Drifkraftur frumkvöðla og nýsköpunar

Leiðari Íslensks iðnaðar, september 2003

1. sep. 2003

  • Jón Steindór Valdimarsson

Framfarir og hagsæld eru drifnar áfram af fólki sem á það sameiginlegt að sýna frumkvæði, vera djarft, sjálfstætt, hugmyndaauðugt, og fylgið sér. Nauðsynlegt er að skapa frjóan jarðveg fyrir fólk af þessu tagi og hugmyndir þess. Það verður að gera með því að skapa drifkraft í samfélaginu sem felur í sér hvatningu, viðurkenningu og stuðning við frumkvæði, frumkvöðla og nýsköpun.

Margs konar frumkvöðla þarf
Eiginleikar frumkvöðlanna koma að góðu gagni alls staðar, ekki bara við stofnun og rekstur fyrirtækja sem verða að stórfyrirtækjum í fyllingu tímans. Við þurfum fleiri en þá sem standa í stafni skútunnar, fólk sem sýnir frumkvæði í daglegum störfum. Þegar upp koma vandamál í fyrirtækinu eða nýjar áherslur í starfseminni benda þeir á hugsanlegar lausnir eða leiðir til úrbóta. Frumkvæðis og frumkvöðulshugsunar er þörf við öll störf. Ekkert starf er svo smátt eða ómerkilegt að ekki megi laga og betur um bæta. Öll tannhjólin í gangverki atvinnulífsins skipta máli. Skútan siglir nefnilega ekkert ef engin er áhöfnin nema skipstjórinn.

Jákvætt hugarfar til atvinnurekstrar
Margur kann að segja að ekki sé hægt að búa til frumkvöðla. Þar ráði eðlislægir eiginleikar einstaklingsins mestu. Það kann að vera rétt að hluta en á hinn bóginn er örugglega bæði hægt að eyðileggja og ýta undir frumkvæði, allt eftir því hvernig að hlutunum er staðið. Hér hafa skólarnir stóru hlutverki að gegna. Þeim þarf að skapa svigrúm til að samþætta náminu atriði sem lúta að frumkvæði og nýsköpun og örva skilning nemenda á gangverki atvinnulífsins og áhuga á að verða þar virkir gerendur. Jákvætt viðhorf til atvinnurekstrar sem uppsprettu verðmæta er hér höfuðnauðsyn. Þetta þarf að gera í samfellu allt frá leikskóla til háskóla. Gera þarf skólunum kleift að byggja upp fjölbreytt nám og sinna mismunandi þörfum. Ekki á að mæla fyrir um aðferðir í smáatriðum eða hvernig markmiðum skuli náð heldur gera ríkar kröfur til þess árangurs sem skólarnir skila. Þetta er mikilvægt bæði fyrir nemendur og kennara, sem fá þá notið sín sem best.

Þurfum að vera í hópi hástökkvaranna
Miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum. Við erum óðfluga að breytast úr tæknivæddu veiðimannasamfélagi í tæknivætt framleiðslu- og þjónustusamfélag. Örfáir háskólamenntaðir menn störfuðu í iðnaði fyrir 15-20 árum. Þetta hefur gerbreyst og á eftir að breytast enn hraðar. Við höfum séð að þjóðir sem hafa lagt höfuðáherslu á að efla rannsóknir og menntun, ekki síst á sviði verk- og tæknimenntunar, hafa tekið stór stökk fram á við í efnahagslegu tilliti. Við viljum vera í hópi hástökkvaranna á þessu sviði. Þá skipta höfuðmáli nýsköpun, frumkvæði og hugvit. Verk- og tækninám hefur löngum verið afskipt í íslensku skólakerfi og þar hefur sannast að fjárhagslegir hvatar virka í skólakerfinu eins og annars staðar. Ef skólunum er refsað fjárhagslega fyrir að bjóða nám í verk- og tæknigreinum, minnkar framboð af þessu námi og nemendum fækkar.

Margt gott gert en betur má ef duga skal
Sem betur fer eigum við mikinn og góðan efnivið í frumkvöðla og fólk sem hefur mikla athafnaþrá. Margt er einnig gert til þess að laða fram þennan sköpunarkraft. Dæmi um það er Þjóðarátak til nýsköpunar og margvísleg keppni s.s ungra vísindamanna eða Upp úr skúffunum í HÍ þar sem skósólar með harðkornum, vetnishús og bakspelkur koma við sögu. Margt annað má vissulega nefna sem hefur verið gert til þess að styðja við nýsköpunarstarf og er þar nærtækast að nefna stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, IMPRU og nú síðast ný lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, Vísinda- og tækniráð, opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Stefnufestu og þrautseigju vantar
Hins vegar er ekki nóg að gert ef við viljum vera í fremstu röð að þessu leyti. Það þarf að tryggja fjármagn til þessara hluta og marka ákveðnari stefnu um samfellda uppbyggingu á þessum sviðum. Þar er því miður pottur brotinn. Það hefur viljað brenna við að skipt sé um hest í miðri á í stað þess að halda settum kúrs.

Í ávarpi við afhendingu Nýsköpunarverðlauna 2003 sagði frumkvöðull Latabæjar, Magnús Scheving, eitthvað á þá leið að frumkvöðull mætti aldrei missa sjónar á settu marki, síðan þyrfti vinnu, þrautseigju og þolinmæði til þess að ná þangað og það gæti tekið langan tíma. Nákvæmlega það sama á við um uppbyggingu þeirra stoðkerfa sem þarf til þess að efla og hlúa að frumkvæði og nýsköpunarstarfi í samfélaginu.

Það kom verulega á óvart að lífeyrissjóðirnir ákváðu skyndilega að hverfa frá því uppbyggingar- og umbreytingarstarfi sem að var stefnt með Framtaki fjárfestingarbanka. Það er einnig hörmulegt til þess að vita Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skuli ekki hafa meira fjármagn til ráðstöfunar en raun ber vitni. Starf hans hefur skilað miklum og góðum árangri og augljóst að knýjandi þörf er fyrir starfsemi hans. Það er greinilegt að upphaflegt ráðstöfunarfé hans var ekki nóg miðað við þörfina og sömuleiðis hefur komið í ljós að það tekur mun lengri tíma fyrir sjóðinn að fá til baka þær fjárfestingar sem skila arði en talið var í upphafi. Við þessu á að sjálfsögðu að bregðast með því að efla sjóðinn en ekki með því að láta starfsemina dragast saman jafnvel með því að beina takmörkuðum fjármunum annað til svipaðrar starfsemi. Hér þarf ekki síður stefnufestu og þrautseigju en í Latabæ.

Jón Steindór Valdimarsson