Hver á að leiðrétta gengi krónunnar?

1. feb. 2003

  • Sveinn Hannesson

Fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar að flýta og auka verulega opinberar framkvæmdir á næstu 18 mánuðum hefur verið vel tekið. Aðstæður eru nánast eins og skólabókardæmi um það hvenær og hvernig eigi að grípa inn í með aðgerðir af þessu tagi. Annars vegar er tilefnið almennur samdráttur í atvinnulífinu og aukið atvinnuleysi. Hins vegar eru fyrirsjáanlegar stórframkvæmdir á næstu árum, þannig að skynsamlegt virðist að flýta opinberum framkvæmdum nú en draga úr þeim þegar mestu umsvifin verða vegna stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi á árunum 2005 og 2006. Óvíða hefur verið meiri verkefnaskortur en einmitt í jarðvinnu og mannvirkjagerð að undanförnu.

Undirbúningur framkvæmda
Erfitt er að meta hversu hratt er hægt að bregðast við og hrinda fyrirhuguðum verkum í framkvæmd. Tímafrek og kostnaðarsöm vinna við umhverfismat getur auðveldlega raskað þessum áformum. Undanfarin ár hefur framkvæmdatími stöðugt verið að styttast enda er það í takt við stífari arðsemiskröfur og háan fjármagnskostnað. Því miður virðist fyrirhyggja við undirbúning framkvæmda ekki taka mið af þessari þróun. Allt of oft er gengið á verktíma vegna þess að hönnun og gerð útboðsgagna dregst á langinn eða ekki er ætlaður nægur tími til undirbúnings. Verst er þó þegar farið er af stað með framkvæmdir án þess að hönnun sé lokið. Kostnaður fer úr böndum, verkið verður lakara og allir skaðast, sem að því koma.

Nú reynir á verkkaupa
Á næstu mánuðum þurfa menn að taka rösklega til hendinni ef þessi aðgerð á að koma að þeim notum sem til er ætlast. Það mun verulega reyna á þá opinberu aðila sem ætlað er að standa fyrir stórauknum framkvæmdum og þó sérstaklega Vegagerðina sem fær stærsta hlutverkið í þessum efnum.

Seðlabankinn á öðru róli
Athygli vekur að daginn áður en ríkisstjórnin skýrði frá ofangreindum aðgerðum tilkynnti Seðlabankinn um 0,5% lækkun stýrivaxta sem þá eru orðnir 5,3%. Enn eru þeir þó miklu hærri en í nágrannalöndunum. Þessi tilkynning olli vonbrigðum því að atvinnulífið hefur kallað eftir meiri vaxtalækkun og samkeppnisgreinarnar telja að gengi íslensku krónunnar sé orðið hærra en svo að það fái staðist til lengdar.

Undanfarið ár hefur verðbólgan minnkað hraðar en búist var við og Seðlabankinn lækkaði jafnframt vexti hægar og minna en tilefni var til. Það er hárrétt sem forsætisráðherra sagði um þessi mál á Viðskiptaþingi 12. þ.m.: „Menn horfa til vaxtaákvarðana og verðbólgu í sama vetfangi, en manni virðist þó stundum að vextir séu ekki alltaf ákveðnir til þess að hafa áhrif á verðbólguna, heldur sendir til þess að elta hana. Þannig á ekki að nota vexti. Vaxtaákvarðanir verða að vita að framtíðinni vegna þess hve hægt vaxtabreytingar virka sem efnahagstæki.“

Tvíátta hagstjórn
Seðlabankinn, sem elti verðbólguna upp á við árin 1999-2000, hefur verið að tregðast við að elta hana niður á við allar götur frá mars 2001. Enn er aðhald í peningamálum mikið en á sama tíma blæs ríkisstjórnin til sóknar með auknum verklegum framkvæmdum. Efnahagsstjórnin er, eins og svo oft áður, tvíátta eins og veðurfræðingarnir kalla það. Það er afleit staða en það versta er að hátt raunvaxtastig og raungengi dregur kraftinn úr útflutnings- og samkeppnisgreinunum á sama tíma. Þetta eru þær greinar sem eiga að vera drifkrafturinn í hagkerfinu. Það verður einkennilegt aksturslag ef bremsað er á framhjólunum en gefið í á afturhjólunum.

Atvinnulífið taki frumkvæðið
Hvaða viðbrögð getur atvinnulífið haft? Svarið má lesa úr áðurnefndri ræðu forsætisráðherra: „Nú er hins vegar svo komið að menn verða að horfa fremur í eigin barm en til ríkisvaldsins, því forráðamenn fyrirtækja, að minnsta kosti samanlagðir, hafa mun meiri áhrif í þessum efnum (til að tryggja að gengið sé rétt skráð), en sjálft ríkið og við eigum endilega að líta á þá breytingu sem öruggt merki framfara, en ekki sem afturför.“

Skilaboðin eru skýr: Seðlabankinn skilur ekki vandann. Telji forráðamenn fyrirtækjanna að gengi krónunnar sé orðið hærra en þeir geta lifað við eiga þeir með samstilltu átaki að stuðla að leiðréttingu þannig að lífvænlegt jafnvægi gengis náist sem fyrst. Það er atvinnulífið sem á að taka frumkvæðið í þessum efnum.

Sveinn Hannesson