Áramótahugleiðing Vilmundar Jósefssonar formanns Samtaka iðnaðarins

Leiðari Íslensks iðnaðar, janúar 2003

1. jan. 2003

  • Vilmundur Jósefsson formaður SI
Þegar horft er til baka yfir liðið ár kemur helst upp í hugann að árið hafi verið iðnaðinum heldur erfitt og einkennst af stöðnun og jafnvel nokkrum samdrætti eftir gengissveiflur og verðbólguskot áranna 2000-2001. Á heildina litið er þessi afturkippur í iðnaðinum þó óverulegur miðað við þá svartsýni sem ríkti á haustmánuðum 2001. Að þessu sinni virðist hagsveiflan sem sé ekki ætla að enda með brotlendingu eins og svo oft áður heldur vonandi mjúkri lendingu.

Er þensluhætta yfirvofandi?
Raunar er of snemmt að spá fyrir um það hvort botninum í niðursveiflunni sé náð a.m.k. meðan atvinnuleysi fer enn vaxandi. Enginn vafi leikur á því að framkvæmdir við virkjanir og stóriðju koma nú á besta tíma inn í hagkerfið þar sem verulegur slaki er að myndast, ekki síst í fyrirtækjum í mannvirkjagerð. Full ástæða er til að endurmeta áhrif fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Austurlandi því að margt bendir til þess að innlendur virðisauki sé ekki slíkur að þensluhætta sé yfirvofandi í bráð og fráleitt er að halda uppi vöxtum eins og nú er gert með þeim rökum.

Hætta slökkvistarfi þegar eldurinn er kulnaður
Samtök iðnaðarins vöruðu á sínum tíma við þensluhættu á árunum 1998-1999. Nú eru flestir sammála um að aðhald í peningamálum og fjármálum opinberra aðila hafi verið allt of lítið á þeim tíma. Vaxtahækkanir Seðlabankans komu of seint eftir að hagkerfið hafði ofhitnað illilega. Þar að auki dugðu vaxtahækkanirnar skammt til að slá á þensluna meðan genginu var haldið föstu. Nú hefur hins vegar slegið í bakseglin en Seðlabankinn hefur verið og er enn að berja niður þenslu í hagkerfinu þegar þensluhættan er liðin hjá og ný hætta blasir við, sem sé sú að gengishækkun krónunnar getur rústað afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina og atvinnuleysi farið úr böndum.

Nagandi óvissa
Stjórnendur Seðlabankans eru sannarlega ekki öfundsverðir af því hlutverki að reyna að halda verðlagi stöðugu með örsmárri og sveiflukenndri mynt okkar. Það verkefni virðist óvinnandi. Á sama tíma kvarta forráðamenn iðnfyrirtækja sáran undan viðvarandi óvissu. Þeir vita ekki hvað þeir fá að lokum fyrir þær vörur sem seldar eru úr landi. Þeir vita ekki hver næsta afborgun af lánunum verður þegar búið er að umreikna hana í íslenskar krónur. Þeir vita ekki hvað næsta sending af hráefni kostar. Þeir vita ekki hvað vélin, sem þeir voru að panta, mun kosta þegar hún kemur.

Heimatilbúinn vandi
Þessir eigendur og forráðamenn fyrirtækja eiga erfitt með að skilja hvernig það má vera að það henti okkur Íslendingum einum þjóða að búa við sífellda óvissu og sveiflur í þessu efni. Þeir skilja ekki hvers vegna það er nauðsynlegt og jafnvel gott fyrir okkur að búa ár eftir ár við helmingi hærri vexti en keppinautarnir. Þeir eru fáir í þessum hópi sem trúa því að það sé gott fyrir okkur að hafa litla og sveiflukennda mynt vegna þess að gengi krónunnar aðlagast svo fljótt efnahagssveiflum eins og það er orðað. Menn hafa nefnilega tekið eftir því að síðasta uppsveifla kom ekki úr hafinu í formi aukins afla eða hækkandi verðs á sjávarafurðum. Niðursveiflan kom heldur ekki til vegna verðfalls eða aflabrests. Sveiflan var heimatilbúin og átti sér einkum rætur í hinni veiku mynt okkar.

Keppinautarnir lausir við gengisáhættu
Sveiflur í gengi íslensku krónunnar hafa verið miklar undanfarin ár og mun meiri en gengur og gerist um flesta aðra gjaldmiðla. Hitt skiptir þó meira máli að á stærra myntsvæði verða áhrif slíkra gengissveiflna allt önnur og minni. Bandarísk fyrirtæki kaupa, selja og taka lán í eigin gjaldmiðli og sama gildir um evrópsk fyrirtæki. Þau eru að mestu laus við gengisáhættu og kostnað vegna gjaldeyrisviðskipta. Er nokkur furða þótt forráðamenn íslenskra fyrirtækja horfi öfundaraugum til nágranna sinna og keppinauta í þessum efnum.

Norðmenn í sömu sporum
Þessa dagana sjáum við mikla sveiflu í viðhorfi Norðmanna til evru og ESB aðildar. Ein meginástæðan er sú að norska krónan er nú mjög sterk vegna hárra vaxta og innstreymis erlends gjaldeyris. Norskur iðnaður er að flýja úr landi. Við stóðum í svipuðum sporum árið 1999 og nú stefnir enn í sama far með hækkandi raungengi krónunnar. Hríðversnandi rekstrarskilyrði samkeppnisgreina munu á nýju ári enn þjarma að íslenskum fyrirtækjum. Viðbrögðin verða háværar spurningar til stjórnvalda um það hversu lengi íslenskt atvinnulíf þarf að bera þann kross hárra vaxta og óstöðugleika sem alla tíð hefur fylgt og fylgir enn íslensku krónunni.

Vilmundur Jósefsson