Mennt verður að mætti

Leiðari Íslensks iðnaðar í mars 2010

26. mar. 2010

  • Jón Steindór Valdimarsson
Umrót liðinna missera hefur sett margt úr skorðum. Á mörgum sviðum er ekki hægt að halda áfram með gamla laginu. Menntakerfið verður ekki rekið með sama hætti og áður. Það verður að horfast í augu við það. Það blasir við að iðn-, verk- og tækninám á undir högg að sækja á framhaldsskólastigi. Það er sett skör lægra en bóknámið þrátt fyrir áratuga tal um annað. Þetta viðhorf fer gegn staðreyndum um þörf samfélagsins fyrir menntun af þessu tagi á næstu árum og áratugum.

Umrót liðinna missera hefur sett margt úr skorðum. Á mörgum sviðum er ekki hægt að halda áfram með gamla laginu. Menntakerfið verður ekki rekið með sama hætti og áður. Það verður að horfast í augu við það.

Í eðli okkar flestra er tregða til þess að gera breytingar. Þess vegna er oftar en ekki erfitt að hugsa hluti upp á nýtt og skipa málum með öðrum hætti en tíðkast hefur. Um þetta eru mýmörg dæmi og virðist oft gilda einu þótt almenn skynsemi eða breytingar á aðstæðum gera nýja skipan óumflýjanlega. Sem betur fer er þó fjarri lagi að þetta sé algild regla - ella yrði engin framþróun eða nýsköpun.

Þörfin blasir við

Það blasir við að iðn-, verk- og tækninám á undir högg að sækja á framhaldsskólastigi. Það er sett skör lægra en bóknámið þrátt fyrir áratuga tal um annað. Þetta viðhorf fer gegn staðreyndum um þörf samfélagsins fyrir menntun af þessu tagi á næstu árum og áratugum. Á nýliðnu Iðnþingi var grunntónninn umfjöllun um uppbyggingu atvinnulífsins á næstu 10 árum, atvinnulífs sem þarf að taka við 35.000 vinnufúsum körlum og konum. Þar blasir við að framleiðslufyrirtæki munu skipta verulegu máli. Reynsla síðustu ára sýnir líka glöggt að fyrirtækin, sem framleiða vöru sem byggir í ríkum mæli á verk- og tæknikunnáttu, eru burðarásar þegar á reynir. Vöxt og viðgang þeirra fyrirtækja sem fyrir eru og þeirra sem byggja þarf upp á komandi árum verður að tryggja með aðgangi að fólki með menntun við hæfi.

Dýrara en nauðsynlegt

Það kreppir að í ríkisfjármálum og mun gera á næstu árum. Úr minna fé er að spila en áður og þar er rekstur skólakerfisins ekki undanskilinn. Skera þarf niður rekstrarkostnað, undan því verður ekki vikist. Yfirvöld menntamála grípa til þess ráðs að beita flötum niðurskurði og senda verkefnið til skólanna, bæði framhaldsskóla og háskóla. Stjórnendum skólanna er vandi á höndum því stærstu rekstrarliðir eru laun kennara og húsnæðiskostnaður, jafnvel um eða yfir 80%. Ríkið skammtar fé eftir reiknilíkani sem á að taka tillit til allra kostnaðarþátta en sker greiðslur flatt niður.

Eðli máls samkvæmt er iðn-, verk- og tækninám dýrara en bóknám vegna efnis­kostnaðar, kennslubúnaðar og að kenna þarf í smærri hópum. Þetta nám er því viðkvæmara fyrir niðurskurði en bóknám.

Forgangsröðum rétt

Það á að forgangsraða. Látum ekki niðurskurðinn bitna á verk- og tækninámi, námi sem flýtir fyrir nauðsynlegri atvinnuuppbyggingu. Eðlilegt væri að búa betur að skólum sem sinna kennslu á þessu sviði. Væri ekki rétt að skera minna niður þar en annars staðar og hvetja nemendur til þess að sækja iðn-, verk- og tækninám frekar en hefðbundið bóknám með tiltækum aðferðum en án þvingunar? Af hverju er það t.d. talið eðlilegt að verknámsnemi borgi meira fyrir sitt nám en bóknámsneminn?

Það er brýn nauðsyn að ræða þessi mál af hreinskilni og gera það sem gera þarf í stað þess að tipla í kringum málið eins og köttur um heitan graut. Það höfum við gert alltof lengi - og auðvitað án nauðsynlegs árangurs.