleysu í meðförum þingsins og koma í veg fyrir sannkallað skattarugl.