Er von?
Leiðari Íslensks iðnaðar í desember 2009
Ársins 2009 verður ekki minnst með neinni gleði á Íslandi. Árs mótlætis, vonbrigða og margháttaðra mistaka á mörgum sviðum stjórnsýslu og þjóðlífsins alls. Eftir risaáföllin á haustdögum 2008 stóðu vonir til þess að Íslendingar hefðu víðsýni til að taka höndum saman um skjóta endurreisn. Sú varð því miður ekki raunin. Í stað þess að stjórnmálaforysta landsins semdi vopnahlé til að koma þjóðlífinu inn á réttar brautir á sem skemmstum tíma, var mestri orku eytt í marklítið karp og óarðbært pólitískt vopnaskak sem gerði það að verkum að margir mánuðir fóru fyrir lítið á meðan þjóðin beið eftir lausnum sem hafa jafnvel enn ekki látið á sér kræla.
Ársins 2009 verður ekki minnst með neinni gleði á Íslandi. Árs mótlætis, vonbrigða og margháttaðra mistaka á mörgum sviðum stjórnsýslu og þjóðlífsins alls.
Eftir risaáföllin á haustdögum 2008 stóðu vonir til þess að Íslendingar hefðu víðsýni til að taka höndum saman um skjóta endurreisn. Sú varð því miður ekki raunin. Í stað þess að stjórnmálaforysta landsins semdi vopnahlé til að koma þjóðlífinu inn á réttar brautir á sem skemmstum tíma, var mestri orku eytt í marklítið karp og óarðbært pólitískt vopnaskak sem gerði það að verkum að margir mánuðir fóru fyrir lítið á meðan þjóðin beið eftir lausnum sem hafa jafnvel enn ekki látið á sér kræla.
Talið var brýnast að skipta um ríkisstjórn, koma á minnihlutastjórn, efna til kosninga, halda landsfundi í öllum flokkum, halda prófkjör út um allt, heyja innihaldsrýra kosningabaráttu, mynda svo nýja ríkisstjórn og reyna þá fyrst að hefjast handa þegar komið var fram undir mitt ár. Þá fór Icesave-draugurinn á kreik og hélt þingheimi í gíslingu Alþingis megnið af sumrinu – án þess að málinu lyki. Þegar þessar línur eru skrifaðar á miðri jólaföstu hefur sá draugur ekki enn verið kveðinn niður og stundum virðist sem þingheimur sé að niðurlotum kominn.
VILJI TIL VAXTAR ?
Því miður virðast stjórnvöld ætla að velja skattpíningarleiðina í stað vaxtarleiðar út úr kreppunni. Það er skoðun mín að stórauknar skattaálögur á fólk og fyrirtæki við þessar aðstæður geri ekki annað en að dýpka kreppuna og lengja hana. Ég vil frekar sjá djarfa vaxtarstefnu aukinnar verðmætasköpunar sem fjölgar arðsömum störfum sem fyrst, dregur úr böli atvinnuleysis og skapar ríki og sveitarfélögum auknar tekjur. Verði skattpíningarstefnan ofan á getum við vænst vaxandi pólitískra átaka um hugmyndafræði á sviði skattheimtu í þjóðfélaginu. Fólk mun rísa upp gegn þeirri skattaáþján sem nú hefur verið boðuð. Ef stjórnmálaflokkar gagnast ekki til varnar á þessu sviði, má búast við að fjöldinn láti reyna á samtakamátt sinn á öðrum vettvangi.
En er von?
Ég er svo bjartsýnn – eða galinn – að halda því fram að enn sé von fyrir okkur Íslendinga. En þá þurfa ráðandi öfl að hætta að sóa dýrmætum tíma, hætta að taka rangar ákvarðanir og fara að taka margar réttar ákvarðanir og það hratt.
AUÐLINDANÝTING
Við Íslendingar búum að auðugum náttúruauðlindum sem við eigumað nýta með fullri virðingu og af mikilli skynsemi; fiskinn í sjónum, orkuna, landið sjálft og ekki síst mannfólkið.
Munurinn á okkur og ýmsum öðrum þjóðum sem lent hafa í efnahagsþrengingum er einkum sá að við eigum mikilvægar auðlindir og við verðum að bera gæfu til að nýta þær rétt.
Orkuna þarf að nýta með réttum og ábyrgum hætti til eflingar iðnaðar á sem flestum sviðum.
TÍMAMÓT
Notum hátíðina framundan til að hugsa okkar ráð með jákvæðum hætti og meta hvað við getum gert til að snúa óheillaþróun síðustu missera til betri vegar. Festumst ekki í fortíðarhyggju, mistakaumræðu og refsigleði. Sannleikurinn kemur í ljós og okkur er óhætt að horfa fram á veginn.
Gleymum ekki inntaki jólanna. Horfum til baka yfir það skammdegi sem ríkt hefur í þjóðarsál Íslendinga þetta árið og munum að daginn er tekið að lengja með hækkandi sól. Skammdeginu lýkur senn. Í birtunni felst vonin.
Fyrir hönd Samtaka iðnaðarins færi ég lesendum og landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýjársóskir. Megi árið 2010 færa okkur öllum gleði, hamingju og aukinn styrk til góðra verka.