Hrollvekjandi sýn

Leiðari Íslensks iðnaðar í apríl 2010

26. apr. 2010

  • Bjarni Már Gylfason
Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans sagði seðlabankastjóri að það væri „tál­sýn að halda að umtalsverður við­snún­ingur yrði í fjárfestingum væru vext­ir lækkaðir verulega“.
Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans sagði seðlabankastjóri að það væri „tál­sýn að halda að umtalsverður við­snún­ingur yrði í fjárfestingum væru vext­ir lækkaðir verulega“. Hér er ný kenning á ferðinni sem er í algerri mótsögn við viðteknar hagfræðikenningar. Þessi kenning gengur ennfremur þvert á hug­myndafræði Seðlabanka Íslands og pen­ingastefnuna sem núverandi stjórnendur bankans lögðu grunn að. Kenningin er auk þess í mótsögn við starfshætti allra seðlabanka í heiminum.

Vissulega er rétt að erlent lánsfé vant­ar á viðráðanlegum kjörum til að koma stórframkvæmdum í gang en mörg önnur verkefni og tækifæri liggja í fyrir­tækjum landsins. Bankarnir eru fullir af fé sem nýtast hvorki til nýfjárfestinga, viðhalds eða nýsköpunar m.a. vegna þess að vextir eru svo háir. Ef horft er aftur í tímann má glögglega sjá að sterkt samhengi er á milli vaxtakjara og fjár­festinga. Lækkun vaxta og fjármagns­kostnaðar eykur fjárfestingu og kemur hreyfingu á fjármagnið. Í sögulegu sam­hengi og ljósi hagrænna lögmála gengur þessi kenning því ekki upp.

Algjör mótsögn

Í ræðu seðlabankastjóra kom einnig fram að skortur á erlendu lánsfé hamli fjárfestingu hér á landi. Á sama tíma segir hann að nauðsynlegt sé að skuld­breyta erlendum skuldum í innlenda mynt til að minnka vægi erlendra þátta í efnahagsreikningum banka og fyrirtækja. Þetta tvennt virðist í algerri mótsögn við hvort annað þar sem fyrst er lagt til að tekin séu erlend lán til að fjárfesta en á sama tíma eigi að skuldbreyta erlendum lánum í innlend. Þetta virðist einnig vera í mótsögn við þá kenningu að veruleg lækkun vaxta örvi ekki fjárfestingu.

Engin sérstök ástæða er til að efast um hagfræðilega hæfni stjórnenda bankans en hvað býr þá að baki slíkum orðum sem við fyrstu sýn ganga alls ekki upp?

Óvissa er óþolandi

Ef það er eitthvað sem letur fjárfesta og fjármagnseigendur er það óvissa og áhætta. Fyrirkomulag peningamála og efnahags- og atvinnustefna stjórnvalda er óljós og engin pólitísk samstaða um hvert skal halda.

Vonandi er það ekki mat seðlabanka­stjóra að óvissa og ósamstaða sé svo mikil að aðstæður til atvinnusköpunar séu svo erfiðar að veruleg lækkun vaxta skipti engu máli. Það er hrollvekj­andi ef sú er raunin.

Plan B

Sýn seðlabankastjóra á framvindu efna­hagsmála ef ekki næst að endurfjár­magna skuldir hins opinbera og styrkja gjaldeyrisvaraforðann er ekki síður hroll­vekjandi en nýja hagfræðikenningin. Gjaldeyrisforðinn dugar fyrir afborgun þessa árs og næsta en þá er hann búinn. Plan B fellst þá í því að leyfa gengi krón­unnar að falla hressilega og auka enn á afganginn af vöruskiptum til að safna í gjaldeyrisvaraforða. Plan B felur þannig í sér þungar byrðar á fyrir­tæki og heimili í landinu.

Gylfi Magnússon, efnahags- og við­skiptaráðherra sagði í sinni ræðu á sama fundi að erfitt verði að byggja upp skil­virkt fjármálakerfi hérlendis án þess að það fái traustari grunn til að byggja á en íslensku krónuna. Íslendingar munu þá búa áfram við óstöðugra verðlag, meiri gengissveiflur og hærri vexti, bæði raun­vexti og nafnvexti, en viðskiptalönd okkar. Kostir sveigjanleikans sem sjálf­stæð mynt gefur vegi ekki þungt á móti þessu. Full ástæða er til að staldra við þessi orð í ljósi þeirrar rússibanareiðar sem krónan og hagstjórn síðustu ára hefur verið.

Skýrir valkostir

Íslenskt atvinnulíf þarf á traustu fjár­málakerfi að halda sem miðlar sparn­aði frá þeim sem spara til þeirra sem vilja framkvæma og byggja upp. Þannig ýtir samhengi sparnaðar og fjárfestinga undir aukna verðmætasköpun og betri lífskjör. Vandséð er hvernig það á að vera hægt í litlu bankakerfi sem er að verulegu leyti einangrað frá umheiminum og byggt á lítilli óstöðugri mynt.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon efnahags- og viðskipta­ráðherra eru báðir fagmenn sem þekkja stöðu þjóðarbúsins og þær ógöngur sem peningastefnan hefur ratað í.
Af orðum þeirra má ráða að brýnt sé að eyða óvissu í peninga- og efnahags­mál­um. Við eigum þá kosti eina að halda krónunni í skjóli hafta um ókomna fram­tíð eða ganga í ESB og taka upp evru. Enginn vafi er á því hvor leiðin sé hag­felldari fyrir iðnað í landinu.