Afl til framfara
Leiðari Íslensks iðnaðar í maí 2010
Endurreisn efnahagslífsins og endurheimt lífskjara almennings hvílir á því að atvinnulífið vaxi og dafni í sinni fjölbreyttustu mynd. Höfuðáherslu þarf að leggja á að efla og styrkja þær greinar og fyrirtæki sem eru best í stakk búin til þess að afla þjóðarbúinu tekna með sem minnstum tilkostnaði. Á næstu tíu árum blasir við að um 35.000 manns þurfa störf. Kappkosta þarf að sem flestir fái störf við útflutningsgreinar. Störf hjá fyrirtækjum sem framleiða og selja vörur og þjónustu með miklum virðisauka og geta greitt góð laun.
Endurreisn efnahagslífsins og endurheimt lífskjara almennings hvílir á því að atvinnulífið vaxi og dafni í sinni fjölbreyttustu mynd. Höfuðáherslu þarf að leggja á að efla og styrkja þær greinar og fyrirtæki sem eru best í stakk búin til þess að afla þjóðarbúinu tekna með sem minnstum tilkostnaði.
Á næstu tíu árum blasir við að um 35.000 manns þurfa störf. Kappkosta þarf að sem flestir fái störf við útflutningsgreinar. Störf hjá fyrirtækjum sem framleiða og selja vörur og þjónustu með miklum virðisauka og geta greitt góð laun.
Hefðbundnar greinar á borð við landbúnað, sjávarútveg eða mannvirkjagerð munu ekki nema í mjög takmörkuðum mæli bæta við sig starfsfólki á komandi árum. Þess vegna verður að róa að því öllum árum að efla hátæknifyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem byggja á rannsóknar- og þróunarstarfi og hafa burði til þess að ná fótfestu á erlendum mörkuðum. Mörg dæmi sanna að íslensk fyrirtæki hafa alla burði til þess að ná mjög góðum árangri ef vel er á spilum haldið.
Markviss forgangsröðun
Á næstu misserum þarf að draga úr kostnaði við rekstur samfélagsins. Undan því verður ekki vikist. Hitt má ekki gerast að fyrirtækin sem við ætlum og verðum að byggja framtíð okkar á nái ekki dafna. Þau verða að hafa aðgang að velmenntuðu fólki í verk- og tæknigreinum hvers konar. Þær greinar verður að verja í niðurskurði. Tækniþróunarsjóð verður að efla og hin nýja Íslandsstofa verður að sinna þessum fyrirtækjum af miklum þrótti.
Allir verða að toga í sömu átt og forgangsraða í þágu þess að sem flest fyrirtæki af þessu tagi nái flugi. Þá gildir einu hvort það eru skólar, stoðkerfi, rannsóknarumhverfi, fjárfestar, ráðuneyti eða samtök í atvinnulífinu. Þegar að kreppir verður að forgangsraða í þágu vaxtarins og annað verður þá að sitja á hakanum, a.m.k. um sinn. Versta niðurstaðan er sú að forðast forgangsröðunina og draga máttinn jafnt úr öllum. Hér þarf auðvitað kjark. Ástæða er til að óttast að hann muni skorta og sýnist t.d. að niðurskurður í menntakerfinu verði þessu marki brenndur. Þar verði valin leið flats niðurskurðar í stað forgangsröðunar.
Samstaða um atvinnuvegaráðuneyti
Hugmyndir um eitt atvinnuvegaráðuneyti eru skynsamlegar og brýnt að stíga það skref. Því miður eru hugmyndir þær sem hafa verið kynntar um margt gallaðar þegar kemur að tilflutningi verkefna og stofnana frá hinu nýja ráðuneyti til annars nýs ráðuneytis auðlinda- og umhverfismála sem einnig er á teikniborðinu. Það skýtur skökku við að þegar brýnt er að byggja upp og efla traust og samstöðu kjósi ríkisstjórnin að móta og setja fram tillögur án þess að eiga nokkurt samráð við atvinnulífið sem þessar breytingar eiga þó að efla og styrkja. Þar þurfa stjórnvöld að gera bragarbót.
Nýsköpun í lykilhlutverki
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins varð til fyrir framsýni og skynsemi þeirra sem þar komu að verki á sínum tíma. Ekki voru þó allir á sama máli og efasemdarraddir mátti heyra í þá veru að sjóður af þessu tagi myndi ekki kunna að fara með fé. Þegar ríkið seldi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins með góðum hagnaði og bankaævintýrið hófst þótti sumum fullsannað að fénu sem rann til NSA hafi verið illa varið.
Fljótt skipast veður í lofti og þessar kenningar afsannast. Rétt var að haga stjórn sjóðsins með þeim hætti sem gert er. Hann sé sjálfstæður og lýtur sjálfstæðri stjórn sem er skipuð að meirihluta fulltrúum atvinnulífsins. Þessi uppsetning hefur gefist vel. Það er óhjákvæmilegt að nýsköpunarfjárfestingar á borð við þær sem NSA fæst við sé samvinnuverkefni atvinnulífsins og stjórnvalda. Þess vegna á að kappkosta að efla sjóðinn um leið og tækifæri gefst til.
NSA hefur sýnt og sannað að hann gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu fyrirtækja framtíðarinnar og hefur sem betur fer getað fjárfest af krafti á liðnu ári og mun gera það áfram.
Hér má ekkert lát verða á.