Ekki olíugjald ofan á kílómetragjald
Ritstjórnargrein Íslensk iðnaðar, nóvember 2003
Árum saman hefur verið um það rætt hvort samræma eigi gjaldtöku af dísilbifreiðum og bensínbifreiðum þannig að skattheimta af dísilbifreiðum verði færð frá því að vera gjald á ekna kílómetra yfir í gjald á eldsneyti líkt og tíðkast í flestum nágrannalöndum í Evrópu.
Ekki tvöfalt kerfi
Samtök iðnaðarins hafa verið hlynnt slíkri breytingu en á síðustu missirum hafa forsendur breyst verulega með hækkun á olíuverði á heimsmarkaði og bættu eftirliti með innheimtu þungaskatts. Úrslitum ræður þó að Samtök iðnaðarins eru algerlega andvíg því að taka upp það tvöfalda kerfi olíugjalds og þungaskatts sem kynnt var í formi frumvarps sl. haust en hlaut þá ekki afgreiðslu. Enn á ný eru þessar hugmyndir komnar á kreik í frumvarpi því sem hefur verið kynnt í þingflokkum ríkisstjórnarinnar. Innan vébanda Samtaka iðnaðarins er fjöldi verktaka, flutningsaðila og framleiðenda sem reka hundruð bifreiða sem falla undir gildissvið umræddra laga. Er skemmst frá því að segja að einhugur er meðal þeirra um það að frumvarpið í núverandi mynd sé algerlega ótækt.
Ekki stóraukna skattheimtu
Ástæðan fyrir þessari eindregnu andstöðu er einföld. Með frumvarpinu er alls ekki horfið frá gjaldtöku á ekna kílómetra um leið og tekið er upp gjald á hvern lítra gas- og dísilolíu. Þvert á móti er ætlunin að halda áfram verulegri gjaldtöku á allar bifreiðar (æki) með leyfilega heildarþyngd yfir 10 tonn, þó að undanskildum bifreiðum til fólksflutninga. Ítarlegir útreikningar sýna að hér er í langflestum tilvikum um að ræða verulega aukna skattheimtu af flestöllum bifreiðum yfir þessum mörkum. Algeng niðurstaða úr útreikningum á skattlagningu fyrir og eftir þessa breytingu er hækkun á bilinu 30-40% en dæmi eru til um mun meiri hækkun. Örfá dæmi eru um óbreytta eða nærri óbreytta skattlagningu léttari bifreiða og langflutningabifreiða sem ekið er margfalt meira en almennt þekkist. Á heildina litið er um verulega aukna skattheimtu að ræða og þeim mun meiri sem leyfð heildarþyngd ækis er yfir 10 tonna markinu.
Ekki byrja á 8% hækkun þungaskatts
Að mati Samtaka iðnaðarins er óviðunandi að viðhalda tvöföldu skattkerfi á þessa tegund bifreiða og hækka gjaldtökuna um leið umtalsvert enda er þessi gjaldtaka nú þegar komin út yfir öll velsæmismörk og mun meiri en dæmi eru um annars staðar í Evrópu. Ekki verður þó séð að fjármálaráðherra telji að hér þurfi að slaka á klónni því að strax í þingbyrjun í haust var lagt fram frumvarp um 8% hækkun þungaskatts, svona rétt til þess að hita upp fyrir stóru skattahækkunina sem felst í upptöku tvöfalda kerfisins. Rökin fyrir þessari hækkun voru einföld en ekki að sama skapi ásættanleg. Það er sem sé skoðun ráðherrans að það sé svo langt síðan skatturinn hækkaði síðast að nú megi það ekki dragast lengur.
Ekki mismuna eftir því hvað flutt er
Erfitt er að skilja þau rök frumvarpshöfunda að áframhaldandi gjaldtaka af þyngri bifreiðum í formi kílómetragjalds taki mið af þeim kostnaði sem hlýst af sliti þeirra á vegakerfinu en síðan segir í greinargerð að ástæða þess að kílómetragjaldið leggst ekki á bifreiðar til fólksflutninga sé sú að þeir eru undanþegnir virðisaukaskatti! Ef kílómetragjald á að endurspegla kostnað vegna slits á vegakerfinu getur gjaldtakan ekki verið háð því hvort viðkomandi bifreið er notuð til að flytja fólk eða vörur, né heldur því hvort umræddur atvinnurekstur er virðisaukaskattskyldur eða ekki. Við þessa mismunun bætist svo að gert er ráð fyrir að endurgreiða 70% af olíugjaldi til sérleyfishafa og þeirra sem reka almenningsvagna. Eins og fram kemur í greinargerð hafa þessir aðilar notið sambærilegs afsláttar í núverandi þungaskattskerfi. Það eru einu rökin fyrir því að viðhalda þessari fáránlegu mismunun. Hún er orðin hefðbundin.
Ekki mismuna eftir því hvernig flutt er
Í frumvarpinu er ráðgert að refsa sérstaklega fyrir að nota dráttarvagna. Í núverandi þungaskattskerfi er greiddur þungaskattur (kílómetragjald) af bifreið og vagni eftir þyngd. Nú á að bæta um betur og innheimta olíugjald af bifreiðinni og þungaskatt (kílómetragjald) að auki en til viðbótar skal greiða tvöfaldan þungaskatt (kílómetragjald) af vagninum.
Hugvitsemin, sem birtist í þessu frumvarpi, er takmarkalaus.
Ekki olíugjald á vinnuvélar á hjólum
Þegar upptaka olíugjalds hefur verið til umræðu á undanförnum árum hafa Samtök iðnaðarins ávallt bent á það að taka þyrfti sérstakt tillit til bifreiða sem vinna mikið í kyrrstöðu svo sem krana-, körfu- og dælubifreiðar. Sama á við um söfnunarbíla fyrir sorp- og steypubifreiðar. Á sínum tíma var um það samkomulag að kæmi til upptöku olíugjalds í stað þungaskatts myndu eigendur slíkra bifreiða hafa um það val að þær yrðu flokkaðar sem vinnuvélar og mættu þá nota gjaldfrjálsa (litaða) olíu en greiddu eftir sem áður þungaskatt miðað við ekna kílómetra. Engin merki er að finna í frumvarpinu um að taka eigi sérstaklega á gjaldtöku af þessum bifreiðum.
Ekki samþykkja þetta frumvarp
Niðurstaðan er þessi. Þetta frumvarp er afleitt. Það eykur og flækir skattheimtu, hækkar flutningskostnað og viðheldur gamaldags mismunun milli flutningsaðila. Þetta frumvarp er beinlínis ótækt og má ekki verða að lögum.
Sveinn Hannesson