Á að samræma reglur um innkaup sveitarfélaga?

Leiðari Íslensks iðnaðar, maí 2003

1. maí 2003

  • Sveinn Hannesson

Aflvaki hf. hélt nýlega fund þar sem rætt var um innkaupamál og kynntar voru nýjar innkaupareglur Reykjavíkurborgar. Það er tvímælalaust til mikilla bóta að borgin hefur nú sett sér innkaupareglur sem á flestan hátt eru í samræmi við reglur ríkisins á þessu sviði. Brýna nauðsyn ber til að setja sams konar reglur um innkaup annarra sveitarfélaga.

Óbein áhrif EES-samningsins
Upphaf þessarar þróunar má þó rekja 10 ár aftur í tímann en þá voru EES-reglur um opinber innkaup (með lögum nr.55/1993) felldar inn í eldri lög um sama efni frá árinu 1987(52/1987). Þessar EES-viðmiðanir eru að vísu svo háar að þær taka einungis til stærstu útboða á vegum opinberra aðila á sviði verklegra framkvæmda. Erlendir aðilar buðu hvort sem er í flest þessi verkefni og innkaup, þannig að þessar reglur höfðu í raun ekki nein úrslitaáhrif á samkeppnina við innlenda verktaka og framleiðendur. Hitt skiptir miklu meira máli að með þessu komu inn í íslensk lög tilteknar leikreglur um framkvæmd útboða sem allir sáu að áttu eins vel heima í smærri útboðum.

Af hverju ekki sveitarfélögin?
Miklar umbætur hafa orðið á útboðsreglum ríkisins, fyrirtækja og stofnana þess, nú síðast með lögum 94/2001. Því miður hafa þessar eða sambærilegar reglur ekki verið teknar upp af hálfu sveitarfélaga og fyrirtækja og stofnana á þeirra vegum. Erfitt er að fullyrða um hver skýringin er á þessu. Líklegast er þó að afskipti stjórnmálamanna og nálægð þeirra við eigin heimamarkað valdi hér miklu. Menn eru almennt sannfærðir um að þeir standi sig vel í innkaupamálum og sjá ekki að þörf sé fyrir nýjar og hertar reglur. Þá er áberandi andstaða við að taka upp reglur frá ríkinu án þess að sveitarfélögin hafi átt beinan þátt í að móta þær.

Um þetta verður þó ekkert fullyrt en svo mikið er víst að tillögur Samtaka iðnaðarins um að lög um opinber innkaup nái til sveitarfélaga og fyrirtækja á þeirra vegum hafa til þessa ekki fengið hljómgrunn. Þó bendir nú flest til þess að skilningur á þessari kröfu okkar sé vaxandi og nýjar innkaupareglur borgarinnar benda einmitt til þess.

Rökin fyrir samræmdum reglum
Hvers vegna þurfa þessar reglur að ná til sveitarfélaganna?

  1. Verktakar og seljendur vöru bjóða jöfnum höndum ríki og sveitarfélögum vöru og þjónustu. Það er augljóst óhagræði að því að margvíslegar reglur gildi á þessu sviði, mismunandi eftir því hvort boðið er út á vegum ríkis, borgar eða nágrannasveitarfélags. Suðvesturhornið frá Akranesi til Selfoss er í reynd eitt atvinnusvæði og því afar óheppilegt að reglur um innkaup sveitarfélaga, a.m.k. á þessu svæði séu ekki samræmdar.
  2. Opinber innkaup eru sérstakt fag og það er óhagkvæmt að alls konar aðilar á borð við byggingarnefndir og sveitarstjórnarmenn fáist við þessi verkefni án þess að hafa til þess þekkingu. Þó tekur fyrst steininn úr þegar þessir aðilar búa til eigin leikreglur um framkvæmd útboða, oftar en ekki eftir að búið er að opna tilboð.
  3. Samræmdar reglur á þessu sviði skapa forsendur fyrir aukna samvinnu milli sveitarfélaga. Vandséð er hvers vegna sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geta ekki staðið sameiginlega að rekstri innkaupastofnunar rétt eins og strætisvagna- og slökkviliðsþjónustu. Til þess þarf hins vegar að samræma reglur, byggja upp faglega þekkingu og minnka bein pólitísk afskipti.

Dæmi um það hvernig ekki á að vinna
Á umræddum fundi voru rakin nokkur dæmi um gagnrýnisverð vinnubrögð sveitarfélaga um stór verk og innkaup sem ekki hafa verið boðin út eða einkennilega staðið að verki í krafti þess að engar opinberar reglur hafa gilt um útboð sveitarfélaga undir svokölluðum EES-viðmiðunarmörkum. Hér skal einungis tekið eitt dæmi.

Í Reykjanesbæ var nýverið samið án útboðs við nokkur verktakafyrirtæki, allt heimamenn, um endurnýjun Hafnargötu. Þetta verk er sennilega rétt undir EES-viðmiðunarmörkum (tæpar 400 millj.kr.), en við vitum það ekki fyrir víst því að Reykjanesbær hefur ekki séð ástæðu til að svara fyrirspurnum okkar um málið. Athygli vekur að a.m.k. tvö af þessum verktakafyrirtækjum eru að vinna við endurgerð Bankastrætis fyrir Reykjavíkurborg. Verk sem þau fengu í kjölfar útboðs. Er ásættanlegt að Reykjavíkurborg bjóði út sínar framkvæmdir í opnum útboðum en verktakar með heimilisfang í borginni séu útilokaðir frá því að bjóða í verk hjá öðrum sveitarfélögum?

Mikilvægur málaflokkur
Útboðs- og innkaupamál eru afar mikilvægur málaflokkur hjá Samtökum iðnaðarins. Skýrar og samræmdar reglur gegna þar lykilhlutverki. Opinberir aðilar eiga í senn að vera kröfuharðir og sanngjarnir kaupendur vöru og þjónustu. Þeir eiga að gera kröfur um hagkvæmni og gæði. Á móti eiga seljendur kröfu á reglufestu, gegnsæi og jafnræði af hálfu opinberra aðila. Til langs tíma litið fara hagsmunir kaupenda og bjóðenda saman og því er brýnt að allir sitji við sama borð. Við hjá Samtökum iðnaðarins hvetjum sveitarstjórnarmenn eindregið til að kynna sér innkaupareglur Reykjavíkurborgar og ríkisins og gera að sínum. Öll rök hníga að því að sú niðurstaða sé skynsamleg.

Sveinn Hannesson