Skattastefna dauðans

Leiðari Íslensks iðnaðar í júlí 2010

11. ágú. 2010

  • Stjórn 2009 Helgi

Það er skylda atvinnurekendasamtaka eins og Samtaka iðnaðarins að vara við og benda á þær hættur sem felast í skattpíningu sem leiðir til minnkandi hagvaxtar, landflótta fólks, minnkandi áhuga á vinnu, aukningu skattsvika og tilburða fyrirtækja til að flytja starfsemi sína úr landi.

Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir stórfelldum skattahækkunum á fólk og fyrirtæki frá því hún komst til valda fyrir hálfuöðru ári. Ljóst var að einhverjar skattahækkanir yrðu ekki umflúnar vegna þess ástands sem skapast hefur eftir hrunið. En það hefur verið gengið allt of hart fram og mér segir svo hugur um að áfram verði haldið á þeirri óheillabraut með afleiðingum sem fæstir vilja horfast í augu við. Það er skylda atvinnurekendasamtaka eins og Samtaka iðnaðarins að vara við og benda á þær hættur sem felast í skattpíningu sem leiðir til minnkandi hagvaxtar, landflótta fólks, minnkandi áhuga á vinnu, aukningu skattsvika og tilburða fyrirtækja til að flytja starfsemi sína úr landi.

Hætta á fólksflótta

Það er ekki hlaupið að því fyrir fólk að flýja land undan óbilgjarnri skattheimtu en það er engu að síður farið að bera á því. Þekkt eru dæmi um að fólk sem sá fram á að þurfa að greiða gífurlegar fjárhæðir í svonefndan „auðlegðarskatt“ hefur þegar fluttst úr landi. Það er þá líklega fólkið sem hefði borið hvað mestan skatt en ekki hinir sem minna mega sín. Viðbúið er að skatthlutfallið á þá sem eftir verða muni hækka og ósanngirnin því aukast enn frekar.

Við þurfum sannarlega ekki á því að halda núna að hrekja fólk úr landi vegna skattpíningar. Nægilegt viðfangsefni er að halda okkar fólki sáttu í landinu með því að skapa atvinnu. Það gengur ekki of vel því viðvarandi atvinnuleysi er nú um 15.000 manns og ekki er að sjá að það muni minnka á næstunni.

Kosið með fótunum?

Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja er að versna í alþjóðlegum samanburði. Forstjóri Kauphallar Íslands telur að hætta á fyrirtækjaflótta sé raunveruleg. Nokkur íslensk iðnfyrirtæki sem stunda alþjóðlega starfsemi eru með höfuðstöðvar sínar á Íslandi. Það væri okkur mikið áfall ef þau teldu hag sínum betur borgið með því að flytja höfuðstöðvar sínar til útlanda. Á annan áratug unnu stjórnvöld að því að skapa hér áhugavert skattaumhverfi fyrir þessi fyrirtæki og annað atvinnulíf. Nú er verið að breyta því hratt og örugglega til verri vegar og maður fær ekki betur séð en að talsmenn ríkisstjórnarinnar séu býsna hreyknir af þeirri stefnumörkun. Tekjuskattur fyrirtækja var hækkaður í fyrra úr 15% í 18% og skattalögum var breytt mjög til hins verra varðandi ráðstöfun og skattlagningu á arði. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður úr 10% í 18% - eða um heil 80%! Fregnir herma að vilji sé til þess í herbúðum stjórnarliða að herða enn á þessum og öðrum skattahækkunum.

En fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Sumir komast hvorki lönd né strönd en aðrir geta einfaldlega kosið með fótunum – farið úr landi. Mesta hættan er fólgin í því að við missum þá sem við megum síst við að missa.

Miklar takmarkanir

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga snýst m.a. um það að halda fólki sáttu í landinu, að laða fólk til baka sem hefur farið utan að afla sér menntunar og einnig að halda þeim fyrirtækjum í landinu sem skapa störf, skapa verðmæti og skila sköttum í sameiginlega sjóði. Þá þarf samkeppnisumhverfið að vera með þeim hætti að útlendingar þori að fjárfesta á Íslandi og að þeir sjái sér hag í því. En samanburður á því sviði er okkur sannarlega ekki hagstæður nú um stundir eins og fram kemur í því að Ísland er nú í öðru sæti á lista aðildarríkja OECD yfir þau lönd sem hafa mestar takmarkanir á beinni fjárfestingu erlendra aðila. Mestar eru hömlurnar í Kína, þá kemur Ísland og Rússar fylgja á eftir okkur.

Þá er stöðugleiki í skattheimtu grundvallaratriði þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingar. Bæði innlendir og erlendir aðilar verða að geta treyst því að stefna stjórnvalda varðandi skattamál sé langtrímastefna sem hægt sé að byggja fjárfestingaráform á.

Það er kominn tími til að draga stórlega úr hömlum á þessu sviði. Við þurfum uppbyggingu og fjárfestingar í landinu, m.a. með atbeina erlendra samstarfsaðila. Við megum ekki láta einangrunaröflin ráða hér för. Við þurfum að bregðast við strax.

Íslendingar mega engan tíma missa við að auka verðmætasköpun, efla hagvöxt og draga stórlega úr atvinnuleysi.

Höldum fólkinu og fyrirtækjunum í landinu. Ekki með höftum og hömlum heldur með aðlaðandi starfsumhverfi og vænlegri framtíðarsýn.