Með gamla laginu
Leiðari Íslensks iðnaðar, mars og apríl 2003
Það er alveg eftir bókinni að bregðast við samdrætti og auknu atvinnuleysi með því að auka opinber útgjöld og flýta verklegum framkvæmdum. Það veldur hins vegar vonbrigðum hversu einhæfar og illa undirbúnar þessar aðgerðir eru.
Óhannaðar framkvæmdir
Það kemur sem sé í ljós að þeir sem standa eiga fyrir þessum auknu framkvæmdum vita vart hvaðan á þá stendur veðrið. Mörg þessara verkefna eru ýmist óhönnuð eða á byrjunarstigi. Til að byrja með eru þessar aðgerðir aðallega atvinnuskapandi á verkfræðistofum. Það er í sjálfu sér ekkert að því að verkfræðingar og arkitektar hafi nóg að gera. Hitt er verra að hætt er við að þessi verk dragist á langinn og lendi ofan í þau stórverkefni sem framundan eru og þjóðin bíður eftir með glímuskjálfta.
Verklegar framkvæmdir ýmist í ökkla eða eyra
Jarðvinnu- og byggingaverktakar eru í þeirri erfiðu stöðu að vera sífellt miðpunktur efnahagsaðgerða. Þegar draga þarf úr útgjöldum er byrjað á að fresta framkvæmdum og skera niður framlög til vegagerðar. Þegar hins vegar þarf að sporna við atvinnuleysi eða þegar til stendur að kjósa, nema hvort tveggja sé, er aukið fé til vegagerðar og verklegar framkvæmdir auknar á öllum sviðum. Margir verktakar hafa af því áhyggjur að í þessu útkalli stjórnvalda muni margur sótraftur verða á sjó dreginn sem lítill fengur verði að fá í hóp íslenskra bygginga- og jarðvinnuverktaka. Sumum þykir gott að njóta athyglinnar en það hefur ekki orðið íslenskum verktökum til góðs að vera miðpunktur efnahagsaðgerða. Um það vitnar mikill fjöldi smáfyrirtækja í þessum greinum, léleg fjárhagsstaða þeirra og tíð gjaldþrot.
Samstaða um stefnu
Aðrar þjóðir horfa til Finna og Íra með aðdáun fyrir það hvernig þeim hefur, á örfáum árum, tekist að rífa sig upp í efnahagslegu tilliti. Þessar þjóðir hafa lagt höfuðáherslu á að efla verk- og tæknimenntun, vísinda- og þróunarstarf. Fordæmi þessara þjóða er ekki síður athyglisvert fyrir það að um þessa stefnu virðist mikil samstaða meðal ólíkra stjórnmálaflokka, atvinnugreina og raunar þjóðarsátt í þessum ríkjum. Á Íslandi fer ekki fram nein umræða, hvorki á Alþingi eða milli stjórnvalda og atvinnulífs, um hvernig best sé að bregðast við samdrætti og vaxandi atvinnuleysi. Hefði t.d. ekki verið ómaksins vert að ræða það að ráðstafa hluta af andvirði ríkisbankanna til þess að efla Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins eða nýja Tækniþróunarsjóðinn?
Áhyggjur af ósamstilltri efnahagsstjórn
Í ályktun Iðnþings um miðjan síðasta mánuð er lýst miklum áhyggjum af því hversu hætt sé við að stjórn efnahagsmála fari úr böndunum á næstu árum í stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar sem framundan eru. Þar er talað um að samstillt átak þurfi til þess að þjóðin komist klakklaust í gegnum þá umbrotatíma sem framundan eru. Í ályktuninni segir „að á sama tíma og opinberir aðilar boða stóraukin framlög til framkvæmda og flýta öðrum sem mest má verða, heldur Seðlabankinn uppi stífu aðhaldi með háum vöxtum. Það vantar greinilega samstillingu í efnahagsstjórnina.“
Kalla skattalækkanir á vaxtahækkanir?
Síðan Iðnþing var haldið hefur það svo gerst að stjórnmálaflokkarnir hafa farið hamförum og keppast við að lofa skattalækkunum ef þeir fá til þess stuðning í komandi kosningum. Viðbrögð hagfæðinga við þessum tillögum eru flest á þá lund að skattalækkanir við þessar aðstæður séu stórhættulegar og geti ekki leitt til annars en vaxtahækkana. Það eru á hinn bóginn heldur dapurleg skilaboð fyrir forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja sem búið hafa við tvöfalda og stundum þrefalda vexti miðað við keppinauta í nágrannalöndum í nærri heilan áratug. Hvernig er það annars með okkar ágætu stjórnmálamenn. Hafa þeir engar áhyggjur af því hvernig við ætlum að haga hagstjórninni næstu fjögur ár? Um það er ekkert rætt og svo sem heldur ekkert spurt í fjölmiðlum.
Sama gamla tuggan
Dæmigert fyrir umræðuna á vettvangi fjölmiðla er að Ríkissjónvarpið fer af stað með sína hefðbundnu þáttagerð um íslenskt atvinnulíf. Þessir þættir eru nákvæmlega eins og þættirnir fyrir fjórum árum enda sama fólk sem þá gerir. Rætt er um kvóta í landbúnaði og kvóta í sjávarútvegi. Ekkert er rætt um nútíma atvinnulíf eða hvernig við ætlum að efla hér sjálfbæran hagvöxt til framtíðar. Ekkert er rætt um upplýsingatækni, uppbyggingu í iðnaði og þjónustu. Þegar kemur að því að fjalla um mestu framkvæmdir Íslandssögunnar er hvorki rætt við hagfræðinga né forsvarsmenn verktaka- eða byggingafyrirtækja heldur bónda sem stendur í jötunni og er að gefa kúnum. Sem sagt allt með gamla laginu.
Sveinn Hannesson