Krossgötur og tímamót

Leiðari Íslensks iðnaðar í júní 2010

23. jún. 2010

  • Jón Steindór Valdimarsson

Þann 17. júní gleðjumst við yfir því að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð. Vissulega er þakkarvert að geta með sanni sagt að smáríki á borð við Ísland hafi burði til þess að standa á eigin fótum og hafi að mörgu leyti staðið sig vel og búið vel að þegnum sínum.

 

Þann 17. júní gleðjumst við yfir því að vera sjálfstæð og fullvalda þjóð. Vissulega er þakkarvert að geta með sanni sagt að smáríki á borð við Ísland hafi burði til þess að standa á eigin fótum og hafi að mörgu leyti staðið sig vel og búið vel að þegnum sínum.

Viðurkenning fyrir Ísland

Sjálfstæði og fullveldi þýðir hins vegar ekki að þar með sé hægt að ráða eigin örlögum í einu og öllu – því fer fjarri. Þjóðir heimsins verða sífellt háðari hver annarri og verða að ráða sameiginlega fram úr margvíslegum málum. Þar ríður á að geta sýnt sveigjanleika og hæfileika til málamiðlana til þess að ná settu marki. Til þess verður að deila valdi og áhrifum.

Það er því gleðiefni að einmitt þennan dag árið 2010 skuli 27 aðrar sjálfstæðar og fullvalda þjóðir bjóða Ísland velkomið til samningaviðræðna um að gerast aðili að nánasta og víðtækasta samstarfi sem þjóðir eiga með sér. Evrópusambandið felst þar með á beiðni Alþingis og ríkisstjórnarinnar. Það er ekki lítil viðurkenning fyrir land eins og Ísland. 

Vanda skal …

Nú ríður á að vanda samningaviðræðurnar og að allir sameinist um það markmið að ná góðum samningi fyrir heildarhagsmuni Íslands. Rétt er að minna á ályktanir tveggja síðustu Iðnþinga um þessi efni.

Í mars 2009 sagði: "Margt bendir til að íslenskt efnahagskerfi geti ekki staðið eitt og sér og stuðst við eigin gjaldmiðil ef Íslendingar ætla sér að vera í framvarðasveit þjóða í hagsæld og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf í senn að leysa þann bráðavanda sem að steðjar og marka stefnu til framtíðar. Mikilvægur og ómissandi þáttur er grundvallarbreyting í peningamálum og stjórn efnahagsmála. Þar er eina raunhæfa leiðin að ganga í ESB og taka upp evru."

Í mars 2010 sagði Iðnþing: "Ísland hefur sótt um aðild að ESB og samningaviðræður hefjast innan skamms. Áríðandi er að samningaferlið verði opið og gagnsætt og kappkostað verði að ná niðurstöðu þar sem heildarhagsmunir bæði fólks og fyrirtækja verði hafðir að leiðarljósi."

Samtök iðnaðarins hafa alla tíð beitt sér fyrir málefnalegri umræðu og upplýsingamiðlun um Evrópumálin og þýðingu aðildar fyrir iðnaðinn og Ísland. SI munu með sama hætti leggja sitt af mörkum í sjálfu samningaferlinu og síðan í umræðu um aðildarsamninginn þegar hann liggur fyrir. 

Ekki sakar að minna á að 17. júní verður haldinn hátíðlegur á Íslandi um ókomna tíð. Það mun ekki breytast við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Íslendingar eru og verða Íslendingar. 

Uppbygging …

Forsenda þess að unnt sé að endurreisa velferð og viðhalda henni er að atvinnulífið fái góð skilyrði til vaxtar en um leið stöðugleika í efnahagsumgjörðinni. Efnahagslegar kollsteypur af því tagi sem við höfum mátt þola og hafa magnast margfalt vegna krónunnar og peningamálastefnunnar mega ekki endurtaka sig.

Forgangsverkefni okkar á öllum vígstöðvum á að vera að byggja upp greinar og fyrirtæki sem skapa þjóðinni gjaldeyristekjur með starfsemi sem byggir á miklum mannauði og virðisauka. Þetta er eina færa leiðin sem við eigum.

Það er hættulegt að skerða getu menntakerfisins til þess að skila atvinnulífinu fólki sem getur tekist á við verkefni í þessum fyrirtækjum. Við eigum að vera óhrædd við að forgangsraða í þágu framtíðarinnar í menntakerfinu. Sama gildir um að grípa tækifærið til þess að gefa atvinnulausum tækifæri til þess að mennta sig, endurmennta eða umskóla sig frá grunni.

Á krossgötum blasa tækifærin við. Nú ríður á að hafa vit á að velja rétta leið og sameinast um hana - ekki þrasa um hvort fara á til hægri eða vinstri.