Aðhald í opinberum fjármálum til að viðhalda stöðugleika
Leiðari Íslensks iðnaðar, júní 2003
Vilji íslensk stjórnvöld ekki skaða útflutnings- og samkeppnisgreinarnar þarf stjórn opinberra fjármála að vega þyngra og vera markvissari í hagstjórninni en að undanförnu. Eins og myndin sýnir hafa opinber fjármál orðið til þess að auka sveiflur í efnahagslífinu. Þensla var greinileg í opinberum fjármálum árin 2000 og 2001 þegar Seðlabankinn barðist við að halda verðbólgu í skefjum með því að hækka vexti yfir 11 prósent. Árin 1994 og 1999 eru dæmi um betri stýringu opinberra fjármála. Tryggja þarf slíka hagstjórn á komandi árum.
Verði aðhald í opinberum fjármálum ekki nægilegt mun Seðlabankinn þurfa að glíma einn við efnahagsstjórnina á framkvæmdatímanum með því að hækka vexti meira en ella. Þá er viðbúið að gengið haldist of hátt og að samdrátturinn verði mikill í greinunum sem afla okkur gjaldeyris og keppa við innflutning. Það yrði óheillaþróun fyrir þjóðarbúið að skaða útflutnings- og samkeppnisgreinarnar sem vinna á móti viðskiptahalla og uppsöfnun erlendra skulda. Um leið er hætt við að margra ára uppbyggingarstarf fari í súginn ef slík fyrirtæki hætta rekstri eða færa framleiðsluna úr landi.
Opinber fjármál þurfa að sporna við þenslu, m.a. með því að draga úr útgjöldum á framkvæmdatímanum, til að veita Seðlabankanum svigrúm til að halda vöxtum eins lágum og kostur er. Að framkvæmdunum loknum er búist við samdrætti og þá getur hið opinbera aukið útgjöldin að nýju. Íslenska hagkerfið er lítið í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og því mjög mikilvægt að hagstjórnarviðbrögð séu rétt til að viðhalda stöðugleika. Hátt gengi krónunnar og erfið samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er brýnt vandamál sem bregðast þarf við með markvissari stýringu opinberra fjáramála í efnahagstjórninni. Ef meira jafnvægi næst ekki í efnahagsstjórninni ógnar það stöðugleikanum á komandi árum. Þá er hætt við að erlendar skuldir aukist og að krónan taki aðra kollsteypu í lok framkvæmdanna – ef ekki fyrr.
Þorsteinn Þorgeirsson