Eiga bankarnir að þjóna fyrirtækjunum eða eiga þau?
Leiðari Íslensks iðnaðar, október 2003
Miklar breytingar hafa orðið á íslenskri fjármálaþjónustu hin síðari ár og flestar til hins betra. Sameining banka og einkavæðing þeirra var löngu tímabær breyting. Framboð af hvers konar sérhæfðri fjármálaþjónustu hefur stóraukist og fagmennska í íslenskum fjármálastofnunum er mun meiri en áður var.
Vissulega má halda því fram að með okkar veika og óstöðuga gjaldmiðil, þurfum við á allri fáanlegri þekkingu að halda til þess að verjast áföllum vegna óstöðugs verðlags og gengis. Þær tryggingar eru hins vegar dýru verði keyptar og bæta gráu ofan á svart þar sem fyrirtæki okkar þurfa að auki að greiða mun hærri vexti og þóknanir en þekkjast víðast annars staðar.
Góð afkoma en óhagkvæmur rekstur
Eigendur bankanna geta hins vegar glaðst yfir því að afkoma bankanna hefur verið með miklum ágætum. Því miður er það ekki svo að þessi rífandi hagnaður bankanna undanfarin ár stafi alfarið af hagræðingu og sparnaði í rekstri þó að forsvarsmenn þeirra hafi reyndar stundum haldið því fram.
Nýlega var haft eftir einum af bankastjórum landsins að íslenska bankakerfið sé allt of dýrt. Starfsmenn séu hér hlutfallslega miklu fleiri en í nágrannalöndunum, útibú fleiri og kostnaður meiri. Þetta er afar merkileg yfirlýsing, sérstaklega þegar litið er til þess að hinir sömu bankar skila mun meiri hagnaði en flestir bankar í nágrannalöndunum. Varla er hægt að draga aðra ályktun en þá að hér skorti virka samkeppni. Óhagkvæmur rekstur og methagnaður fara ekki saman þar sem samkeppni ríkir hvort sem verslað er með iðnvarning eða peninga.
Að keppa við eigin viðskiptavini
Annað sem breyst hefur mjög undanfarin missiri eru bein afskipti og inngrip bankanna í atvinnurekstur almennt. Ekki er langt síðan allt ætlaði af göflum að ganga vegna þess að Iðnlánasjóður neyddist til að taka yfir rekstur gjaldþrota steypustöðvar meðan leitað var eftir kaupanda að eignunum. Nú er svo komið að ekki þykir neitt athugavert við það að bankar kaupi og yfirtaki fyrirtæki, jafnvel í andstöðu við eigendur og stjórnendur. Bankar eru með þessum fjárfestingum orðnir gerendur sem móta stefnuna í atvinnulífinu en ekki aðeins þjónustufyrirtæki á sviði fjármálaþjónustu fyrir atvinnulífið. Algengt er að bankar séu með þessum hætti beint eða óbeint komnir í samkeppni við eigin viðskiptavini.
Sömu reglur ólík þróun
Íslensk löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög er mjög svipuð sambærilegum lögum í Danmörku. Sama er að segja um heimildir viðskiptabanka til að taka virkan þátt í óskyldum atvinnurekstri. Bæði hér og í Danmörku er slík þátttaka einskorðuð við að lánastofnanir verji hagsmuni sína vegna eldri útlána eða þá að um sé að ræða tímabundið eignarhald í samvinnu við aðila í umbreytingaverkefnum og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þó að reglurnar séu líkar er greinilegt að framkvæmdin er mjög ólík þar og hér. Því er vandséð hvaða nýjar reglur við þurfum umfram það sem tíðkast með öðrum þjóðum. Helst kæmi þó til greina að setja reglur um eignarhaldstíma lánastofnana á ráðandi hlutum í óskyldri starfsemi líkt og gert er með eigin bréf hlutafélaga umfram 10%. Einnig er rétt að skoða hvort vernda þarf betur hagsmuni minnihlutaeigenda en síðast en ekki síst hvort Fjármálaeftirlitið sinnir því lykilhlutverki sem því er ætlað í lögunum.
Skráðum félögum fækkar
Það kann vel að vera að hjá milljónaþjóðum sé látið óátalið að bankar í einkaeigu séu virkir fjárfestar í óskyldri atvinnustarfsemi. Lítill og viðkvæmur hlutabréfamarkaður okkar þolir þetta aftur á móti illa. Tölurnar tala sínu máli. Skráðum félögum fækkar og engin ný félög koma inn á markaðinn. Það er raunalegt að horfa upp á það að þessi leið upprennandi fyrirtækja til þess að afla sér áhættufjár, auðvelda kynslóðaskipti, bæta eigin rekstur og hleypa í hann nýju blóði, hefur skyndilega lokast. Í þessum harða heimi verður oft ekki bæði haldið og sleppt. Sá sem fer með eigið fyrirtæki á markað verður að vera við því búinn að geta ekki ráðið því hver kaupir og selur hlutabréfin. Það er hins vegar nýtt að geta búist við áhlaupi frá eigin viðskiptabanka.
Brothættur trúnaður
Milli lánastofnana og viðskiptavina þeirra verður að ríkja trúnaður. Sá trúnaður er brothættur þegar bankarnir fara hamförum á hlutabréfamarkaði. Vissulega má segja að almennir hluthafar geti notið góðs af verðhækkunum þegar fjársterkir aðilar takast á um eignarhald og völd í stærstu fyrirtækjum landsins en að sama skapi eru almennir hluthafar utangátta í slíkum átökum og óvíst hvort hagsmuna þeirra er tryggilega gætt.
Menn eru ekki á einu máli um það hver áhrifin af þessum miklu breytingum og sviptingum verða til lengdar en allir eru sammála um að hér er mikið í húfi; sjálf framtíð íslenska hlutabréfamarkaðarins.
Sveinn Hannesson