Menntun til vaxtar

Leiðari Íslensks iðnaðar í febrúar 2010

17. feb. 2010

  • Jón Steindór Valdimarsson

Á menntadegi iðnaðarins var kastljósinu beint að samhengi menntunar og vaxtar. Tengslin þarna er brýnt að ræða og setja í samhengi við verkefnin sem blasa við og ekki verður með neinu móti vikist undan. Athyglinni hefur verið beint að því að á næstu tíu árum þurfi að skapa um 35.000 manns atvinnu og bent á að stærsti hlutinn verður að hasla sér völl í þeim greinum sem líklegastar eru til þess að vaxa á næstu árum og geta tekið við öllum þessum fjölda. Það blasir við að gjaldeyrisskapandi iðnaður og þjónusta í víðum skilningi orðanna eru þær greinar sem verða að bera hitann og þungan af vextinum.

Á menntadegi iðnaðarins var kastljósinu beint að samhengi menntunar og vaxtar. Tengslin þarna er brýnt að ræða og setja í samhengi við verkefnin sem blasa við og ekki verður með neinu móti vikist undan. Athyglinni hefur verið beint að því að á næstu tíu árum þurfi að skapa um 35.000 manns atvinnu og bent á að stærsti hlutinn verður að hasla sér völl í þeim greinum sem líklegastar eru til þess að vaxa á næstu árum og geta tekið við öllum þessum fjölda. Það blasir við að gjaldeyrisskapandi iðnaður og þjónusta í víðum skilningi orðanna eru þær greinar sem verða að bera hitann og þungan af vextinum.

Ekki er allt sem sýnist

Íslendingar eru jafnan stoltir af því að vera vel menntuð þjóð og rík af mannauði. Þegar skyggnst er um bak við þau tjöld kemur hins vegar í ljós að þar er ekki allt sem sýnist. Fjöldi þeirra sem einungis hefur lokið grunnskólaprófi er óvenju hár á Íslandi í samanburði við önnur vestræn ríki. Þá eru háskólamenntaðir sömuleiðis færri. Þrátt fyrir þetta sýnir samanburður að Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða sem verja hvað mestu til menntamála. Þá er líka vert að varpa fram þeirri spurningu hvort menntakerfið skili okkur samfélagslegum ávinningi í samræmi við útgjöldin, m.a. hvort hún hafi orðið grundvöllur starfsemi sem skapar arðbær störf og þjóðfélaginu mikilvægra tekna. Svarið er auðvitað ekki einhlítt en þó má örugglega fullyrða að við getum gert betur. Útflutningur okkar, a.m.k. vöruútflutningur, hefur verið afar einhæfur lengst af. Hin síðari ár hefur þó heldur ræst úr.

Þvinguð staða

Ekki þarf að fjölyrða um efnahagserfiðleika okkar og nauðsynlegan samdrátt í útgjöldum hins opinbera. Samtímis þurfum við að róa að því öllum árum að auka tekjur þjóðarinnar og styrkja og gera tekjugrunninn fjölbreyttari. Brýnt er að nýta tækifærið sem við höfum við þessar aðstæður til þess að endurskoða áherslur í menntamálum. Við eigum engan annan kost en að forgangsraða á öllum stigum menntunar og beina athyglinni að greinum sem eru líklegri til að skila árangri og örva vöxtinn.

Þó staðan sé þröng í ljósi takmarkaðra fjármuna þarf hvorki að þvinga nemendur né skóla til þess að breyta áherslum í námsvali og kennslu. Þess í stað á að hvetja og örva með kynningu, ímyndarvinnu og fjárhagslegum hvötum.

Kassarnir

Flestir eru helst til kassalaga í hugsun sinni. Líður best þegar þeir vita hvaða hólfi þeir tilheyra. Þetta gildir ekki síst um nám og störf fólks. Við lærum eitthvað til þess að VERÐA eitthvað og síðan ERUM við það. Það er minna um að horft sé til þess að læra til að GETA leyst verkefni eða öðlast HÆFNI til að geta tekist á við fjölbreytt verkefni og leyst þau. Menntunin fellur í þessi hólf. Fyrst er það verklegt og bóklegt, svo háskólamenntun og önnur skólastig, raunvísindi og hugvísindi. Þegar út á vinnumarkaðinn kemur er oft meira horft til þess sem menn ERU en til þess sem menn GETA. Þar stendur hver vörð um kassann sinn og er óhæfa ef einhverjir vilja úr einum kassa í annan eða vilja horfa fram hjá kassaskipulaginu.

Er ekki rétt að fækka kössunum aðeins. Er ekki rétt að hafa fleiri liti í penslinum?