Agnúar á skattkerfinu
Undanfarin ár hafa stór skref verið stigin í þá átt að lagfæra íslenska skattkerfið og færa það í átt við það sem tíðkast meðal annarra Evrópuríkja. Margir telja að hér gæti óbeinna áhrifa EES-samningsins vegna þess að opinn markaður og frjálsir fjármagnsflutningar leiði til þess að ríki á EES-svæðinu séu í reynd í samkeppni hvert við annað. Það eru með öðrum orðum ekki einungis fyrirtækin í Evrópu sem keppa hvert við annað heldur er skattkerfið og opinber þjónusta einnig komin í samkeppni.
Segja má að í stórum dráttum séu einkum þrír skattar á Íslandi sem skera sig verulega úr í samanburði við skattkerfi nágrannaríkjanna.
Eignarskattur
Eignarskattur hefur verið hærri hér en í öðrum Evrópulöndum og á því sviði höfum við skorið okkur úr. Norðmenn, sem lengi voru í öðru sæti hvað þessa skattlagningu varðar, hafa ekki komist með tærnar þar sem við höfum haft hælana í þessum efnum. Eftir margra ára umfjöllun hefur nú að undanförnu verið stigið verulegt skref til lækkunar eignarskatts og er það vel. Vonandi hillir nú undir að við skerum okkur ekki miklu lengur úr að þessu leyti.
Stimpilgjöld
Stimpilgjöld eru annar skattur sem hefur verið samtökum atvinnurekenda þyrnir í auga um árabil. Þetta er skattheimta sem er ekki einasta úr takti við það sem tíðkast með öðrum þjóðum heldur er þessi einkennilegi skattur úr takti við ný lánsform og skjalalaus viðskipti á fjármálamarkaði. Rafræn skráning eignarhluta í félögum er gott dæmi um þetta. Það er sem sé að verða æ erfiðara fyrir skattheimtumenn að koma höndum yfir pappíra til þess að stimpla og rukka. Þessi einkennilega skattheimta mismunar lánsformum og lántakendum og truflar viðskipti og er öllum til óþurftar.
Vörugjöld og matarskattar
Þriðji skatturinn, sem er sýnu verstur þessara þriggja, er vörugjaldið. Segja má að skattheimta af þessu tagi þekkist um allan heim að einhverju marki og það, sem skattlagt er víðast hvar eru annars vegar bílar og eldsneyti en hins vegar áfengi og tóbak. Þetta eru þær munaðarvörur sem þjóðir heims virðast flestar sammála um að skattleggja sérstaklega. Undanfarin ár hefur þróunin hins vegar verið sú að draga almennt úr sértækri skattheimtu af þessu tagi á aðrar vörur en þær sem að framan eru taldar. Kemur þar hvort tveggja til að í skattheimtu af þessu tagi felst tiltekin neyslustýring og þar með mismunun milli vörutegunda og framleiðenda. Hins vegar er það svo að frjáls för fólks, framleiðslu og fjármagns leiðir til þess að skattlagning af þessu tagi er talin afar óheppileg.
Einkennilegar munaðarvörur
Á Íslandi hafa vörugjöld verið við lýði um áratugaskeið og lögðust lengi með fullum þunga á hvers konar byggingarefni á borð við steypu, þakjárn, gler og málningu. Þessari skattlagningu var aflétt fyrir nokkrum árum en vörugjöld eru þó enn lögð á lagnaefni, gólfefni og hreinlætistæki. Það er með öðrum orðum talin sérstök ástæða til að skattleggja munaðarvörur á borð við baðker, klósett og gólfdúka. Eftir því sem næst verður komist er Ísland einasta ríki OECD sem skattleggur byggingarefni með þessum hætti.
Tvöfaldur neysluskattur á matvæli
Í útgjöldum íslenskra heimila vega vörugjöld af matvælum þó langþyngst. Mikið hafa menn velt því fyrir sér hvers vegna matvælaverð hér á landi sé svo miklu hærra en í nágrannalöndunum en afar sjaldan er rætt um vörugjöld í því sambandi. Lausleg athugun, byggð á neyslukönnun Hagstofunnar frá árinu 1995 sýnir að 17,4% af útgjöldum vísitölufjölskyldunnar fóru til kaupa á matvælum. Þar af eru vöruflokkar sem bera vörugjöld um 6,1% eða um 35%. Þar með er því miður ekki öll sagan sögð. Þegar matarskatturinn svokallaði (14% virðisaukaskattþrep) var tekinn upp, var illu heilli ákveðið, að sælgæti, sykur, kakó og flestar drykkjarvörur skyldu áfram bera 24,5% virðisaukaskatt sem að sjálfsögðu reiknast ofan á verð vörunnar með vörugjaldi. Út úr þessari skiptingu í æðri og óæðri matvæli verða auðvitað til alls konar einkennilegar afleiðingar eins og til dæmis sú staðreynd að íslenskt vatn án sykurs, sem sett er á flösku, er skattlagt með 8 kr. vörugjaldi á lítra og síðan með 24,5% virðisaukaskatti. Sykruð mjólk á sams konar flösku ber ekki vörugjald og lendir í 14% virðisaukaskatti.
Mishár virðisaukaskattur á matvæli þekkist ekki utan Íslands
Nú er til umræðu að lækka virðisaukaskatt af matvælum. Fyrsta skrefið í þeirri breytingu ætti að vera að feta í fótspor Svía sem lagt hafa af sérstaka vörugjaldtöku á óáfenga drykki og sætindi. Svíar og aðrar Norðurlandaþjóðir skattleggja einnig allt sem ætt er í einu og sama virðisaukaskattþrepi. Það er einföld og framkvæmanleg regla. Það er gersamleg úr takt við tímann að skattyfirvöld á Íslandi stjórni því með skattlagningu hvað landsmenn borða. Hvers vegna á að skattleggja pilsner eða kolsýrt vatn sérstaklega umfram kaffi og mjólk. Af hverju er vörugjald og hærri virðisaukaskattur á súkkulaði en ekkert vörugjald og lægri virðisaukaskattur á feitu kjöti. Er ekki mál að slíkri forræðishyggju linni á nýrri öld?
Sveinn Hannesson