Vöxtur fyrir framtíðina
Leiðari Íslensks iðnaðar í janúar 2010
Óvissan er versti óvinur þeirra sem leggja á ráðin um framtíðina. Því færri óvissuþættir því betra. Á mörgum þáttum er hægt að hafa góða stjórn en öðrum alls ekki. Gott er að hafa vit til þess að greina þarna á milli og ráðast í að eyða þeirri óvissu sem er á okkar valdi. Stærsti óvissuþátturinn sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir undanfarið er án nokkurs vafa hvernig og ekki síður hvenær Icesave-málið verður leitt til lykta.
Sameiginleg ábyrgð
Uppbygging í atvinnulífinu er forsenda nauðsynlegs vaxtar. Við þurfum á erlendu fé að halda til þess, bæði í formi fjárfestinga og lánsfjár á viðráðanlegum kjörum. Forsenda þess er traust og tiltrú á getu okkar til vaxtar og arðsemi í atvinnulífinu. Icesave-málið spillir fyrir að þessar forsendur verði uppfylltar. Málið er af þeirri stærðargráðu að stjórnmálamönnum og valdhöfum öllum ber skylda til þess að ýta öllum ágreiningi í öðrum málum til hliðar, geyma fortíðarbrigsl og taka sameiginlega ábyrgð á því að höggva á þann hnút sem Icesave-málið er komið í, ekki síst á heimavelli. Það er skýlaus krafa úr ranni iðnaðarins að hér verði gengið hratt og fumlaust til verks og allir leggist á eitt um lausn.
Stóra verkefnið
Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og fer vaxandi. Atvinnuleysi meðal ungs fólks eykst, einkum meðal lítið menntaðra karla. Sýnu verst er þó að langtímaatvinnuleysi vex hröðum skrefum. Takist ekki að stemma stigu við því er hætt við að félagsleg vandamál af margvíslegu tagi aukist og að með hverjum degi sem líður muni þeim fjölga sem ekki eiga afturkvæmt á vinnumarkaðinn - það kennir bitur reynsla annarra þjóða okkur. Samkvæmt yfirliti Vinnumálastofnunar um stöðuna í nýliðnum desember voru 7.457 búnir að vera atvinnulausir lengur en 6 mánuði sem er um 49% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Að meðaltali voru 13.776 án atvinnu í desember eða 8,2% en á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 4,8%, eða 7.902 manns.
Það blasir líka við að á næstu árum mun þeim fjölga um a.m.k. 2.000 sem koma inn á vinnumarkaðinn á hverju ári. Ef horft er til næstu fimm ára eru þetta samtals 24.000 manns sem þurfa störf við hæfi og ef við horfum til næstu tíu ára eru þetta hvorki meira né minna en 34.000 manns og er þá varlega áætlað. Auðvitað gæti farið svo illa að megnið af þessu fólki hyrfi úr landi en metnaður okkar getur varla staðið til þess. Þá er bara tvennt í stöðunni. Annars vegar að búa svo um hnútana að allir fái störf við hæfi eða verði atvinnulausir og þar með svo þung byrði að ekki verður undir henni risið. Hér ætti ekki heldur að vera erfitt að velja.
Til þess að átta sig á hve stórt þetta verkefni er má benda á að samkvæmt tölum Hagstofunnar störfuðu árið 2008 um 4.400 manns við landbúnað, 7.300 við fiskveiðar- og vinnslu en um 17.300 við almennan iðnað. Samtals eru þetta 29.000 manns. Afar ólíklegt er að landbúnaður og sjávarútvegur muni bæta við sig fólki svo neinu nemi á næstu árum. Raunar hefur fólki fækkað í þessum greinum um 10.200 manns milli áranna 1996 og 2008. Þeim sem starfa í almennum iðnaði hefur á sama tíma fjölgað um 1.500 og er þá ótalinn vöxtur í upplýsingatækni og hátæknigreinum ýmis konar. Þá er mannvirkjagerðin ekki með í þessum tölum.
Greinar sem byggja á því að selja vörur og þjónustu úr landi verða að bera hitann og þungan af því að skapa öll þessi störf. Þess vegna verður stjórn efnahags- og atvinnumála að taka mið af þessum greinum fyrst og fremst. Þær þurfa á að halda opnum mörkuðum, greiðum milliríkjaviðskiptum, stöðugleika í starfsumhverfi og áreiðanlegan og stöðugan gjaldmiðil svo ekki sé talað um skaplega vexti.